Á allra síðustu árum hefur áhugi almennings á náttúrusýningum aukist til muna, líkt og aðsóknartölur að náttúrufræðisöfnunum á Norðurlöndunum bera með sér. Þá sýna kannanir í Svíþjóð, Íslandi og Bandaríkjunum að almenningur ber einna mest traust til safna á meðal stofnana í samfélögunum. Þessi staða endurspeglar fagleg hlutverk safnanna og samfélaglega ábyrgð – söfnin teljast til grunnstoða vísinda og mennta, eru uppsprettur rannsókna og þekkingar. Við náttúrufræðisöfnunum blasa einnig ýmsar áskoranir og áhyggjur, einkum skortur á viðunandi aðstöðu til geymslu og varðveislu og þörf á frekari fjárstuðningi, sérstaklega vegna vinnu við stafræna gerð safneignar.
Framangreind atriði voru til umræðu á fundi safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna fimm á sviði náttúrufræða í Stokkhólmi í síðustu viku.
Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag. Hér gegna náttúrufræðisöfn veigamiklu hlutverki varðandi rannsóknir, vöktun og miðlun á vísindalegum upplýsingum og þekkingu. Þá búa Norðurlöndin yfir svipuðum vist- og landfræðilegum eiginleikum, þ. á m. stórum óbyggðum landsvæðum, umfangsmiklum hafsvæðum, fjölda náttúruverndarsvæða og, síðast en ekki síst, einstaka líffræðilega fjölbreytni með mikið af einlendum tegundunum sem hvergi finnast annars staðar. Aukið samstarf Norðurlandanna á sviði líffræðilegrar fjölbreytni styrkir tvímælalaust grunninn fyrir vísindalega stefnumörkun og ákvörðunartöku hins opinbera á sviði nýtingar og verndunar náttúrunnar, brýnustu framtíðarmálefnum samfélaganna.
Mikil gæði felast í safneign náttúrufræðisafnanna, sem búa yfir allt að 400 ára gömlum gögnum og gagnaröðum. Öll söfnin glíma hins vegar við svipaðar grundvallaráskoranir og áhyggjur. Ófullnægjandi geymslu- og varðveisluaðstæður, þröngur fjárhagur og takmörkuð nýliðun háir starfsemi safnanna og takmarkar þar með afnot samfélaganna á safneigninni og þeirri sérfræðiþekkingu sem starfsfólkið býr yfir. Þessi staða bitnar m.a. á stafrænni vinnslu safnmuna sem miðar of hægt áfram. Stafræn gerð safneignar er hins vegar þýðingarmikill þáttur í starfseminni, eykur aðgengi að safnkostinum og afnotum í rannsóknaskyni, hefur í för með sér minni þörf fyrir beinan aðgang og snertingu við muni og felur í sér öruggari og öðruvísi varðveislu en með hefðbundnum hætti.
Samstarfsvettvangur safnstjóra höfuðsafna Norðurlandanna á sviði náttúrufræða leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að hlúa að starfsemi og umgjörð safnanna þannig að samfélagið fái notið að fullu þeirra gagna og gæða sem söfnin búa yfir og nauðsynleg eru til að takast á við stærstu hnattrænu áskoranir sem mannkyn glímir við í dag – loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni.