Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Umsóknarfrestur um þátttöku í námskeiði sumarsins í Svartárkoti hefur verið framlengdur til 15. apríl n.k. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri verkefnisins Svartárkot, menning náttúra segir að námskeiðið sem nefnist „Human Ecology and Culture at Lake Mývatn 1700–2000: Dimensions of Environmental and Cultural Change” verði sem fyrr haldið á grunni íslenskra og alþjóðlegra rannsóknaverkefna sem tengst hafa Svartárkoti á undanförnum árum.

Þátttakendur og hluti kennara á sumarnámskeiði í ágúst 2018 stilla sér upp við Hrafnabjargafossa.

Verkefninu Svartárkot – menning náttúra – var hleypt af stokkunum árið 2006 af ábúendum í Svartárkoti í Bárðardal og félögum í Reykjavíkur Akademíunni undir forystu Viðars til þess að byggja upp alþjóðlegt kennslusetur um íslenska menningu og náttúru sem kennt væri við Svartárkot.

Verkefnið komst á laggirnar og lifði af hrunið 2008. Á alþjóðlegum námskeiðum sem fram fara á ensku er menningarsögu sem drýpur af hverju strái í Þingeyjarsýslum fléttað við hrikalega náttúru allt um kring. Setrið tengir afskekkta byggð við alþjóðlegt háskólasamfélag og vinnur markvisst að samræðu hins staðbundna og hnattræna. Sambúð manns og náttúru er sérstakt rannsóknasvið en meginmarkmið verkefnisins eru að efla umhverfishugvísindi á Íslandi, auka atvinnusköpun í heimabyggð og leiða saman fræðimenn og heimamenn. Með rannsóknarverkefnum vex þekking á menningu og náttúrufari svæðisins sem rennir traustum stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi.

Notuð er aðstaða samkomuhússins og ferðaþjónustunnar á Kiðagili en stefnt að því að með tímanum verði byggð upp nýstárleg aðstaða til fyrirlestra í Svartárkoti.

Handskrifað sveitarblað úr Mývatnssveit, varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík.

Smám saman hafa mótast þrenns konar meginverkefni:

1. Hin eiginlegu akademísku Svartárkotsnámskeið, sem mótuð eru af félaginu sjálfu.

2. Þjónustunámskeið, þ.e. skipulagning og þjónusta við erlenda háskóla sem koma til landsins með stúdentahópa. Þá fer drjúgur hluti námskeiðanna fram í Bárðardal.

3. Unnið er að því að þróa menntaferðir, þ.e. 5–7 daga gönguferðir þar blandað er saman náttúruupplifunum, menningarsögu og þeirri þekkingu sem annars er miðlað á akademísku námskeiðunum.

Um námskeiðin og rannsóknaverkefnin má fræðast nánar á heimasíðu Svartárkots, menningar náttúru.

Fullt  hús á safnanótt

Fullt hús á safnanótt

Talið er að um sjö hundruð manns hafi heimsótt sýninguna Vatnið í náttúru Íslands á safnanótt s.l. föstudag. Starfsmenn Náttúruminjasafnsins tóku á móti gestum en ókeypis var inn á allar sýningar í Perlunni frá kl 18–23. 160 manns skiluðu lausnum í fjölskyldugetraun safnsins en spurningar og þrautir byggðust á sýningunni.

Vinningar voru þrír og fá vinningshafar gjafabréf fyrir 2 fullorðna og 2 börn á sýningar í Perlunni. Dregið var úr réttum lausnum og eru vinningshafar: Helga Skúladóttir, Karólína Guðjónsdóttir og Sæunn Lofn Jónasdóttir. Náttúruminjasafnið þakkar öllum komuna og þátttöku í leiknum.

Leiðrétting

Leiðrétting

Þau mistök urðu við prentun 3.-4. heftis Náttúrufræðingsins, 88. árg. að mynd á bls. 94 sem sýna átti lengdardreifingu bleikju í rannsóknaveiðum í Mývatni 1986–2016 sýndi aðeins lengdardreifingu á árinu 1986.

Hér má hlaða niður og prenta út leiðréttri mynd. Höfundur og lesendur eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum.
NFR_88_3-4_Silungur-bls 94 Leiðrétt

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Nýtt tvöfalt hefti Náttúrufræðingsins er komið út, 3.-4. hefti 88. árgangs. Að þessu sinni má segja að Mývatn sé í forgrunni: Forsíðuna prýðir ljósmynd Árna Einarssonar af Klösum og Kálfastrandarstrípum í Mývatni og meðal efnis er grein Guðna Guðbergssonar um vöktun silungs í Mývatni 1986–2016 og önnur eftir Eydísi Salome Eiríksdóttur og fleiri um áhrif lífríkis á efnasamsetningu Mývatns.

Af öðru spennandi efni má nefna grein um magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa og grein um áhrif vegalagningar í kjölfar virkjunarframkvæmda á áður fáförnum slóðum.

(more…)