by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 25.01.2018 | Fréttir

Spegilslétt Þingvallavatn á fallegum degi.
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands flytur n.k. mánudag, 29. janúar, fræðsluerindi í fundaröð HÍN.
Erindið nefnist Hlýnun Þingvalla-vatns og hitaferlar í vatninu. Það hefst kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju.
Allir eru velkomnir.
Hitamælingar frá 1962
Í erindinu mun Hilmar fjalla um langtímamælingar á vatnshita í útfalli Þingvallavatns frá upphafi reglulegra mælinga á vegum Landsvirkjunar árið 1962 og fram til 2017 og athuga þær mæliniðurstöður í tengslum við veðurfarsbreytur á vatnasviðinu. Hann spáir einnig í langtímaþróun ísalagna í vatninu og gerir grein fyrir vatnshitamælingum úti í vatnsbol Þingvallavatns sem hófust árið 2007 og varpa ljósi á lóðrétta hitaferla í vatninu.
Umtalsverð hlýnun á 30 árum

Ís og skæni á Þingvallavatni.
Rannsóknirnar staðfesta að Þingvallavatn hefur hlýnað umtalsvert á síðastliðnum 30 árum eða svo, frá lokum kuldaskeiðs sem varði milli 1965 og 1985‒86, og fellur hlýnun vatnsins vel að þróun hækkandi lofthita á vatnasviðinu. Ársmeðalhiti í vatninu hefur hækkað að jafnaði um 0,15°C á áratug sem sem er á svipuðu róli og í öðrum stórum, djúpum vötnum á norðlægum slóðum. Mest er hlýnunin að sumri til (júní‒ágúst) með 1,3–1,6°C hækkun á meðalhita mánaðar á árabilinu 1962–2016. Fast á hælana fylgja haust- og vetrarmánuðirnir (september‒janúar) með hækkun á meðalhita mánaðar á bilinu 0,7–1,1°C. Vegna hlýnunarinnar leggur Þingvallavatn bæði sjaldnar og seinna en áður og ís brotnar fyrr upp. Hlýnun vatnsins virðist einnig hafa eflt hitaskil og lagskiptingu úti í vatnsbolnum.
Hverju breytir þetta?
Spáð er í afleiðingar hlýnunarinnar fyrir lífríki vatnsins sem sumar hverjar virðast þegar vera mælanlegar, t.a.m. aukin frumframleiðsla, og sverja þær sig í ætt við breytingar í vistkerfum í vötnum annars staðar á norðurslóð. Þá hafa fordæmalausar breytingar átt sér stað nýlega í svifþörungaflóru vatnsins m.t.t. tegundasamsetningar og vaxtarferils á ársgrunni og kunna þær breytingar að stafa af samverkandi áhrifum hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna í vatnið.
Dr. Hilmar J. Malmquist er líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hilmar hefur um áratugaskeið sinnt margvíslegum vatnalíffræðirannsóknum, þ. á m. vöktunarrannsóknum í Þingvallavatni. Hilmar lauk sveinsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1983, meistaraprófi í vatnavistfræði frá Hafnarháskóla 1985 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla 1992.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 21.11.2017 | Fréttir
Goddur með leiðsögn í Safnahúsinu

Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við LHÍ
Sunnudaginn 26. nóvember klukkan 14 mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) prófessor við Listaháskóla Íslands ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Leiðsögn Godds er á vegum Náttúruminjasafns Íslands og hann mun spá jafnt í hinn sjónræna þátt náttúrunnar í menningunni og huga að framlagi listageirans til náttúrufræðinnar.
Sýningin Sjónarhorn er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.
Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Grunnsýningin stendur yfir í fimm ár – til ársins 2020.
Leiðsögnin á sunnudaginn er ókeypis. Verið öll velkomin!
Hér má sjá umfjöllun um sýninguna á vef Náttúruminjasafnsins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 25.10.2017 | Fréttir
Líffræðiráðstefnan 2017 verður haldin 26.–28. október í Öskju og Íslenskri Erfðagreiningu. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og spannar hin margvíslegu svið líffræðinnar.

Dagskráin er í senn yfirgripsmikil og fjölbreytt. Jón Atli Benediktsson rektor HÍ setur ráðstefnuna kl. 16 fimmtudaginn 26. október en þá flytja þeir Jean-Philippe Bellenger og Arnþór Garðarsson erindi en morguninn eftir hefjast málstofur í hinum ýmsu kimum líffræðinnar.
Náttúruverðmæti – nýjar aðferðir og sýn við mat á verðmætagildi
Föstudaginn 28. október, kl. 13:30 til 14:45, verður haldin málstofa um Náttúruverðmæti í Öskju, stofu 130. Þar munu samstarfsaðilar Náttúruminjasafnsins flytja erindi og fjalla um nýjar aðferðir og sýn við mat á verðmætagildi náttúrunnar og er viðfangsefnið unnið í tengslum við áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Flutt verða þrjú erindi: Gísli Már Gíslason líffræðiprófessir við Háskóla Íslands flytur erindi kl. 13:30 sem hann nefnir Mat á áhrifum vatnsaflsvirkjana á vistkerfi vatnalífvera, dr. Þorleifur Eiríksson líffræðingur hjá Rorum ehf. flytur erindi kl. 13:45 sem hann nefnir Samþætt mat á náttúruverðmætum landssvæða við fallvötn, og Skúli Skúlason líffræðiprófessor við Háskólann á Hólum flytur erindi kl. 14:00 sem hann nefnir Hvernig á að meta verðmæti náttúrunnar? Reynsla frá áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Hér má sjá dagskrána í heild. Á þessum tengli er að finna upplýsingar um erindin, efni þeirra, flytjendur, stað og stund.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 17.08.2017 | Fréttir
Kvenfuglsins enn leitað

Þetta er hann: Karlfuglinn sem drepinn var í Eldey 3. júní 1844 er uppstoppaður í Konunglega belgíska náttúrufræðisafninu í Brussel. Ljósm: Thierry Hubin/Royal Belgian Institute of Natural Sciences.
Hamur karlfuglsins, annars tveggja síðustu geirfuglanna sem drepnir voru við Ísland 1844, er fundinn!
Með DNA-greiningu á innyflum fuglanna, sem varðveitt eru í Náttúrufræðisafni Danmerkur, og samanburði við erfðaefni úr uppstoppuðum eintökum á söfnum víða um heim fannst hamur karlfuglsins í náttúrufræðisafninu í Brussel. Hamur kvenfuglsins er hins vegar enn ófundinn, en vísbendingar eru um hvar hann er niður kominn.
Hamirnir sem hurfu
Þegar fuglarnir voru drepnir í byrjun júní 1844 í Eldey höfðu geirfuglshamir verið eftirsóttir meðal safnara um árabil. Fuglinn var ekki lengur veiddur til átu heldur til að stoppa upp en talið er að til séu í heiminum um 80 hamir og uppstoppaðir geirfuglar – þeirra á meðal sá sem keyptur var til Íslands 1971.
Vitað er að bæði innyflin og hamirnir komu á náttúrufræðisafnið í Kaupmannahöfn 1844 og þar hafa innyfli fuglanna síðan verið varðveitt. Hins vegar hurfu hamirnir, þeir voru á árinu 1845 skráðir í eigu þekkts safnara í Kaupmannahöfn en síðan ekki söguna meir og hafa sagnfræðingar og náttúruvísindamenn reynt að leysa gátuna um hvar þeir væru niður komnir.
Um síðustu aldamót hafði breska geirfuglasérfræðingnum Erroll Fuller tekist að þrengja hringinn og birti hann skrá yfir fimm eintök sem hann taldi að helst kæmu til greina og varðveitt eru í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Og þá kom til kasta nýrrar tækni erfðavísindanna.
Gátan leyst til hálfs
Fimmtán vísindamönnum frá Danmörku, Noregi, Bretlandi, Þýskalandi og Nýja Sjálandi hefur nú tekist að leysa gátuna til hálfs og birtu þeir niðurstöður sínar í sumar í GENES, vísindariti um erfðafræði. Þeir tóku erfðaefni hvatbera úr innyflum síðustu geirfuglanna í Kaupmannahöfn og báru saman við erfðaefni í fjórum uppsettum hömum á söfnum í Kiel og Oldenburg í Þýskalandi, Los Angeles í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu, en Fuller taldi þetta líklegustu eintökin.
Erfðaefni úr vélinda karlfuglsins í Kaupmannahöfn smellpassaði við haminn í Brussel en vonbrigðin urðu mikil þegar erfðaefni úr hjarta kvenfuglsins passaði ekki við neinn haminn. Við nánari athugun telja vísindamennirnir hins vegar líkur á að finna ham kvenfuglsins á safni í Cincinnati í Bandaríkjunum – og hafa reyndar fengið leyfi til að taka sýni úr honum til erfðagreiningar!
Það verður því væntanlega framhald á þessari 173ja ára sögu síðasta geirfuglaparsins sem drepið var við Ísland svo vitað sé.
Geirfugl Pinguinis impennis
Geirfugl var stór fugl af ætt svartfugla og var algengur við norðanvert Atlantshaf fyrr á öldum, þar á meðal við Ísland. Fuglinn var eftirsóttur til matar enda stórvaxinn og feitur. Um hann segir Þorvaldur Thoroddsen í Lýsingu Íslands sem út kom árið 1900:
„Geirfugl var algengur við Ísland fyr á öldum en er
nú horfinn og að öllum líkindum útdauður; seinast
var hann í Geirfuglaskerjum fyrir utan Reykjanes,
en af því fuglinn var eigi fleygur og viðkoman lítilen mikið var drepið eyddist hann fljótt.“
Aldauði tegundar – sérsýning sem var

Vélinda og magi karlfuglsins sem drepinn var í Eldey 1844. Sýnið var tekið úr vélindanu. Ljósm. Ólöf Nordal.
Náttúruminjasafn Íslands og Ólöf Nordal myndlistamaður efndu til sérsýningar um geirfuglinn í Safnahúsinu á síðasta ári.
Sýningunni var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, eiga í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.
Á sýningunni gaf að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýndi veiðar á fugli í Vestmannaeyjum. Sýningin var opnuð 16. júní 2016 og stóð í Safnahúsinu í eitt ár.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 12.07.2017 | Fréttir
Náttúruminjasafn Íslands vinnur nú að undirbúningi og frumhönnun á náttúrusýningu í um 350 m2 rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Verkefnið er fyrri áfangi af tveimur og er skv. samkomulagi sem undirritað var 27. júní s.l. milli fulltrúa Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafns Íslands.

Fyrsta fundinn sátu (frá vinstri): Droplaug Ólafsdóttir, Margrét Hugadóttir, Sólrún Harðardóttir, Bryndís Sverrisdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Skúli Skúlason, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Snorri Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Ljósm. ÁI.
Í gær boðaði Náttúruminjasafnið til fyrsta fundar til undirbúnings sýningahaldinu en á fundinum voru fulltrúar í sýningarstjórn ásamt fræðslu- og fagráði, en nokkrir voru utan bæjar eða í sumarfríi. „Þetta var góður fundur, hópurinn samtaka og margar fínar hugmyndir á lofti“, sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins. „Markmiðið er að gestir sýningarinnar upplifi aðdáun og væntumþykju um náttúru landsins og fræðist um mikilvægi náttúrunnar og náttúrulegra ferla sem undirstöðu lífs og forsendu fyrir farsælli búsetu í landinu.“
Fyrri áfanginn felst í skilgreiningu á innihaldi og efnistökum sýningarinnar, frumhönnun á framsetningu sýningaratriða, kostnaðaráætlun um framleiðslu og uppsetningu, lýsingu á aðgangsstýringu og gestaflæði um rýmið ásamt framkvæmdaáætlun fram að opnun sýningarinnar sem er fyrirhuguð 1. maí 2018. Þessum áfanga skal vera lokið eigi síðar en 15. október 2017. Fáist verkefnið fjármagnað í meðförum Alþingis á haustdögum tekur við annar áfangi sem felst í fullnaðarhönnun sýningarinnar, framleiðslu og í kjölfarið uppsetningu.
Sýningarstjórn
Sýningarstjórn í fyrri áfanganum skipa Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður og sýningarstjóri verkefnisins, Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason prófessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, Bryndís Sverrisdóttir safnfræðingur og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur ritstjóri verkefnisins. Sýningarstjóri fer fyrir sýningarstjórn.
Fag- og fræðsluráð
Hlutverk fag- og fræðsluráðs er að vera sýningarstjórn til ráðgjafar í fyrri áfanga um efnistök og innihald sýningarinnar á vegum safnsins. Fag- og fræðsluráð skipa: Árni Hjartarson jarðfræðingur, Bryndís Marteinsdóttir líffræðingur, Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur, Margrét Hugadóttir kennari, Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur, Snorri Sigurðsson líffræðingur og Snorri Baldursson líffræðingur.