Teista (Cepphus grylle)

Teista í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Teista telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og allir sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa einu eggi nema teista.

Útlit og atferli

Teista er eini íslenski svartfuglinn sem er svartur á kviði. Á sumrin er teistan alsvört, nema með hvítan blett á vængþökum og ljósa, svartbrydda undirvængi. Á veturna er hún ljósari en aðrir svartfuglar, svart- eða grárákótt að ofan, ljósleit að neðan, með svart stél og vængreitirnir minna áberandi. Ungfugl er dekkri, með rákótta vængreiti og dökkan koll. Goggurinn er svartur, mjór og oddhvass, kok og tunga rauð. Fætur eru hárauðir á sumrin en gulir á veturna, augu dökkbrún.

Vængir teistunnar eru fremur stuttir og breiðir, hún flýgur oftast lágt yfir haffleti með hröðum vængjatökum og eru vængreitir þá áberandi. Hegðun svipar til langvíu en teista er hreyfanlegri á landi. Teistur sjást venjulega stakar eða í litlum hópum.

Gefur frá sér hást, sérkennilegt tíst, sem getur verið mjög skerandi. Nafnið er væntanlega komið af þessu tísti.

Teista í Flatey á Breiðafirði.

Teista í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Lífshættir

Aðalfæðan er sprettfiskur (skerjasteinbítur), sem hún tekur á grunnsævi. Hún tekur einnig annan smáfisk, eins og sandsíli og marhnút, og hryggleysingja, svo sem krabbadýr, burstaorma og kuðunga.

Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó. Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum. Eggin eru tvö og er útungunartíminn um mánuður, Ungarnir verða fleygir á sex vikum og yfirgefa þeir hreiðurholuna fullvaxta.

Teistuhreiður á Steingrímsfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Teista með sprettfisk í Flatey á Breiðafirði.

Ung teista í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og stofnstærð

Töluvert af íslenskum fuglum, aðallega ungfuglar, hafa vetursetu við Grænland, annars er teistan staðfugl að stórum hluta. Eitthvað af norrænum teistum hefur hér vetrardvöl. Heimkynni teistu eru á norðurslóðum, umhverfis norðurhvel.

Friðun teistu

Í maí fyrir ári skoraði Fuglavernd, Skotvís og Vistfræðifélagið á umhverfisráðherra, að friða teistuna. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. Til dæmis hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959, en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda. Tölur yfir veidda fugla hafa dregist saman um þriðjung síðastliðna tvo áratugi: úr 4.129 fuglum að meðaltali árin 1995-2002 í 2.740 fugla að meðaltali á ári 2004-2013 skv. veiðitölum.

Leiddar hafa verið líkur að því að fækkun teistu tengist:
1. breytingum á fæðuframboði;
2. ágangi minks í landvörp; og
3. meðafla í grásleppunetum.

Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Veiðar á teistu eru ekki sjálfbærar. Umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, tók vel í þessa beiðni félaganna og tók friðun teistu gildi 1. september 2017.

Teistur í Steingrímsfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Teista í vetrarbúningi á Ólafsfirði.

Teista með hrognkelsaseiði í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú

Þjóðtrúin er fremur fáskiptin um teistuna. Þó segir Snorri á Húsafelli að þegar stormur er í nánd, fljúgi hún með tísti kringum skip. Einnig varaði hún við illhvelum með því að setjast á borðstokk skipa og fljúga síðan til lands. Víða taldist ólánsmerki að drepa fullorðna teistu.

Kveðskapur

Teistur í urðum tísta ótt,
telst það furða hvað þær geta.
Við ætisburð að ungum fljótt,
og ekki er þurrð á hvað þær eta.

Eftir Þorstein Díómedesson.

Út um grundir graðhestar,
geitur, hundar, urriðar,
teistur, lundar, tittlingar,
taka undir stemmurnar.

Eftir Þórarinn M. Baldursson.

 

Myndir og texti: Jóhann Óla Hilmarsson.