Sunnudaginn 10. nóvember kl. 12 opnar einkasýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ég hef misst sjónar af þér í Safnaðarheimili Neskirkju. Hluti sýningarinnar teygir anga sína yfir til gömlu Loftskeytastöðvarinnar á Brynjólfsgötu, skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands, þar sem eitt verkanna er sýnt á þakkanti hússins.
Á sýningunni gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu og sækir efnivið í andstæða póla; annarsvegar í hinn tilbúna, manngerða heim, og hins vegar í náttúrulegt lífríki sjávar. Sýningin ber með sér áríðandi en þögul skilaboð um stöðu sjávarspendýra á válista og vekur til umhugsunar þá firringu eða fjarlægð sem orðið hefur milli manns og náttúru. Verkin byggja á Morse-kóða, sem notaður er í alþjóðlega stöðluð kallmerki, og birtist m.a. í ljósaseríum í gluggum og utanhúss. Þannig seilist sýningin út í almannarýmið og tengir saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega).
Nánar um sýninguna:
Frá örófi alda hefur maðurinn þróað með sér leiðir til að ná áttum, ýmist í landfræðilegum eða andlegum skilningi. Allt frá því að siglingar yfir úthöf urðu mögulegar hefur siglingafræðin verið einn aðal drifkraftur slíkrar þróunar, og með auknum hreyfanleika og fjarlægðum þróuðust leiðir til fjarskipta, eins og Morse-kóðinn. En hreyfanleiki mannsins og allar þær tækniframfarir sem honum fylgdu fólu einnig í sér myrkari afleiðingar. Andstæðuparið “við og hinir” varð að varanlegu valdatæki nýlenduvæðingarinnar, sem á dramatískan hátt riðlaði jafnvægi ekki eingöngu milli ólíkra hópa fólks heldur einnig milli manns og náttúru.
Síðan Morse-kóðinn var tekinn í notkun á fyrri hluta 19. aldar hefur hann leikið lykilhlutverk í samskiptum varðandi sjávarháska, hernað og annan voða. Kóðinn er eins konar stafróf þar sem bókstafir eru myndaðir með stuttum og löngum einingum og má segja að sé undanfari að því tvíundarkerfi sem forritunarmál tölvunarfræðinnar byggir á í dag. Til að einfalda samskipti við sjó- og loftför enn frekar hefur maðurinn þróað sérstakt kallmerkjakerfi, einskonar tungumál sem nær yfir takmörk allra annarra tungumála. Kerfið er byggt upp af merkjum sem tákna ýmisskonar tæknilegar skipanir eða spurningar, sem gilda í fyrirframgefnum sviðsmyndum. Merkin er hægt að tákna með ólíkum leiðum, s.s. hljóði, ljósi eða reyk. Merkin eru stöðluð og gefin út í Alþjóðlegri handbók merkjasendinga (International Code of Signals), en þekktast þeirra er neyðarmerkið SOS.
Á þessari sýningu gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu, eða öllu heldur sambandsleysi. Efniviðurinn er sóttur í andstæða póla, þar sem manngerðu efni er teflt saman við hinn lífræna heim svo úr verður áhugavert samspil milli ólíkra lífheima og tímabila. Fundið efni, eins og Morse-kóðinn og valin kallmerki mynda efnivið sýningarinnar og eru sett í óvænt samhengi. Í Safnaðarheimili Neskirkju er sérvöldum kallmerkjum varpað fram, skilaboðum sem fylgja nákvæmum reglum í tilbúnu samskiptakerfi. Kallmerkin „EP“ (“Ég hef misst sjónar af þér”) og „FC2“ (“Gefðu upp stöðu þína með sjónrænu merki”) eru tjáð með ljósaseríum í gluggum sýningarrýmisins, og lesast utan frá. Þau má túlka sem ákall mannsins til náttúrunnar, sem svarar til baka með kallmerkjum eins og „QL“ (“Snúið við”) eða „NC“ (“Ég er í hættu og þarfnast tafarlausrar hjálpar”). Köll náttúrunnar eru stöfuð á steintöflur með skeljum, þangi, kóral, eða hvalstönnum, og minna á steingervinga eða forngripi á safni.
Hluti sýningarinnar teygir anga sína til gömlu Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, sem í dag hýsir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Þegar stöðin var tekin í notkun árið 1918 komust á þráðlaus fjarskipti við umheiminn, en loftskeyti voru send og móttekin í Morse-kóða með útvarpsbylgjum. Á þakkanti hússins er verkið „K“ („Með ósk um svar“). Verkið samanstendur af ljósaperum sem stafa tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: “Eubalaena glacialis” (Íslandssléttbakur) og “Balaenoptera musculus” (Steypireyður).
Sem heild tengir sýningin saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega). Báðar stofnanir ávarpa náttúruna með því að senda köll út í óræðar víddir, ýmist í vísindalegum eða heimspekilegum skilningi.
Í tóni sumra kallmerkjanna má greina eftirsjá og jafnvel ótta. Maðurinn virðist hafa misst sjónar af náttúrunni og biður hana um að gefa sér merki; einhverskonar vegvísi svo hann geti ratað rétta leið, náð áttum á ný. Náttúran svarar með neyðarkalli og varar við óræðri en aðsteðjandi hættu. Þessi varnaðarorð hljóma kunnuglega í orðræðu samtímans, en virðast þó ekki hafa tilskilin áhrif. Sýningin vekur upp áleitnar spurningar um tungumálið og tengsl manns og náttúru. Er tungumálið ef til vill ekki lengur merkingarbært? Þarf ef til vill aðra miðla til að skilaboðin komist í gegn, eða annan miðunarbúnað til að sigla eftir?