Náttúruminjasafn Íslands og Líffræðistofa Háskóla Íslands hafa gert með sér samning um rannsóknasamstarf á fornlíffræði rostunga við Ísland. Samningurinn var undirritaður í Loftskeytastöðinni föstudaginn 23. janúar síðastliðinn.
Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem felur m.a. í sér aldursgreiningu beina, svipfarsgreiningu þeirra og erfðagreiningu, er að varpa ljósi á fornlíffræði rostunga hér við land, útskýra aldur þeirra, jarðsögulega stöðu, líffræði og hugsanleg tengsl við rostungsstofna annar staðar í norðanverðu Atlantshafi. Gagnasafnið sem liggur til grundvallar rannsókninni nær til beinaleifa um 50 rostunga sem fundist hafa hér við land á undaförnum 100 árum eða svo.
Kveikjan að rannsóknarverkefninu er beinafundur rostunga í fjöru í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þrjár hauskúpur rostunga með skögultönnum fundust með skömmu millibili árið 2008 í fjörunni í landi Barðastaða, Staðarsveit, Snæfellsnesi. Slíkur fundur er mjög óvenjulegur og kann að benda til þess að rostungar hafi haft látur á þessum slóðum fyrr á tímum og/eða að skipstapi hafi átt sér þar stað. Náttúruminjasafnið fékk að gjöf eina hauskúpuna sem fannst 2008 eins og lesa má um á visir.is.
Að verkefninu koma einkum dr. Arnar Pálsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og prófessor Snæbjörn Pálsson við sömu deild. Þá tengjast verkefninu dr. Hreggviður Norðdahl jarðfræðingur og dr. Árný Sveinbjörnsdóttir jarðefnafræðingur, bæði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og dr. Bjarni F. Einarsson forleifafræðingur við Fornstofuna.
Um samkomulag Náttúruminjasafnsins og Líffræðistofunnar má lesa hér: