Stefna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 er komin út
Stefna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 er komin út
Þann 6. janúar gaf Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, út stefnu íslenskra stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030. Með stefnunni, sem tekur mið af samkomulagi Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Global Biodiversity Framework), setur Ísland sér skýr markmið og tekur þátt í sameiginlegu átaki um að snúa þróun hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni við. Mikil áhersla var lögð á samráð við sveitarfélög, stofnanir, atvinnulífið, félagasamtök og almenning við gerð stefnunnar, sem unnin var af stýrihópi, skipuðum fulltrúum ráðuneyta og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.
Hlutverk Náttúruminjasafns Ísland í stefnunni
Náttúruminjasafn Íslands fær í stefnunni ýmis ábyrgðarhlutverk sem snúa að rannsóknum (Leiðarljós B3 – Verndun tegunda, stofna og erfðabreytileika og F1 – Þekkingargrunnur, rannsóknir og vöktun), menntun (F2 – Öflug menntun um líffræðilega fjölbreytni) og almenningsfræðslu (F3 – Almenningsfræðsla og -þátttaka). Skúli Skúlason, sérfræðingur hjá safninu og prófessor við Háskólanna á Hólum, var skipaður í stýrihóp hvítbókarinnar fyrir hönd háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis í nóvember 2024. Þau verkefni sem Biodice hefur unnið á undanförnum árum hafa einnig skilað sér inn í stefnumótunarvinnuna og má þar nefna málþing og skýrslu um vistkerfisnálgun, stöðumat á málaflokkum atvinnuvegaráðuneytisins vegna samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni og fleira. Hægt er að nálgast þessar skýrslur hér.
Verkefnin framundan
Meginstef stefnunnar snúa að því að málefni líffræðilegrar fjölbreytni fái meira vægi í opinberri stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku á öllum stjórnsýslustigum og í samfélaginu almennt. Helstu verkefnin eru að:
- Styrkja sess líffræðilegrar fjölbreytni innan stjórnkerfisins.
- Vernda og endurheimta vistkerfi og tegundir.
- Nýta land og auðlindir á sjálfbæran hátt.
- Verjast ágengum tegundum, draga úr mengun, samræma loftslagsaðgerðir og lífríkisvernd.
- Ýta undir þátttöku samfélagsins og auka vitund þess um líffræðilega fjölbreytni.
- Efla rannsóknir, vöktun og menntun um líffræðilega fjölbreytni.
Stefnt er að því að árið 2030 hafi 30% lands, ferskvatns, strand- og hafsvæða á Íslandi verið skilgreind sem svæði sem njóta virkrar verndunar, stjórnunar og vöktunar. Jafnframt er markmiðið að 30% raskaðra vistkerfa á landi, í ferskvatni, til stranda og sjávar verði undir virkri endurheimt árið 2030. Þetta eru mikilvæg skref við að styrkja líffræðilega fjölbreytni en ekki síður með tilliti til loftlagsmála þar sem vernd og endurheimt vistkerfa er í senn mótvægisaðgerð og aðlögunaraðgerð. Í samræmi við það hefur Jóhann Páll Jóhannsson, þegar gert endurheimt vistkerfa og votlendis að forgangsaðgerð í loftslagsmálum.
Yfirlýsing ráðherra
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er skýr. Við sögðumst ætla að styðja við líffræðilega fjölbreytni og það erum við að gera. Nú þegar höfum við lögfest samning um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á úthöfum (BBNJ-samninginn), við erum loksins fullgildir aðilar að IPBES – alþjóðlegum vísindavettvangi um líffræðilega fjölbreytni, við erum að rjúfa kyrrstöðuna í endurheimt votlendis og vistkerfa og undirbúningur framkvæmda til endurheimtar á ríkisjörðum er í fullum gangi í samræmi við forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þessi stefna leggur góðan grunn að framhaldinu og ég hlakka til að kynna aðgerðaráætlun sem byggir á stefnunni á þessu ári.“










