Missir Náttúruminjasafnið af Perlunni?

Skömmu fyrir síðastliðin jól var greint frá því í fjölmiðlum að stofnað hefði verið einkahlutafélag, Perluvinir ehf., í þeim tilgangi að setja upp náttúrusýningu í Perlunni. Þetta kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra Perluvina, Helgu Viðarsdóttur, í Fréttablaðinu miðvikudaginn 16. desember 2015. Í umfjöllun Fréttablaðsins sagði að viðræður milli Náttúruminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt sýningarhald í Perlunni hafi „siglt í strand“. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins brást við þessari fregn með grein í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Hilmar benti m.a. á að viðræður safnsins og borgarinnar hafi beinst að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og að þær hafi verið að frumkvæði safnsins. Einnig að ákvörðun um að hætta viðræðunum hafi verið tekin af hálfu Reykjavíkurborgar.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðum við ráðherra og ráðuneyti hefur nú verið formlega staðfest en fimmtudaginn 7. janúar 2016 birti Reykavíkurborg auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum um að sjá um rekstur og þjónustu á náttúrusýningu í Perlunni. Í kynningarefni auglýsingarinnar er ekki gert ráð fyrir neinni aðkomu Náttúruminjasafns Íslands.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðunum er hörmuð en óskandi að ráðherra og ráðuneytið gaumgæfi vel alla möguleika sem enn eru fyrir hendi á aðkomu Náttúruminjasafnsins að þessu brýna verkefni.
Haftyrðill

Haftyrðill

Haftyrðill (Alle alle)

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðill í vetrarbúningi.

Útlit og atferli

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Haftyrdill10

Haftyrðlar á varpstöðvum á Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Á varpstöðvunum fljúga fuglarnir um í hópum og kalla mikið. Utan varptíma er hann þögull.

Haftyrdill13a

Haftyrðlar á varpstöðvum við Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Haftyrðill kafar eftir æti eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan eru svifdýr og smákrabbadýr: ljósáta, marflær og þanglýs.

Hann verpur í urðum og skriðum undir klettum og sjávarbjörgum eða í klettasprungum og rifum. Dvelur á veturna aðallega við hafísröndina og leitar lítið að landi nema á varptíma.

Haftyrdill14a

Haftyrðlar á flugi að sumri til. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heimkynni og útbreiðsla

Haftyrðill er heimskautafugl sem varp áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Um aldamótin 1900 urpu nokkur hundruð pör í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey, honum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Hann er því fyrsti fuglinn sem við missum af völdum gróðurhúsaáhrifa, en væntanlega ekki sá síðasti.

Til skamms tíma urpu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan. Haftyrðill er mjög algengur í löndum norðan við okkur, t.d. á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða, austur til Franz-Jósefslands. Árlega sést talsvert af honum hér á veturna, sérstaklega eftir norðanáttir og hann fylgir oft hafís. Þá getur haftyrðla hrakið langt inn á land í stórviðrum.

Haftyrðill 06

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Hann átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó:

Einn fugl, sem heitir halkíon

Einn fugl, sem heitir halkíon
á hafinu blá,
búinn af Drottni
bústað á.

Um hávetur sér hreiður
úti á hafinu býr,
þá drjúg er nótt
en dagur rýr.

Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon. Litlar sagnir eru af nýtingu haftyrðils hér á landi, aftur á móti kæsa grænlendingar fuglinn og þykir herramannsmatur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

 

Hátíðakveðja

Náttúruminjasafn Íslands óskar samstarfsaðilum, velunnurum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir samskiptin á árinu 2015.

Jólakveðja 2015

Hrafn

Hrafn

Krumminn á skjánum,
kallar hann inn.Hrafn59
Gef mér bita af borði þínu,
bóndi minn!
Bóndi svarar býsna reiður,
burtu farðu, krummi leiður.
Líst mér að þér lítill heiður,
ljótur ertu á tánum,
krumminn á skjánum.

Þjóðvísa.

Útlit og atferli

Hrafninn (Corvus corax) er eini innlendi fulltrúi hröfnungaættarinnar á Íslandi. Hvert mannsbarn þekkir krumma, sem er bæði elskaður og hataður af þjóðinni. Hann er stærstur allra spörfugla, sterklega byggður, með fremur langa og breiða fingraða vængi og fleyglaga stél. Hann er alsvartur, fullorðinn hrafn er með græna eða fjólubláa gljáandi slikju á höfði og að ofan, úfnar fjaðrir á hálsi og fiðraðar skálmar. Ungfugl er móskulegur og án gljáa. Goggurinn er svartur, sver og sterklegur, efri skoltur fiðraður við rót. Fætur og augu eru svört.

Hrafn06at

Flug hrafnsins er þróttmikið, vængjatökin djúp og hann flýgur beint og oft hátt og lætur sig svífa á þöndum vængjum. Lætur sig oft falla með aðfellda vængi og leikur alls kyns fluglistir. Hoppar gjarnan jafnfætis. Hrafnar eru félagslyndir og halda sig í hópum eða pörum. Krunkið er dimmt og rámt, einnig heyrast gómskellur og fleiri hljóð.

Lífshættir

Hrafninn er alæta, etur hræ, úrgang, egg og unga, skordýr og ber, og fangar jafnvel fullorðna fugla. Auðvelt er að hæna hrafna að með matgjöfum og eru þeir sólgnir í flest allt sem fyrir þá er borið, þó helst fitu. Það þarf að gefa þeim á opnum svæðum, þeim er í nöp við gróskumikla húsagarða. „Guð launar fyrir hrafninn“.

Hrafn60a

Lögmál náttúrunnar er að eta eða vera etinn. Hrafninn tekur vissulega egg úr hreiðrum annarra fugla. Hann tímasetur varptíma sinn þannig – í apríl eða níu nóttum fyrir sumarmál samkvæmt þjóðtrúnni – að ungar hans klekjast um það leyti sem flestir fuglar eru á eggjum, þannig að þeir hafi nóg að bíta og brenna meðan þeir eru að vaxa úr grasi. En náttúran hefur gert ráð fyrir afráni sem þessu og það hefur afar sjaldan áhrif á stofnstærð eða afkomu bráðarinnar, þó vissulega sé óskemmtilegt að horfa uppá hrafna ræna eggjum frá öðrum fuglum.

Hrafninn verpur í klettum, giljum og hraunum á láglendi, en er sjaldgæfur ofan 400 m hæðarlínu. Á Suðurlandsundirlendi og víðar, þar sem skortur er á frambærilegum klettum, verpa hrafnar á alls konar mannvirkjum: súrheysturnum, rafmagnsmöstrum, auðum útihúsum o.fl., þeir hafa einnig orpið í trjám víða um land. Hreiðrið er mikill laupur úr alls kyns drasli, gripabeinum, sprekum og gaddavír, fóðrað með ull og fjöðrum. Varpfuglar dvelja nærri óðali sínu allt árið, en geldfuglar flakka um og dvelja í og við þéttbýli og nátta sig í hópum í klettum.

Hrafn49at

Hrafn_hreidur_c

Heimkynni

Hrafninn er staðfugl og einn fárra fugla sem finnast á hálendinu yfir háveturinn.
Varpheimkynni hans eru um mikinn hluta norðurhvels jarðar, en hann er þó orðinn fáséður víða þar sem þéttbýlast er.

Þjóðtrú og sagnir

Hrafninn er einn mesti þjóðsagna- og þjóðtrúarfugl Íslendinga. Hann er og þekktur spádóms- og gáfufugl. Huginn og Muninn voru spádómsfuglar Óðins og Hrafna-Flóki treysti á hrafna til að finna Ísland. Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir. Það eru hópar geldfugla eða hrafnar á leið á náttstað, sem er kveikjan að sögninni um hrafnaþingin.

Hrafn38a

Um fáa fugla hefur jafnmikið verið ort og krumma. Hrafninn er með alskemmtilegustu og gáfuðustu fuglum, hann er auðtaminn og getur lært orð og setningar, sé rækt lögð við kennsluna. Það er þó ekki mælt með því að fólk taki sér hrafn sem gæludýr, þá er í meira ráðist heldur en flesta óar fyrir, auk þess sem slíkt er ólöglegt.

Hrafn65v

Seint flýgur krummi á kvöldin …

Krummi svaf í kletta gjá, –
kaldri vetrar nóttu á,
verður margt að meini;
verður margt að meini;
fyrr en dagur fagur rann
freðið nefið dregur hann
undan stórum steini.
undan stórum steini.

Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor,
svengd er metti mína;
svengd er metti mína;
ef að húsum heim ég fer,
heimafrakkur bannar mér
seppi´ úr sorpi´ að tína.
seppi´ úr sorpi´ að tína.

Öll er þakin ísi jörð,
ekki séð á holta börð
fleygir fuglar geta;
fleygir fuglar geta;
en þó leiti út um mó,
auða hvergi lítur tó;
hvað á hrafn að éta?
hvað á hrafn að éta?

Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá,
fyrrum frár á velli.
fyrrum frár á velli.
‘Krúnk, krúnk! nafnar, komið hér!
krúnk, krúnk! því oss búin er
krás á köldu svelli.
krás á köldu svelli.

Jón Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
Dílaskarfur

Dílaskarfur

Dilaskarfur15at

Útlit og atferli

Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.

Dilaskarfur05at

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.

Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.

Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.

Dilaskarfur18at

Dílaskarfar, ársgamall (t.v.), tveggja ára og fullorðinn.

Lífshættir

Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Dilaskarfur32v

Ungur dílaskarfur með sandkola.

Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.

Heimkynni

Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.

Bourgas_skarfar02a

Skarfabyggð í háspennumastri í Bourgas, Búlgaríu.

Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.

Á flæðiskeri (lokaerindi)

Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn.

Höskuldur Búi Jónsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.