Heiðlóa, lóa (Pluvialis apricaria)

Heidlo37at

Heiðlóa, karlfugl í sumarbúningi. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.

Eftir Pál Ólafsson.

Vorboðinn

Apríl er mánuður vorboðanna, farfuglanna, sem koma langan veg til að sinna kalli náttúrunnar í hinu bjarta, norræna sumri, sumir halda meira að segja áfram enn lengra í norður með stuttri viðkomu hér á landi. Lóan á sérstakan sess í hugum þjóðarinnar sem vorboði og jafnframt er hinn angurværi söngur hennar eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.

Útlit og atferli

Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslenskra móa. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul- og dökkflikrótt að ofan. Svarti liturinn nær ofan frá augum aftur fyrir fætur. Á milli hans og gulflikrótta litarins á bakinu er hvít rönd. Hún hverfur á haustin eins og svarti liturinn og lóan verður þá ljósleit að framan og á kviðnum. Ungfuglar eru svipaðir. Vængir eru hvítir að neðan. Goggur er svartur, mun styttri en á flestum öðrum vaðfuglum. Fætur eru dökkgráir og augu dökk.

Heiðlóa 35

Lóa í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóa í vetrarbúningi baðar sig. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóa í vetrarbúningi baðar sig. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heidlo22b

Heiðlóur á flugi. Lóan er hraðfleygur fugl. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan er hraðfleyg og hana ber einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri. Biðilsflug með hægum, djúpum vængjatökum og söng er einkennandi. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar þykist hún vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Það er kallað að hún barmi sér.  Hún er félagslynd utan varptíma. Þekktustu hljóð lóunnar eru söngurinn á varptímanum, „dírrin-dí“ eða „dýrðin-dýrðin“, sem hún syngur bæði sitjandi og á flugi.

Heiðlóa 33

Lóa afvegaleiðir óvin frá hreiði. Það kallast að hún barmi sér. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Lóan etur skordýr, t.d. bjöllur, áttfætlur, þangflugur, orma, snigla, skeldýr og eins ber á haustin. Hleypur ítrekað stutta spretti í ætisleit og grípur bráðina.

Heidlo40

Karllóa með ánamaðk. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kvenfugl með nýklakinn unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kvenfugl með nýskriðinn unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóa verpur einkum á þurrum stöðum, t.d. í mólendi af ýmsum toga og grónum hraunum, bæði á láglendi og hálendi. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum. Lóan er utan varptíma aðallega í fjörum, lyngmóum og á túnum. Að áliðnu sumri fara lóurnar að safnast í hópa og búa sig undir brottför til vetrarheimkynnanna í V-Evrópu, aðallega á Írlandi, en einnig í Frakklandi, á Spáni og í Portúgal, þar sem þær dvelja við strendur og árósa. Lóan fer seint og kemur snemma, fyrstu lóurnar sjást venjulega í lok mars, þó aðalkomutíminn sé í apríl. Eitthvað af fuglum sést venjulega í fjörum fram í nóvember. Lóur sjást hér stöku sinnum á veturna. Lóan verpur einnig á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og í Rússlandi.

Þjóðtrú og sagnir

Lóan er forspá um veður, hún gerist þögul á undan illviðrum á vorin, en syngur tveimur röddum, ef von er á sól og blíðu. Ef lóur hópa sig í fjörum, er það fyrir votviðri, en leiti þær til fjalla, er kuldi í vændum. Ef margar lóur hópa sig á haustin, er það fyrir hret.

Fólk leitaði lengi skýringa á því, af hverju farfuglarnir hyrfu á haustin og dúkkuðu svo aftur upp á vorin. Því var trúað, að þegar hausthret steðjuðu að, legðust lóurnar í dvala og svæfu allt til vors. Eru til sögur um að þær hafi fundist sofandi í klettagjótum og hellum, en vaknað ef þær voru bornar inn í hús. Sagt er að þær sofi með ungan birkikvist eða víðikvist í nefinu, sumir segja laufblað, og sé þetta tekið úr nefi þeirra, geti þær ekki vaknað aftur.

Heiðlóuhópur að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóuhópur að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan var ekki meðal þeirra fugla sem skapaðir voru í öndverðu. Þegar Kristur var barn, lék hann sér eins og önnur börn, og eitt sinn hafði hann það sér til gamans að búa til fugla úr leir. Þetta var á helgidegi. Þá bar að Sadúsea nokkurn. Hann ávítaði drenginn harðlega fyrir þetta, því að það væri helgidagsbrot og ætlaði síðan að brjóta allar leirmyndirnar. Þá brá Kristur hönd yfir þær og um leið lifnuðu allir fuglarnir.

Heylóarvísa

Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„lofið gæsku gjafarans –
grænar eru sveitir lands,
fagur himinhringur.

     Eftir Jónas Hallgrímsson.

Dirrindí

Með krús í hendi ég sat eitt sinn;
þá settist lóa við gluggann minn.
Í hennar augum var háð og spott,
og á hennar nefi var lóuglott
Hún söng dirrindí, dirrindirrindí,
bara dirrindí, dirrindirrindí.
En þó hún syngi bara dirrindí,
fannst mér vera þó nokkuð vit í því.

     Úr Dirrindí eftir Jónas Árnason.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.