Efni 88. árg. 1-2 hefti Náttúrufræðingsins
Vísindasamfélagið, náttúrufræðslan og íslenskan
Náttúrufræðingurinn hefur nú 88. árgang sinn í nýjum búningi en erindið er enn hið sama: Að vera alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði.
Frá 1931 hefur tímaritið átt farsælt samstarf við íslenska náttúruvísindamenn sem hafa miðlað fróðleik um fræðasvið sín og rannsóknir á síðum ritsins.
Nú hefur hins vegar orðið nokkur breyting á. Þvert á það sem vænta mætti með auknum fjölda menntaðra náttúrufræðinga, öflugra rannsóknaumhverfi, fleiri háskólum og tilkomu rannsóknanáms til hærri prófgráða hefur framboð fræðsluefnis á íslensku ætlað almenningi ekki aukist.
Á þessu eru nokkrar skýringar en í því felast einnig hættur. Um þetta fjallar Droplaug Ólafsdóttir, formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins í leiðara.
Eldgos á fyrstu öldum Íslandsbyggðar
Á þremur fyrstu öldum Íslandsbyggðar urðu a.m.k. 20 eldgos á gosbeltinu á suðurhálendi Íslands en íslenskar heimildir eru þöglar um eldgos og áhrif þeirra fram undir 1200.
Guðrún Larsen fjallar um þetta tímabil í jarðsögu Íslands og einkum um þrjú gos og áhrif þeirra í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslum. Fyrst er að nefna stórt sprengigos sem varð um 877 á 60 km langri gossprungu kenndri við Vatnaöldu; þá Kötlugos um 920 og loks Eldgjárgosið um 939 þegar gaus á 75 km langri sprungu. Einnig fjallar Guðrún um Heklu sem var til friðs fyrstu 230 árin en 1104 varð í fjallinu stærsta sprengigos í því á sögulegum tíma og síðan annað minna 1158. Öllum þessum gosum fylgdi mikið gjóskufall, hraunflæmi og oft jökulhlaup, en landnámslagið margnefnda kom einmitt upp í Vatnaöldugosinu.
Skollakoppur: Líffræði og veiðar
Ígulker hafa verið nýtt til manneldis öldum saman. Aðeins hrognin eru nýtt og þykja sælgæti einkum í Suðaustur Asíu. Tilraunaveiðar á ígulkerinu skollakoppi hófust við Ísland 1984. Aflinn varð mestur 1500 tonn 1994 og var seldur til Japans, en frá aldamótum hefur hann verið á bilinu 130–340 tonn, og mest selt lifandi til Frakklands.
Guðrún G. Þórarinsdóttir og Karl Gunnarsson skrifa yfirlitsgrein um líffræði ígulkersins og veiðar á því en skollakoppur finnst á grunnsævi allt í kringum landið, minnst er þó um hann við suðurströndina. Þau fjalla m.a. um um ofbeit ígulkera í þaraskógi – en þétt breiðfylking skollakopps lagði stórþarann í Eyjafirði að velli í lok síðustu aldar og eyddi einnig botndýrum á stóru svæði.
Skollakoppur og áhrif á landrof
Valdimar Össurarson frá Kollsvík í Rauðasandshreppi hefur fylgst með vaxandi strandrofi sem ógnar fornum verstöðvum og menningar-verðmætum víða um land. Valdimar telur að strandrofið megi rekja til offjölgunar skollakopps við ströndina; ígulkerið hafi eytt þaraskóginum og við færist brimaldan í aukana með stórauknum sandburði, uppblæstri og rofi sjávarbakka.
Áhrif eitrunar á útbreiðslu skógarkerfils
Skógarkerfill finnst nú í öllum landshlutum og breiðist hratt út á frjósömum, röskuðum svæðum m.a. í lúpínubreiðum. Brynhildur Bjarnadóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson og Bjarni E. Guðleifsson skýra frá tilraunum sem gerðar voru í Eyjafirði til að hefta úrbreiðslu þessarar ágengu framandi plöntu. Á árunum 2011–2014 var eitrað með mismunandi styrkleika plöntueitursins glýfosfats og tímasetning úðunar var einnig breytileg. Endurtekin eitrun 3–4 ár í röð virtist skila þeim árangri að skógarkerfillinn hopaði, a.m.k. tímabundið. Hins vegar var tilrauninni hætt m.a. vegna þess að aukin útbreiðsla krabbameins hefur verið tengd við notkun glýfosfats. Niðurstaðan er sú að dýrt og erfitt sé að uppræta skógarkerfil en mögulega megi hafa áhrif á útbreiðsluna með því að beita blönduðum aðferðum: Beit, slætti og sáningu. Forðast eigi að nota plöntueitur.
Gróður í beitarfriðuðum hólmum
Náttúruverndargildi beitarfriðaðra hólma í ám og vötnum er mikið, enda eru þar lítil afmörkuð vistkerfi sem gefa vísbendingu um hvernig gróður landsins hefur þróast án víðtækra áhrifa mannsins. Þar er þó að verða breyting á, m.a. vegna virkjunarframkvæmda sem kaffæra hólma, ágengra tegunda sem dreifast með vatni og gróðursetningu. Sigurður H. Magnússon og Hörður Kristinsson rannsökuðu gróður í Bláfellshólma í Hvítá og Koðralækjarhólma í Tungufljóti og báru flóru þeirra saman við flóru í fjórtán beitarfriðuðum hólmum sem áður höfðu verið rannsakaðir. Í beitarfriðuðum hólmum finnast m.a. margar sjaldgæfar. Telja höfundar mikilvægt að vernda þá hólma sem mikilvægastir eru. Greininni fylgir skrá yfir æðplöntur sem fundust í hólmunum 16.
Af öðru efni í ritinu má nefna skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2017 og eftirmæli um Svein P. Jakobsson jarðfræðing, en hann lést 12. júlí 2016.
Þetta er 1.–2. hefti 88. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 80 bls. að stærð. Ritstjórar þessa heftis eru Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.
Efni 88. árg. 3-4 hefti Náttúrufræðingsins
Mývatn í forgrunni
Nýtt tvöfalt hefti Náttúrufræðingsins er komið út, 3.-4. hefti 88. árgangs. Að þessu sinni má segja að Mývatn sé í forgrunni: Forsíðuna prýðir ljósmynd Árna Einarssonar af Klösum og Kálfastrandarstrípum í Mývatni og meðal efnis er grein Guðna Guðbergssonar um vöktun silungs í Mývatni 1986–2016 og önnur eftir Eydísi Salome Eiríksdóttur og fleiri um áhrif lífríkis á efnasamsetningu Mývatns.
Af öðru spennandi efni má nefna grein um magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa og grein um áhrif vegalagningar í kjölfar virkjunarframkvæmda á áður fáförnum slóðum.
Hér má sjá ágrip af því sem lesendum býðst í nýja heftinu:
Eru veiðitakmarkanir í Mývatni að skila sér?
Fiskistofnar í Mývatni hafa minnkað verulega frá því skráning veiða hófst árið 1900. Upp úr 1920 voru veiddir yfir eitt hundrað þúsund silungar (bleikja og urriði) á ári, en 2016 veiddust aðeins 1.476 silungar í Mývatni. Vísbendingar eru um að veiðitakmarkanir, sem tóku gildi 2011, séu farnar að skila sér í uppbyggingu bleikjustofnsins. Guðni Guðbergsson skrifar um Veiðinýtingu og stofnsveiflur Mývatns á árunum 1986–2016.
Samgöngubætur á víðernum – kostir og gallar
Virkjunum fylgja jafnan vegaframkvæmdir og stórbætt aðgengi að áður fáförnum náttúrusvæðum. En slíkar framkvæmdir höfða aðeins til ákveðinna hópa ferðamanna en fæla aðra frá. Edward H. Huijbens og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa greinina Virkjun áfangastaða um hlutverk samgöngubóta samhliða virkjunarframkvæmdum. Í greininni er rýnt í rannsóknir á áhrifum fyrirhugaðra virkjana á ferðamennsku á Hengilssvæðinu og í Ófeigsfirði á Ströndum, sem og nokkurra virkjunarhugmynda sem voru til skoðunar í 3. áfanga rammaáætlunar.
170 milljón rúmmetrar af kalkþörungaseti
Rannsóknir hafa leitt í ljós að gríðarlegt magn kalkþörungasets er að finna í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Rannsóknir Kjartans Thors á árunum 20000–2012 m.a. með endurvarpsmælingum og sýnatökum hafa leitt í ljós að magnið nemur samtals um 170 milljón rúmmetrum.
Grein Kjartans nefnist: Útbreiðsla og magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa, og voru að mestu unnar fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. sem hefur rekið kalkþörungavinnslu í Bíldudal frá 2007.
Blágrænþörungablóminn í Mývatni
Frumframleiðni græn- og kísilþörunga í Mývatni takmarkast af köfnunarefni. Það á ekki við um blágrænbakteríur sem binda köfnunarefni úr andrúmslofti – og því getur fosfór á endanum takmarkað frumframleiðni í vatninu. Í grein um Áhrif lífríkis á efnastyrk í Mývatni skýrir Eydís Salome Eiríksdóttir ásamt fimm meðhöfundum samhengið milli styrks fosfórs og magns mýlirfa á botni vatnsins. Þar gæti lykilinn að leirlosinu eða blóma blágrænbaktería, verið að finna.
Stormmáfar í Eyjafirði
Stormmáfum hefur fjölgað til margra ára og nýir varpstaðir stöðugt bæst við víða um land. Eyjafjörður er eina stóra svæðið í landinu þar sem fylgst er skipulega með stofnbreytingum þessarar tegundar. Sverrir Thorstensen og Ævar Petersen greina frá talningum í Eyjafirði 2015. Þá voru 622 pör á vöktunarsvæðinu og hafði fækkað um 38 frá 2010. Niðurstöður talninga frá 1980 hafa birst áður í Náttúrufræðingnum.
Upphaf íslenskrar grasafræði og brot úr sögu vatnalíffræðirannsókna á Íslandi
Helgi Hallgrímsson ritar um elstu prentaðar heimildir um plönturíki Íslands, en upphafið var könnun Johans Gerhard König á flóru Íslands 1764–1765 fyrir ritsafnið Flora Danica. Gunnar Steinn Jónsson segir frá heimsókn þýska vatnalíffræðingsins Friedrich Kurt Reinsch til Íslands í júlí 1925 og smásjánni Heimdal sem hann lét útbúa sérstaklega til fararinnar.
Af öðru efni í ritinu má nefna leiðara sem Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags skrifar um Miðlun þekkingar og fræðslu um náttúru Íslands og náttúruvernd; myndir frá opnun sýningarinnarVatnið í náttúru Íslands sem er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands stendur fyrir; ritrýni á bók Guðmundar Eggertssonar, Rök lífsinsog eftirmæli um Margréti Guðnadótturveirufræðing, en hún lést 2. janúar 2018.
Náttúrufræðingurinn hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 100 bls. að stærð. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og fyrir hjón. Hægt er að kaupa tímaritið í lausasölu í verslunum Pennans–Eymundson.
Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.