„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.
Í dag var undirritaður samningur milli Náttúruminjasafnsins og Perlu norðursins um að safnið fái til afnota um 350 fm nýja hæð í Perlunni. Sérsýning safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, verður opnuð þar 1. desember n.k. og verður opnunin liður í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu norðursins undirrituðu samninginn að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur.
„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Með ráðherra eru á myndinni Hilmar J. Malmquist og Gunnar Gunnarsson. Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.
„Þetta er mjög merkur og ánægjulegur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Þetta verður fyrsta sýningin frá stofnun safnsins 2007 sem safnið sjálft hannar frá grunni og setur upp,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
„Það er löngu brýnt að þjóðin eignist góða aðstöðu til sýningahalds fyrir Náttúruminjasafnið, höfuðsafn landsins í náttúrufræðum. Nú hillir undir að slík uppbygging verði að veruleika með fyrirheiti í ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 og það er ánægjulegt að geta opnað þessa sérsýningu 1. desember n.k. Það er rík ástæða til að þakka bæði Perlu norðursins og ráðherranum, Lilju Alfreðsdóttur, fyrir að leggja sitt af mörkum til að þess gamli draumur geti ræst.“
Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar segir ánægjulegt að fá Náttúruminjasafn Íslands í Perluna sem viðbót við hina einstöku sýningu Undur íslenskrar náttúru. „Náttúruminjasafnið er eitt af höfuðsöfnum landsins og það er mikið fagnaðarefni að það fái loks sýningaraðstöðu sem því sæmir, á 100 ára afmæli fullveldis Íslands.“
Vatnið í náttúru Íslands
Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.
Vatn er undirstaða lífs á jörðinni. Ísland er óvenju vatnsríkt land og vatn mjög einkennandi í náttúrunni og m.a. þess vegna varð Vatnið í náttúru Íslands fyrir valinu á þessa fyrstu sérsýningu safnsins. Á sýningunni verður fjallað um vatn í víðum skilningi, allt frá hinu smæsta til hins stærsta, frá dropanum til heilla vatnasviða og veðurkerfa, frá sameindum til stórra eininga og frá örverum og plöntum til stærstu vatnadýra.
Á sýningunni verða lifandi vatnadýr og jurtir. Við miðlun efnis verður áhersla lögð á virka þátttöku gesta og efnið sett fram á nýstárlegan hátt.
Sýningunni er ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta, fólks á öllum aldri og ekki síst til barna. Markmið þessarar sýningar er að vekja aðdáun og virðingu fyrir vatni og fræða gesti um undur og furður náttúrunnar og mikilvægi vatns fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.
Náttúruminjasafn Íslands stendur straum af stofnkostnaði sýningarinnar, en 290 milljón króna fjárveiting fékkst til sýningarhaldsins á fjárlögum þessa árs. Samkvæmt ákvæðum samningsins fær safnið nýja rýmið í Perlunni til afnota endurgjaldslaust í 15 ár, en Perla norðursins greiðir einnig rekstrarkostnað, svo sem rafmagn, hita, ræstingu og að auki tvö ársverk safnkennara.