Hrossagaukur (Gallinago gallinago)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum og jafnvel fæða þá fyrst í stað (tjaldur og hrossagaukur). Undantekningar eru þó frá þessu.

 

Útlit og atferli

Hrossagaukur, sem einnig er kallaður mýrispýta eða mýrisnípa, er algengur, meðalstór vaðfugl, sem fer gjarnan huldu höfði. Hann er í brúnum og ryðrauðum felulitum, nema kviðurinn er hvítur. Mógular rákir á höfði og eftir endilöngu baki eru einkennandi, auk dökkra koll- og augnráka. Jaðrar stélfjaðranna eru hvítir. Kynin eru eins. Brúnleitur goggurinn er mjög langur og fremur sterklegur, styttri á ungfuglum, en mógulir fæturnir fremur stuttir með löngum tám. Augun eru brún.

Hneggjandi hrossagaukur á Stokkseyri.

Hrossagaukur klórar sér við veginn að Fjalli í Hjaltadal.

Fluglag hrossagauks er rykkjótt og sérkennilegt. Á vorin flýgur hrossagaukur hringflug yfir óðali sínu og „hneggjar“ án afláts. Erfitt er að koma auga á hann á jörðu niðri, því hann er var um sig og felugjarn. Þegar hann fælist, flýgur hann snögglega upp með skrækjum og hverfur á braut með hröðum vængjatökum eða steypir sér snöggt til jarðar. Fremur ófélagslyndur fugl.

Röddin er skerandi ískur heyrist þegar hann flýgur upp og hann syngur oft hjakkandi stef, tjakka, tjakka, tjakk. Kunnuglegast er þó hneggið, sem kveður við þegar vængirnir mynda loftstraum sem leikur um ystu stélfjaðrirnar um leið og hann steypir sér niður á flugi.

 

Lífshættir

Hrossagaukurinn stingur löngum goggnum í votan og mjúkan jarðveg og tínir upp orma og aðra hryggleysingja svo sem lirfur tvívængja, bjöllur og áttfætlur. Hann étur einnig ýmislegt jurtakyns.

Hrossagaukur potar eftir æti í snævi þakta jörð við Lambhaga, Reykjavík.

Hrossagaukshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Hann verpur í mýrlendi en einnig á þurrari svæðum á láglendi, t.d. í kjarrlendi og jafnvel uppi á heiðum. Hreiðrið er venjulega vel falið í sinu eða öðrum gróðri, fóðrað með grasi og sinu. Eggin eru fjögur og klekjast á rétt tæpum þremur vikum. Ungarnir eru þrjár vikur að verða fleygir. Foreldrarnir skipta ungahópnum á milli sín og ala hvort um sig upp tvo unga. Utan varptíma (á fartíma) er fuglinn aðallega í votlendi en á veturna í opnum skurðum, dýjaveitum og á jarðhitasvæðum.

Hrossagauksungi í Andakíl.

Hrossagaukur með unga í Mývatnssveit.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hrossagaukur er að mestu farfugl. Nokkrir fuglar hafa vetursetu, þeir finnast í flestum landshlutum. Meginvetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru í Vestur-Evrópu, mest á Írlandi. Hann verpur víða í Evrópu og Asíu.

 

Þjóðtrú og sagnir

Margs konar þjóðtrú fylgir hrossagauknum. Hann átti ekki að geta hneggjað á vorin, fyrst eftir að hann kæmi til landsins, fyrr en hann fengi merarhildar að eta. Hann er þekktur spáfugl. Hann spáði fyrir um sumarið, hvað væri í vændum, eftir því í hvaða átt fólk heyrði hann fyrst hneggja á vorin:

 

Í austri er unaðsgaukur,
í suðri sælugaukur,
í vestri vesælgaukur,
í norðri námsgaukur.
Uppi er auðsgaukur,
niðri nágaukur.

Önnur vísa er svona:

Heiló syngur sumarið inn,
semur forlög gaukurinn,
áður en vetrar úti er þraut,
aldrei spóinn vellir graut.

Hrossagaukur

Hrossagaukur flýgur
undan fótum þér í blánni

þú hrekkur við
hlustar

er það hjartað í brjósti þér
eða hnegg hans við ský.

Eftir Snorra Hjartarson.

Litrófið

Sumarið kann ég að meta
með seytlandi lækjum af heiðinni niður að sjónum
Ég nefni tónstiga hrossagauksins
sem nær frá himni sirkustjaldsins
niður að gólfi
án afláts klifinn af fuglum
í öllum regnbogans litum
Ymjandi kontrabassi hunangsflugunnar
mælir hæð hinna skærustu tóna
Ég kann að meta fimmundagripin
og fúgur trjágreina og lyngs
sem flétta mér hljóðlátan unað

Fyrsti hluti Litrófsins eftir Hannes Sigfússon.

Dansandi hrossagaukar við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Sjaldgæf sjón, hópur hrossagauka á flugi í Holtum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson