Landgræðsla ríkisins hefur að verulegu leyti vanrækt þær skyldur sínar að verja verndarsvæði Mývatns og Laxár fyrir innrás lúpínu og umhverfisráðuneytið virðist ekki hafa uppfyllt skyldur sínar varðandi eftirlit með landgræðsluverkefninu á Hólasandi.
Þetta er niðurstaða rannsóknar Aagot V. Óskarsdóttur lögfræðings sem fjallar um hraða útbreiðslu lúpínu á verndarsvæði Mývatns og Laxár í nýjasta hefti Náttúru-fræðingsins.
Aagot hefur fylgst með lúpínunni á þessu viðkvæma svæði og rekur hraða útbreiðslu hennar til landgræðsluverkefnis sem hófst um miðjan tíunda áratug síðustu aldar á Hólasandi.
Í grein sinni sem nefnist Útbreiðsla alaskalúpínu á norðurhluta verndarsvæðis Mývatns og Laxár, dregur Aagot saman gögn um undirbúning Hólasandsverkefnisins til að athuga hvernig áhættan af dreifingu lúpínu út fyrir landgræðslusvæðið var metin á sínum tíma. Ennfremur rekur hún hvaða skilyrði Landgræðslunni voru sett til að draga úr hættunni.
Rannsókn Aagot sem er fyrst og fremst á sviði umhverfisréttar og stjórnsýsluréttar tekur m.a. til laga um vernd Mývatns og Laxár og ábyrgðar Íslands vegna alþjóðlegra skuldbindinga um náttúruvernd en svæðið er Ramsar-svæði. Sem fyrr segir er niðurstaða hennar sú að skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og eftirliti verið áfátt.
Í nýjum Náttúrufræðingi, 87. árg. 3–4 hefti, má einnig fræðast um elstu lífveru sem þekkt er í heiminum, kúskelina Hafrúnu sem var 507 ára þegar hún var veidd 2006. Ennfremur um baráttuna gegn sullaveikinni, um nýtt landlíkan af Íslandi og um hettumáf í Eyjafirði en þar virðist áralöng fækkun á enda.
Nánar um nýja heftið hér.