Ein er upp til fjalla,
yli húsa fjær,
út um hamrahjalla,
hvít með loðnar tær,
brýst í bjargarleysi,
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.
Fyrsta erindið úr Óhræsinu eftir Jónas Hallgrímsson
Rjúpan
Rjúpa (Lagopus muta) er eini hænsnafuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Flestir þekkja rjúpuna, hún er hnellin og vængirnir stuttir og breiðir. Hún fellir bolfjaðrir þrisvar á ári, en flugfjaðrir aðeins einu sinni. Á veturna er rjúpan alhvít, en að mestu brún á sumrin. Á haustin er rjúpan grábrún. Kviðurinn og fiðraðir fæturnir eru hvítir árið um kring, sem og flugfjaðrir, en stélfjaðrirnar svartar. Á vorin skrýðast kvenfuglarnir sumarbúningi um það bil mánuði fyrr en karlfuglarnir, karrarnir. Þeir eru hvítir fram í júní, en þá er kvenfuglinn orpinn. Þeir eru mjög áberandi þegar þeir tylla sér þá á háa staði, þenja rauða kambana og verja óðal sitt. Í algleymi tilhugalífsins eru þeir auðveld bráð fyrir fálka, alhvítir og annars hugar í dökku umhverfi. Þeir stunda þá leirböð af kappi og er hvíti liturinn oft orðinn ansi leirugur, áður en þeir skipta alveg yfir í sumarfiðrið. Annað sem einkennir rjúpuna, er að ungar verða fleygir á 10 dögum, löngu áður en þeir ná fullri stærð.
Rjúpan verpur á lyngheiðum, í móum, kjarri, skóglendi og grónum hraunum frá fjöru til fjalls. Hreiðrið er fóðruð skál, vel falin í runnum eða lyngi. Rjúpur halda til fjalla á haustin en þegar jarðbönn hamla beit leita þær niður á láglendi og halda þá til í hlíðum, kjarri og jafnvel í byggð, kvenfuglar og ungfuglar flakka meira, karrarnir halda sig oft í varplöndunum árið um kring. Rjúpan er einn fárra fugla, sem sjást á miðhálendinu á veturna, hinir eru krummi, snjótittlingur og stundum sést fálki elta rjúpu á snævi þöktu hálendinu.Rjúpan er spakur fugl, þar sem hún er óáreitt.
Jólamatur fátæklinga
Það er ekki ýkja gamall siður meðal almennings, að borða fugla á jólum hér á landi. Til jólahaldsins var fyrr á öldum oftast slátrað lambi og kjötsúpa höfð á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig víða jólamatur og gjarnan borðað á jóladag, en rjúpur voru fátækramatur og bara borðuð á þeim heimilum sem höfðu ekki efni á að slátra lambi fyrir jólahátíðina. Svipaða sögu er að segja um laufabrauð, sem var einnig fátækramatur. Kornmeti var oft af skornum skammti á Íslandi og því var mesta nýnæmið um jól grautar og brauðmeti og þar með talið laufabrauðið, sem er eitt af sérkennum jólahalds á Íslandi. Svínaketsát er nýlegt, þar sem svínarækt lá niðri um aldir og hófst ekki aftur að ráði fyrr en uppúr 1950. Svipað er að segja um gæsaát, sem er fremur nýleg jólahefð í landinu.
Afhverju er rjúpan með loðnar tær?
Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu.
En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar.
En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum. Þetta hefur ekki úr skorðum skeikað né heldur hitt að fálkinn ofsæki hana, drepi og éti, og kennir hann þess ekki fyrr en hann kemur að hjartanu í rjúpunni að hún er systir hans enda setur þá að honum svo mikla sorg í hvert sinn er hann hefur drepið rjúpu og étið hana til hjartans að hann vælir ámátlega lengi eftir svo nístir í gegnum merg og bein. (Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar – Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands).
Jóhann Óli Hilmarsson lagði til myndir og texta.