Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hefur hlotið tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna 2020. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin 18. maí n.k. í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum.

Fimm sýningar og/eða verkefni keppa um verðlaunin að þessu sinni og bárust valnefnd 47 ábendingar um 34 verðug verkefni. Það eru Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sem standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi.

Forvitnileg og fagleg miðlun

Í umsögn segir:

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Opið á ný í Perlunni

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, var opnuð 1. desember 2018. Sýningar í Perlunni hafa verið lokaðar í samkomubanninu undanfarnar vikur, en nú eru þær aftur opnar alla daga vikunnar frá kl. 12 – 18. Minnt er á tímabundna sýningu safnsins á sama stað um Rostunga, en hún var opnuð rétt áður en samkomubannið skall á.

Aðrir keppendur

Auk Náttúruminjasafnsins hlutu tilnefingu sýningin Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi á Egilsstöðum sem þrjú austfirsk söfn standa að; ný grunnsýning Sjóminjasafnsins, Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár; sýningar Listasafns Reykjavíkur, 2019 – ár listar í almannarými og loks Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts.

.