HÍ og Náttúruminjasafn Íslands efla menntun náttúrufræðikennara

HÍ og Náttúruminjasafn Íslands efla menntun náttúrufræðikennara

HÍ og Náttúruminjasafn Íslands efla menntun náttúrufræðikennara

Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands hafa gert með sér samning fyrir yfirstandandi skólaár sem miðar að því efla menntun náttúrufræðikennara og stuðla að samstarfi og samlegð á sviði miðlunar og rannsókna. Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor HÍ, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, undirrituðu samning þessa efnis í Háskóla Íslands nýverið.

Við undirritun samningsins í Háskóla Íslands. Standandi eru Elsa Eiríksdóttir, prófessor við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið, og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands. Sitjandi eru frá vinstri eru Silja Bára R. Ómarsdótir, rektor HÍ, Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafns, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. MYND/Kristinn Ingvarsson

Við Náttúruminjasafnið, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins, starfa sérfræðingar á sviði líffræði og jarðfræði og sérhæft starfsfólk með þjálfun og reynslu í miðlun vísinda. Með samningnum nýja er ætlunin að nýta þessa sérþekkingu meðal annars í samstarfi um menntun kennaranema innan Menntavísindasviðs á sviði náttúruvísinda, en þar er ekki síst horft til kennslu sem tengist náttúru Íslands, sérkennum og sögu. Gert er ráð fyrir að sérfræðingar safnsins sinni kennslu í tilteknum námskeiðum innan Menntavísindasviðs sem snúa að þessum viðfangsefnum og hefur hluti þeirra þegar hafið kennslu.

Silja Bára R. Ómarsdótir, rektor HÍ, Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafns, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs undirrita samninginn. MYND/Kristinn Ingvarsson

Samstarfssamningurinn gerir enn fremur ráð fyrir að nemendur Menntavísindasviðs geti nýtt aðstöðu safnsins í námi og kynnist hvernig það nýtist í kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Enn fremur fá nemendur tækifæri til að þróa fræðsluefni og skipuleggja fræðslu fyrir safngesti og skólahópa um náttúru og vistkerfi Íslands í samstarfi og undir handleiðslu við sérfræðinga Náttúruminjasafnsins. „Það skapast einnig spennandi tækifæri þegar Náttúruhús í Nesi verður tekið í notkun á næsta ári“, segir Silja Bára, rektor Háskóla Íslands, „Við sjáum fyrir okkur að Háskólinn geti stutt við og tekið virkan þátt í uppbyggingu safnsins og þá ekki síst, kennarar og nemendur á sviði náttúruvísinda og náttúrufræðikennslu.“ 

Einnig er gert ráð fyrir að starfsfólk NMSÍ fái tækifæri til að nýta aðstöðu Menntavísindasviðs eftir nánara samkomulagi. Þá er markmið samningsins jafnframt að hvetja bæði fræðimenn og nema hjá stofnunum tveimur til að eiga samstarf um rannsóknir og miðlun á sínum fræðasviðum.

Ragnhildur Guðmundsdóttir settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands til áramóta

Ragnhildur Guðmundsdóttir settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands til áramóta

Skipunartími Ragnhildar Guðmundsdóttur sem forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands framlengdur til áramóta

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur framlengt skipun dr. Ragnhildar Guðmundsdóttur sem forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands fram til áramóta. Ragnhildur hefur starfað við Náttúruminjasafnið síðan 2021 þar sem hún sinnir rannsóknum og fræðslu, en hún er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands.

Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir, staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun kynntu spennandi heim vatnsins fyrir gestum og gangandi á Vísindavöku Rannís laugardaginn 27. september.

Á sameiginlegum bás okkar fengu gestir litlar litabækur og tattúlímmiða með myndum af margs konar smásæjum vatnalífverum sem vöktu mikla lukku. Úrval úr safnkosti Náttúruminjasafnsins var til sýnis og hægt að rýna í örlitla kuðunga með stækkunarglerum og skoða lifandi rykmýslirfur, fullorðið rykmý og örvistkerfi í gegnum víðsjár. Þá var Kortagluggi Íslands, hin glænýja og efnismikla kortasjá Náttúrufræðistofnunar til kynnis.

Stofnanirnar tvær eru báðar þátttakendur í verkefninu Icewater sem er stórt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Icewater verkefnið er styrkt af LIFE áætluninni og er þetta jafnframt einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB.

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heimsótti Náttúruminjasafn Íslands á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn.

Forsetinn skoðaði nýjar framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafnsins, Náttúruhús í Nesi, en framkvæmdir við húsið hafa staðið yfir síðastliðin misseri og er áætlað að húsnæðið verði tilbúið um næstu áramót. Þar kynnti starfsfólkið nýja og afar metnaðarfulla grunnsýningu safnsins fyrir forsetanum en sýningin mun snúast um hafið í allri sinni dýrð, með sérstaka áherslu á Norður-Atlantshafið, vistkerfi hafsins og líffræðilega fjölbreytni þess.

Þá var farið í Nesstofu ásamt Auði Hauksdóttur og Ágústu Kristófersdóttur en þar er undirbúningur hafinn að sýningu um Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Til stendur að tileinka Nesstofu dansk-íslensku vísindasamstarfi og er fyrirhuguð sýning hluti af átaksverkefni íslenskra stjórnvalda til að efla það samstarf en hægt er að lesa um verkefnið hér.

Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands tók á móti forseta Íslands í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi. Frá vinstri: Viðar Hreinsson, Rannveig Magnúsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, frú Halla Tómasdóttir, Helga Aradóttir, Þóra Björg Andrésdóttir, Örn Jónasson, Snæbjörn Guðmundsson, Anna Katrín Guðmundsdóttir og Margrét Rósa Jochumsdóttir.

Í tilefni dagsins voru Höllu færðar bækurnar Sigurður Þórarinsson – mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur, sem gefin var út af Náttúruminjasafninu árið 2021, og Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson en Náttúruminjasafnið kom að útgáfu bókarinnar árið 2016. Einnig fékk frú Halla eintök af tímaritinu Náttúrufræðingnum en Náttúruminjasafnið stendur að útgáfu þess ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands færir Frú Höllu Tómasdóttur kærar þakkir fyrir að sækja safnið heim á þessum hátíðlega degi sem tileinkaður er íslenskri náttúru.

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Þann 1. september 2025 lét Hilmar J. Malmquist af störfum sem forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hann var skipaður forstöðumaður safnsins frá 1. september 2013 af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og hefur því farið fyrir safninu og starfsemi þess í tólf ár.

Hilmari eru færðar kærar þakkir fyrir elju sína og störf í þágu Náttúruminjasafnsins.