Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn og margmenni á Bessastöðum í gær, sunnudaginn 6. júlí. Það var rekstrarfélag Sarps sem hlaut verðlaunin fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps (www.sarpur.is) og 1.000.000 kr. að auki.
Þrjú söfn voru tilnefnd til Íslensku safnsverðlaunanna árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps, sem hreppti verðlaunin, fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.
Sarpur er heiti á upplýsingakerfi sem nær yfir forrit og gagnasafn þess. Sameignaraðilar Rekstrarfélags Sarps eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn gögnin sem það skráir í gagnasafnið.
Núverandi útgáfa Sarps, Sarpur 3.0, er sú þriðja í röðinni og var smíðuð í samvinnu við Ráðgjafar- og sérlausnasvið Þekkingar hf. Fyrsta útgáfa kerfisins, Sarpur 1.0, var tekin í notkun 1998 og önnur útgáfan, Sarpur 2.0, árið 2002. Í framhaldi af því var stofnað félag um rekstur Sarps. Þjóðminjasafn Íslands smíðaði fyrstu og aðra útgáfuna í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Hugvit hf. með styrk frá Rannís úr Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál.
Í umsögn valnefndar um verðlaunahafann segir:
„Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum.
Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira. Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila.
Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum. Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess. Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.“
Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FISOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.