Næsta fræðsluerindi Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldið mánudaginn 27. október 2014 í sal 101 í Lögbergi, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15. Athugið nýja staðsetningu!
Það er umhverfisfræðingurinn Þorsteinn Jóhannsson sem flytur erindi sem hann nefnir Loftmengun frá eldgosinu í Holuhrauni.
Ágrip af erindi Þorsteins Jóhannssonar, haldið mánudaginn 27. október 2014.
„Í fyrirlestrinum verður fjallað um loftmengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Mikið magn brennisteinsdíoxíðs hefur komið frá eldstöðvunum í Holuhrauni. Fjallað verður um magn losunar, það sett í samhengi við mannlegar athafnir og losun frá öðrum eldgosum. Fjallað verður um hvaða ráðstafanir yfirvöld gripu til vegna loftmengunar frá gosinu og hvað almenningur getur gert til að lágmarka útsetningu frá mengunarefnum.“
Þorsteinn Jóhannsson er fæddur árið 1963. Hann lauk BS prófi í jarðfræði frá HÍ árið 1988 og MS prófi í umhverfisfræði frá sama skóla 2007. Hann starfaði við efnagreiningar á Rannsóknastofnun Landbúnaðarins frá 1988 og frá 1995 vann hann á Iðntæknistofnun við ýmsar mælingar tengdar umhverfismálum eins og t.d. útblástursmælingar hjá stóriðjufyrirtækjum. Þorsteinn hefur starfað á Umhverfisstofnun frá 2007 og er teymisstjóri loftmengunarteymis.