Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Stöndum saman – klárum verkefnið

„Það vantar aðeins herslumuninn til að ljúka við Náttúruhúsið í Nesi og opna þar sýningu í þágu almennings. Nú er lag vegna Alþingiskosninganna 30. nóvember næst komandi. Hvaða stjórnmálaflokkar ætla að gera hér bragarbót á og sýna í verki þann stuðning sem Náttúruminjasafn Íslands þarf á að halda?“

Náttúruminjasafn Ís­lands – klárum verk­efnið

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ritar grein á Vísi um stöðu safnsins, uppbyggingu nýrra höfuðstöðva og mikilvægi þess að þjóðin eignist loks fullbúið höfuðsafn á sviði náttúruvísinda sem sómi er að.

Náttúruhús í Nesi, Framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndunum eflt

Á allra síðustu árum hefur áhugi almennings á náttúrusýningum aukist til muna, líkt og aðsóknartölur að náttúrufræðisöfnunum á Norðurlöndunum bera með sér. Þá sýna kannanir í Svíþjóð, Íslandi og Bandaríkjunum að almenningur ber einna mest traust til safna á meðal stofnana í samfélögunum. Þessi staða endurspeglar fagleg hlutverk safnanna og samfélaglega ábyrgð – söfnin teljast til grunnstoða vísinda og mennta, eru uppsprettur rannsókna og þekkingar. Við náttúrufræðisöfnunum blasa einnig ýmsar áskoranir og áhyggjur, einkum skortur á viðunandi aðstöðu til geymslu og varðveislu og þörf á frekari fjárstuðningi, sérstaklega vegna vinnu við stafræna gerð safneignar.

Framangreind atriði voru til umræðu á fundi safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna fimm á sviði náttúrufræða í Stokkhólmi í síðustu viku. 

Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag. Hér gegna náttúrufræðisöfn veigamiklu hlutverki varðandi rannsóknir, vöktun og miðlun á vísindalegum upplýsingum og þekkingu. Þá búa Norðurlöndin yfir svipuðum vist- og landfræðilegum eiginleikum, þ. á m. stórum óbyggðum landsvæðum, umfangsmiklum hafsvæðum, fjölda náttúruverndarsvæða og, síðast en ekki síst, einstaka líffræðilega fjölbreytni með mikið af einlendum tegundunum sem hvergi finnast annars staðar. Aukið samstarf Norðurlandanna á sviði líffræðilegrar fjölbreytni styrkir tvímælalaust grunninn fyrir vísindalega stefnumörkun og ákvörðunartöku hins opinbera á sviði nýtingar og verndunar náttúrunnar, brýnustu framtíðarmálefnum samfélaganna. 

Mikil gæði felast í safneign náttúrufræðisafnanna, sem búa yfir allt að 400 ára gömlum gögnum og gagnaröðum. Öll söfnin glíma hins vegar við svipaðar grundvallaráskoranir og áhyggjur. Ófullnægjandi geymslu- og varðveisluaðstæður, þröngur fjárhagur og takmörkuð nýliðun háir starfsemi safnanna og takmarkar þar með afnot samfélaganna á safneigninni og þeirri sérfræðiþekkingu sem starfsfólkið býr yfir. Þessi staða bitnar m.a. á stafrænni vinnslu safnmuna sem miðar of hægt áfram. Stafræn gerð safneignar er hins vegar þýðingarmikill þáttur í starfseminni, eykur aðgengi að safnkostinum og afnotum í rannsóknaskyni, hefur í för með sér minni þörf fyrir beinan aðgang og snertingu við muni og felur í sér öruggari og öðruvísi varðveislu en með hefðbundnum hætti. 

Samstarfsvettvangur safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna á sviði náttúrufræða leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að hlúa að starfsemi og umgjörð safnanna þannig að samfélagið fái notið að fullu þeirra gagna og gæða sem söfnin búa yfir og nauðsynleg eru til að takast á við stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag – loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni.

Safnstjórar náttúrufræðisafnanna, frá vinstri til hægri: Brit Lisa Skjelkvale (Naturhistorisk Museum, Universitet i Oslo, Noregi), Paula Kankaanpaa (Finnish Museum of Natural History, University of Helsinki, Finnlandi), Lisa Månsson (Naturhistoriska riksmuseet, Svíþjóð), Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Nina Rønsted (Statens Naturhistoriske Museum, Københavns Universitet, Danmörk).

Um fundinn:

Fundurinn var haldinn 23.−24. október 2024 í Stokkhólmi og skipulagður í tengslum við formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni og 76. þing Norðurlandaráðs sem haldið er í Reykjavík 28.−31. október 2024.

Á fundinum tóku þátt eftirtaldir safnstjórar (frá vinstri til hægri á mynd): Brit Lisa Skjelkvale (Naturhistorisk Museum, Universitet i Oslo, Noregi), Paula Kankaanpaa (Finnish Museum of Natural History, University of Helsinki, Finnlandi), Lisa Månsson (Naturhistoriska riksmuseet, Svíþjóð), Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Nina Rønsted (Statens Naturhistoriske Museum, Københavns Universitet, Danmörk).

Hér er hlekkur á sameiginlega yfirlýsingu safnstjóranna fimm eftir fundinn

Nýtt verkefni CAP-SHARE

Nýtt verkefni CAP-SHARE

Nýtt verkefni CAP-SHARE

Verkefnið CAP-SHARE: Byggjum brýr á milli vísindafólks, stefnumótenda og samfélaga (á ensku CAP-SHARE: Building Bridges of Shared Capacity between Scientists, Policymakers, and Communities) hefur hlotið styrk frá Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Interreg Northern Periphery and Arctic) sem nemur rúmum 120 milljónum króna. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem byrjar haustið 2024 og endar haustið 2027. Markmið verkefnisins er að valdefla ungt fólk og styrkja tengsl vísindafólks og stefnumótenda í samfélögum á norðurslóðum þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi verndun líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Áhersla verður lögð á samvinnu við ungmenni og áðurnefndir hópar munu taka þátt í vinnustofum þar sem rödd allra fær að heyrast.

Þátttakendur í verkefninu eru Náttúruminjasafn Íslands, Selasetrið, Húnaklúbburinn og sveitarfélagið Húnaþing vestra ásamt samtökunum Arctic Frontiers í Noregi og Háskóla Lapplands í Finnlandi. Vinnan mun fara fram að hluta til í netheimum en einnig verða vinnustofur og ráðstefnur haldnar í hverju landi fyrir sig þar sem þrjú þemu munu liggja til grundvallar:

  • Byggja brýr á milli samfélaga, stefnumótenda og vísindafólks
  • Hvernig taka skuli tillit til sjónarhorna þvert á kynslóðir heimafólks
  • Fá ungt fólk til að taka þátt í og hafa áhrif á staðbundnar aðgerðir allt frá hugmyndum að stefnumótun

Verkefnið byggir að hluta til á eldra verkefni sem Jessica Aquino, dósent við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, leiddi og nefndist Youth for Arctic Nature. Jessica mun einnig vinna við nýja verkefnið ásamt Cécile Chauvat en hún hefur verið ráðin til Náttúruminjasafnsins sem starfsmaður verkefnisins og verður með starfsstöð á Hvammstanga.

Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð sem staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað dr. Ragnhildi Guðmundsdóttur í starf forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands tímabundið. Ragnhildur hefur starfað við Náttúruminjasafnið síðan 2021 þar sem hún sinnir meðal annars fræðslu, en hún er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands.

Ragnhildur tók við embættinu 21. maí og mun sinna því til 30. september á meðan Hilmar J. Malmquist, núverandi forstöðumaður er í rannsóknarleyfi.

Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir, staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Samkeppniseftirlitið hefur nú lokið skoðun á kvörtun Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Perlu norðursins hf. (PN) frá því í janúar í fyrra vegna áforma Náttúruminjasafns Íslands, eins þriggja höfuðsafna landsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands, um að starfrækja sýningu með ríkisframlagi í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi. Vinna við gerð sýningarinnar hefur staðið yfir frá því um mitt ár 2022 og er stefnt er að því að opna hana vorið 2026. Meginþema sýningarinnar snýst um hafið og sjávarlífríkið.

SAF og PN fóru fram á tvennt við Samkeppniseftirlitið. Að það mælti fyrir um fjárhagslegan aðskilnað sýningahalds frá öðrum rekstri Náttúruminjasafnsins í samræmi við 14. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og að kannað yrði hvort sú starfsemi Náttúruminjasafnsins, sem sé í beinni samkeppni við starfsemi PN, teljist til brota á samkeppnislögum og hvort tilefni sé til að grípa til aðgerða gagnvart safninu á grundvelli ákvæða samkeppnislaga.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er í hnotskurn sú að fyrirhugað sýningahald Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi sé ekki á skjön við samkeppnislög og að rétt sé að loka rannsókn málsins með vísan til forgangsröðunar og þeirra sérlaga sem gilda um Náttúruminjasafn Íslands, þ.e. lög um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og safnalög nr. 1412/2011. Áform Náttúruminjasafns Íslands um sýningahald í Náttúruhúsinu í Nesi, eins og höfuðstöðvarnar eru kallaðar, standa því blessunarlega óbreytt.

 

Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.

Kvörtunin og niðurstaðan

Tilefni kvörtunar SAF og PN er ótti þeirra við að sýning Náttúruminjasafnsins muni keppa við sýningu PN í Perlunni, en þar er að finna sýningaratriði um hafið og aðra þætti náttúru Íslands, sem SAF og PN telja að myndi kippa fótunum undan rekstri PN. SAF og PN líta svo á að starfsemi Náttúruminjasafnsins sé ríkisstyrkt atvinnustarfsemi í beinni samkeppni við einkageirann á frjálsum markaði sem ekki njóti framlaga frá ríkinu. Slíkt skekkti samkeppnisstöðu gangvart einkaaðilum og bryti í bága við ákvæði samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið kemst að annarri niðurstöðu en SAF og PN. Að mati eftirlitsins uppfylla ákvæði í sérlögunum sem gilda um safnið, lög nr. 35/2007 og nr. 141/2011, þau skilyrði …„að ganga framar samkeppnislögum, að þau séu skýr og feli í sér afdráttarlausar og sérgreindar heimildir til frávika frá samkeppnislögum.“. Samkeppniseftirlitið komst jafnframt að því að rekstur fyrirhugaðrar sýningar Náttúruminjasafnsins væri ekki þess eðlis að hann myndi hafa víðtæk skaðleg áhrif á samkeppni þannig að ástæða væri til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar (sbr. 3. mgr. 8.gr. laga nr. 44/2005 og 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005).

Sérlögin sem gilda um Náttúruminjasafn Íslands eru að mati Samkeppniseftirlitsins það skýr og fela í sér afdráttarlausar og sérgreindar heimildir til frávika frá samkeppnislögum að þau ganga framar almennum ákvæðum samkeppnislaga (niðurstöðuliður nr. 14). Samkeppniseftirlitið lítur einkum til þess að starfsemi Náttúruminjasafnsins er rekin í menningar- og samfélagslegum tilgangi án hagnaðarmarkmiða og að stofnunin gegnir lögbundnum hlutverkum á sviði vísindarannsókna, varðveislu, skráningar og fræðslu, ólíkt því sem gildir um PN og önnur einkafyrirtæki undir hatti SAF. Náttúruminjasafnið rækir miðlunarhlutverk sín með sýningahaldi, útgáfu og öðrum hætti og stuðlar þannig að varðveislu á menningar- og náttúruarfi þjóðar og lands. Starfsemi Náttúruminjasafnsins er með slíku móti að hún fellur hvorki undir skilgreiningu á hefðbundinni atvinnustarfsemi né fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga (sbr. 1. mgr. 2. gr. og 2. tölul. 1 mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Fleiri aðilar undir og frekari málsókn?

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er afar þýðingarmikil fyrir Náttúruminjasafnið og vonandi fær safnið núna frið til að vinna óhindrað að undirbúningi á grunnsýningu safnsins á Seltjarnarnesi. Það er hins vegar spurning hvort niðurstaðan hafi ekki fordæmisgildi fyrir aðra opinbera aðila sem sinna sýningahaldi. Eðlilegt er að velta þessu fyrir sér m.a. vegna þess að SAF og PN hvöttu Samkeppniseftirlitið ekki einvörðungu til að skoða starfsemi Náttúruminjasafnsins heldur einnig til að …„taka til athugunar þau söfn og sýningar sem rekin eru af opinberum aðilum og fyrirtækjum í eigu ríkisins,“. Samkeppniseftirlitið fjallar hins vegar ekkert um þennan þátt í niðurstöðum sínum. Líklega er það vegna þess að málatilbúnaður SAF og PN er þannig vaxin að hann gefur ekki tilefni til þess að fjalla frekar um málið (sbr. 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005).

Enda þótt ólíklegt verði að teljast að SAF og PN muni aðhafast frekar í málinu á grundvelli íslenskrar löggjafar er ekki útilokað að farið verði með málið út fyrir landsteinana. SAF og PN beindu nefnilega þeirri fyrirspurn einnig til Samkeppniseftirlitsins hvort framlög ríkisins til Náttúruminjasafnsins … „geti talist til ólögmætrar ríkisaðstoðar.“ á grundvelli ákvæða um ríkisaðstoð í EES-samningnum, sem hefur lagagildi hér á landi á grundvelli laga um Evrópska efnahagssvæðið. Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins er ekki tekin afstaða til þessa atriðis en bent á að SAF og PN geti leitað réttar síns hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Er ekki mál að linni?

Fátt bendir til þess málatilbúnaður SAF og PN gegn Náttúruminjasafni Íslands sé þannig vaxinn að hann muni við frekari meðferð Samkeppniseftirlitsins og eða hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) breyta nokkru um starfsemi eða rekstur Náttúruminjasafnsins. Hið sama virðist eiga við um sýningastarfsemi opinberra aðila almennt í landinu þar sem starfsemin byggir á lögbundnum hlutverkum sem varða rannsóknir, varðveislu og miðlun á menningar- og náttúruarfi okkar.

Þá verður að teljast afar langsótt að niðurstaða ESA muni á nokkurn hátt hugnast hugmyndafræði SAF og PN. Þetta helgast m.a. af því að starfsemi Náttúruminjasafns Íslands hvílir á íslenskum sérlögum sem taka mið af evrópskri löggjöf og reglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) á sviði safnamála og sýningastarfsemi. Kvörtun SAF og PN hjá ESA myndi snerta grunnstarfsemi hjá fleiri tugum þúsunda opinberra sýningaraðila í Evrópu, aðilum sem hafa ríkum, lögbundnum skyldum að gegna við rannsóknir, varðveislu og miðlun á menningar- og náttúrarfi til almennings, hlutverk sem einkageirinn gegnir ekki lögum samkvæmt. Ætla SAF og PN að umbylta þessu fyrirkomulagi í sýningastarfsemi í Evrópu á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að einkaaðilar fari betur með almannafé og menningar- og náttúruarf þjóða en opinberir aðilar? Vonandi verður þeim ekki kápan úr því klæðinu. Það er rúm fyrir bæði einkareknar sýningar og ríkisrekin söfn sem sinna sýningahaldi.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Greinin birtist 16. maí 2024 á Vísi.is