Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.
Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.
Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.
Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.
Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.
Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.
Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.