Efni 89. árg. 1.-2. hefti Náttúrufræðingsins
Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.
Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.
Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.
Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.
Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.
Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.
Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.
Efni 89. árg. 3.-4. hefti Náttúrufræðingsins
Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út.
Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.
50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.
Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.
Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.
Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur Arnalds, Pavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.
Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.
Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.