Sandlóa

Sandlóa

Sandlóa (Charadrius hiaticula)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þó einkenni margra þeirra sé langur goggur, háls og langir fætur, eru nokkrir með stutta fætur og gogg, þar á meðal fuglar sem tilheyra lóuættinni, sem hér á landi eru sandlóa og heiðlóa. Þeir sækja meira í þurrlendi heldur en margir vaðfuglar með lengri gogg. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.

Útlit og atferli

Sandlóa er með minnstu vaðfuglum hér, álíka stór og sendlingur og lóuþræll, og er hálsstutt og fremur kubbslega vaxin. Hún er grábrún að ofan en hvít að neðan, á sumrin með hvítan kraga um hálsinn og svart belti þar fyrir neðan, einnig svarta grímu um augu en er hvít á enni. Karlinn er ögn litsterkari en kerlan. Sandlóa hefur hvít vængbelti sem sjást vel á flugi. Stél og gumpur eru dökk með hvítum jöðrum. Ungfugl og fullorðin sandlóa í vetrarbúningi eru litdaufari, ungfuglar eru með ljósum fjaðrajöðrum að ofan („hreistraðir“), bæði með grábrúna grímu og bringubelti.

Rauðgulur goggurinn er stuttur og svartur í oddinn, alsvartur á ungfugli. Fætur eru einnig rauðgulir en augun dökk. Röddin er hljómþýð, söngurinn endurtekið vell.

Sandlóuhjón í í Eyrarbakkafjöru, karlinn nær.

Sandlóukarlar í erjum í Eyrarbakkafjöru.

Sandlóuerjur í Eyrarbakkafjöru. Þær eru að slást um besta fæðusvæðið.

Lífshættir

Þessi litli fugl er fjörlegur og kvikur. Hann er vænglangur og flýgur yfirleitt hratt og lágt og með reglulegu vængjablaki. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga sandlóunnar, barmar hún sér og þykist vera vængbrotin, til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Fremur félagslyndur utan varptíma.

Sandlóa tínir skordýr, krabbadýr, orma og lindýr af jörðinni eða úr fjörum, t.d. þangflugulirfur, doppur, mýlirfur og marflær. Við fæðunám er hún mjög kvik, hleypur um og skimar eftir æti, stoppar, hremmir bráðina og er svo rokin af stað aftur.

Sandlóa heldur sig einkum á sendnu landi og í möl, bæði við sjó og á melum og áreyrum inn til landsins. Hreiðrið er dæld í möl eða sand, óhulið, fóðrað með smásteinum og skeljabrotum. Eggin eru venjulega fjögur eins og hjá flestum vaðfuglum. Útungunartíminn er um 24 dagar og ungarnir eru álíka lengi að verða fleygir. Utan varptíma dvelur sandlóan á leirum og í sandfjörum.

Sandlóa á hreiðri á Stokkseyri.

Sandlóuhreiður á Stokkseyri.

Sandlóa barmar sér við hreiður í Breiðavík.

Sandlóuungi í Kollafirði á Ströndum.

Ung sandlóa í Eyrarbakkafjöru.

Útbreiðsla og stofnstærð

Sandlóa er alger farfugl. Hún verpur dreift um land allt, en er algengust við sjávarsíðuna. Hún er einn útbreiddasti fugl landsins, en er alls staðar fremur strjál. Stórir hópar fugla sem verpa á Grænlandi fara hér um vor og haust. Vetrarstöðvar eru með ströndum fram á Bretlandseyjum, í Vestur og Suðvestur-Evrópu (Frakklandi og Pýreneaskaga) og Vestur-Afríku, frá Marokkó suður til Gambíu. Sandlóan verpur auk þess í N-Evrópu og Síberíu, allt austur að Beringssundi og NA-Kanada. Talið er að um 20-30% af heimsstofni sandlóu verpi hér á landi og er hún því íslensk ábyrgðartegund.

Kveðskapur

Sandló lipur fótafim,
fyrirglepur eggjavörgum.
Hleypur tifur harða rim,
Hennar svipur þekkt er mörgum.

Eftir Þorstein Díómedesson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Hrossagaukur

Hrossagaukur

Hrossagaukur (Gallinago gallinago) Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og...
Jaðrakan

Jaðrakan

Jaðrakan (Limosa limosa)

Jaðrakan með vind í fiðrinu í Friðlandinu í Flóa.

 

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum.

Útlit og atferli

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum láglendismýra. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri.

Jaðrakan á varpstað á Stokkseyri.

Ungur jaðrakan í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan lætur í sér heyra í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Goggur er langur og beinn, gulrauður í rótina með dökkan brodd. Fætur eru langir, svartleitir og skaga langt aftur fyrir stélið á flugi. Augu eru brún og augnhringur ljós.

Fluglag er ákveðið með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma.

Jaðrakanapar á góðri stund á Djúpavogi. Litar- stærðarmunur kynjanna sést vel. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreiður jaðrakans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, samlokum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum. Tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Er eindreginn votlendisfugl, verpur í og við margs konar votlendi á láglendi, t.d. flæðiengi, flóa og hallamýrar, og jafnvel í lyngmóum og kjarrlendi, en aldrei langt frá vatni. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu og venjulega vel falið. Eggin eru oftast fjögur. Útungunartíminn er 24 dagar og verða ungarnir fleygir á um fimm vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum. Utan varptíma heldur jaðrakan sig mest í votlendi, á túnum og leirum.

Háfættur jaðrakan leitar ætis í Andakílsá (fyrir umhverfisslys Orku náttúrunnar). Vísindamenn fygljast með ferðum fuglanna m.a. með því að auðkenna þá með litmerkjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakanar á leiru að vorlagi í Álftafirði, Djúpavosghreppi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Jaðrakanar berjast um æti í fjörunni í Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorhret á Stokkseyri. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa langan gogg. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Fyrir 1920 var jaðrakan bundinn við Suðurlandsundirlendið en hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og verpur nú á láglendi um mestallt land. Íslenskir jaðrakanar hafa vetrardvöl á Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu, frá Þýsklandi suður til Portúgals og Marokkó, flestir á Írlandi. Íslenski jaðrakaninn (undirtegundin L. l. islandica) er á norður- og vesturmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Þessi undirtegund finnst aðallega hér á landi, en einnig lítils háttar í Færeyjum, á Hjaltlandi og í Noregi. Annars verpur jaðrakan dreift um Vestur- og Mið-Evrópu, aðallega í Hollandi og austur um Rússland.

Nýkomnir jaðrakanar á Eyrarbakka seðja hungrið eftir farflugið. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þreyttir jarðrakanar eftir langflug hvílast við Dyrhólaós. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hópur jaðrakana síðsumars við Austari-Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan í vetrarbúningi á Stokkseyri. Þeir sjást sjaldan í þessum skrúða hér á landi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Jaðrakan gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, einkum á flugi, annars er hann þögull. Þessi hljóð hafa orðið tilefni sagna og þjóðtrúar. Menn þóttust jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort hann ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar að jaðrakan og sagði: „Vaddúdí, vaddúdí“, sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið ginna sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.“ Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi“ og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín. – Heiti fuglsins er ráðgáta, en ein tilgátan er að þá sé komið úr gelísku.

Kveðskapur

Að Skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.

Eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
Fjölmóður

Fjölmóður

Fjölmóður eða sendlingur (Calidris maritima)

Sendlingur í vetrarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Sendlingur í vetrarskrúða.

Sendlingur, sem Jón lærði Guðmundsson kallar fjölmóð, er af snípuætt og ættkvíslinni Calidris, en henni tilheyra m.a. lóuþræll, rauðbrystingur og sanderla, auk þess títur sem flækjast hingað. Dæmi um títur sem sjást hér nokkuð reglulega eru spóatíta, veimiltíta, vaðlatíta og rákatíta.

Útlit og atferli

Sendlingur er lágfættur og kubbslegur, með stuttan háls og fremur stuttan gogg. Hann er dekkstur litlu vaðfuglanna og líka einn af þeim minnstu, litlu stærri en sandlóa og lóuþræll. Á sumrin er hann grá- og brúnflikróttur að ofan, á höfði og bringu, en hvítur á kviði. Á flugi sjást mjó, ljós vængbelti og svört miðrák í hvítum gumpi. Á vetrum er sendlingur allur grárri. Litur ungfugla á haustin er mitt á milli litar sumar- og vetrarfiðurs fullorðinna. Dökkur, lítið eitt niðursveigður goggur er gulur við rætur. Fætur eru gulleitir. Ljósir hringir eru um dökkbrún augun.

Sendlingur í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur í sumarskrúða.

 

Sendlingur í sumarskrúða.

Sendlingur í sumarskrúða.

Sendlingur flýgur lágt og beint og syndir auðveldlega. Á varpstöðvunum er hann oftast lítið áberandi og laumulegur, nema kannski helst þegar tilhugalífið stendur sem hæst á vorin. Þá stunda karlarnir söngflug af mikilli elju, jafnframt sem þeir lyfta öðrum vængnum til að sýna sig fyrir dömunum. Karlarnir sjá um uppeldi unganna, á varptíma reyna þeir að afvegaleiða óvelkomna gesti með því að hlaupa um úfnir eða þykjast vera vængbrotnir. Taki maður sendlingsunga í lófa sér, eiga karlarnir það jafnvel til að setjast á ungana í lófanum.

Hin einkennandi vænglyfta karlsendlings í tilhugalífinu.

Hin einkennandi vænglyfta karlsendlings í tilhugalífinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur er félagslyndur utan varpstöðvanna og oft í stórum hópum. Hópar á flugi sýna til skiptis dökkt bak og ljósan kvið. Sendlingurinn er dagfarsprúður fugl, með gott lundarfar og spakur og flýgur oft ekki upp fyrr en komið er alveg að honum. Oft má sjá hann sitja á bátum og bryggjum á veturna. Sendlingur gefur frá sér stutt og lágt tíst og á varpstöðvum dillandi vell.

Lífshættir

Fæðan á varptíma er skordýr, köngulær og aðrir hryggleysingjar. Þangdoppur, smágerðar samlokur, burstaormar, krabbadýr og þangflugulirfur eru aðalfæðan í fjörum.

Hópur sendlinga í fjöru í Sandgerði.

Hópur sendlinga í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur að vetri í fjöru.

Sendlingur að vetri í fjöru. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Kjörlendið er margs konar; berangur, mosabreiður, lyngmóar og melar, venjulega nærri vatni. Hreiðrið er grunn laut á berangri, oft upp við steina eða grasþúfu, lítilfjörlega fóðrað að innan. Eftir klak yfirgefur kerlan fjölskylduna, en karlinn sér um uppeldi unganna. Utan varptíma er sendlingurinn helst í grýttum fjörum og á leirum.

Send.ingur á hreiðri við Veiðivötn.

Sendlingur á hreiðri við Veiðivötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýklakinn sendlingsungi. Við Skálasnagabjarg, Snæfellsnesi.

Nýklakinn sendlingsungi. Við Skálasnagabjarg, Snæfellsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Urptin er fjögur egg, eins og hjá flestum vaðfuglum. Varptíminn er frá miðjum maí og síðustu ungar verða fleygir um miðjan ágúst. Álegan tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á svipuðum tíma.

Fullvaxinn og fleygur sendlingsungi. Í Flatey á Skjálfanda.

Fullvaxinn og fleygur sendlingsungi. Í Flatey á Skjálfanda. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Sendlingur er allalgengur en fremur strjáll varpfugl. Hann er algengasti vaðfuglinn hérlendis á veturna og sá eini sem sést reglulega á Norður- og Austurlandi. Sendlingar frá norðlægari slóðum, kanadísku heimskautaeyjunum og ef til vill Grænlandi, koma hér við vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva á Bretlandseyjum og V-Evrópu og einhverjir hafa hér vetrardvöl. Sendlingur er hánorrænn fugl, varpstöðvarnar eru við Atlantshafshluta N-Íshafsins, á Grænlandi og eyjum við Norður-Íshafið, svo og á Norðurlöndum.

Íslendingar bera mikla ábyrgð á þessari tegund vegna þess að áætlað hefur verið að hér séu 30-40% af sendlingum heimsins, en talið er að íslenski varpstofninn sé um 30.000 pör. Þar sem sendlingar eru norrænir fuglar þá má búast við að hlýnandi loftslag sé slæmt fyrir þá.

Sednlingar á flóðsetri í Reykjavíkurhöfn.

Sendlingar á flóðsetri í Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú á ekki margt um sendlinginn. Jón Guðmundsson lærði segir þetta í riti sínu Íslands aðskiljanlegar náttúrur: „Fjölmóðurinn, eður selningurinn. Sumir halda sitthvorn, en eins stærð, lit og eðli hafa þeir; halda sig við ystu fjörur á veturna, en verpur við fremstu fjalla jökla á sumarið; hann er fugla meinlausastur, en óttast þó of margt. Einnig það, þegar fjörur eru, að sjórinn muni mega svo um síðir allur upp þorna… Eru því fullir og kátir um flæðurnar”.

Önnur skemmtileg nöfn, fyrir utan fjölmóð og selning, eru fjallafæla, fjörumús, heiðalæpa, heiðarotta og flóðsvala.

Sendlingar við Reykjavíkurhöfn.

Sendlingar við Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kveðskapur

Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.

Úr Skúlaskeiði eftir Grím Thomsen.

Fimir krabbafætur
fyrstir vildu sparka
spor í sand,
en sendlingurinn saumaði
sólskinið, með flónni,
fast við land.

Úr Vordegi á Eyrarbakka eftir Friðrik Erlingsson.

Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.

Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.