Æður – Æðarfugl

Æður – Æðarfugl

Æður – Æðarfugl (Somateria mollissima)

Aedur41at

Útlit og atferli

Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd landsins. Æður er breiðvaxin með stórt aflangt höfuð og stutt stél. Fullorðinn bliki er auðþekktur, hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta kollhettu, ljósgræna flekki á hnakka og roðalitaða bringu. Vængir eru svartir með hvítum framjöðrum og löngum hvítum axlafjöðrum. Hvítur blettur er á hliðum undirgumps. Bliki á fyrsta vetri er dökkbrúnn með ljósari bringu og axlafjaðrir, lýsist síðan smátt og smátt á höfði og að ofan, kallast hann ¬„veturliði“. Æðarbliki á öðrum vetri eins og flekkóttur fullorðinn fugl. Í felubúningi er blikinn svipaður og ungfugl en allur dekkri, nær svartur, líka á bringu. Fullorðin kolla er dökkrauðbrún, þverrákótt að neðan en dökkflikrótt að ofan, fínrákótt á höfði og hálsi og er þetta eina öndin með þess konar litamynstur. Vængspeglar eru ógreinilegir, fjólubláir með hvítum jaðri. Ung kolla er mun dekkri og jafnlitari.

Æður 47

Goggur á æðarfugli er fremur stuttur og hár, þríhyrningslaga séður frá hlið, gulgrænn á blika en grár á kollu. Bæði kyn hafa grágræna fætur og brún augu.

Æður 12

Æðarfugl er fremur þungur á sér á flugi og flýgur beint, hratt og lágt yfir ölduföldum. Þarf að taka tilhlaup til að ná sér á flug. Hann er afbragðs kafari. Æðarfugl gengur reistur og vaggandi. Hann er ávallt félagslyndur og oftast spakur. Hljóðið blikans er þýtt og milt „úúú“ en hljóð kollunnar eru dýpri.

Lífshættir

Æður neita fjölbreyttrar fæðu úr dýraríkinu sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Kræklingur er mikið étinn, einnig aðrar samlokur, sæsniglar, burstaormar, krossfiskar og krabbadýr. Þegar loðnu er landað sækja fuglarnir í hrognin í höfnum og einnig í annan fiskúrgang.

Æður 61

Æðarkolla með krossfisk.

Æður 55

Æðarfuglinn er sjófugl, einnig á varptíma, en slæðingur verpur við ár og vötn allt að 20 km frá sjó. Hann verpur í þéttum byggðum, oft í hólmum og eyjum en einnig á fastalandinu þar sem nýtur verndar. Hreiðrið er opið, fóðrað með hinum verðmæta dúni og oftast staðsett við einhverja mishæð eða í manngerðum varphólfum. Ungarnir eru bráðgerir, fara á stjá um leið og þeir eru orðnir þurrir. Fuglinn fer að verpa 3 – 5 ára og verður líklega að jafnaði 15 – 20 ára gamall.

Æður 01

Æður 14

Aedur_hreidur

Æðarhreiður.

Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Kollan sér ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir (blikarnir) safnast í hópa til að fella flugfjaðrir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Heimkynni og ferðir

Æðarfuglinn verpur meðfram ströndinni um land allt, þó minnst meðfram suðurströndinni. Er oft í stórum hópum, t.d. fella 1−200.000 blikar við Faxaflóa og stórir hópar fylgja loðnugöngum á útmánuðum. Hér við land eru auk þess vetrarstöðvar og fellistöðvar fugla frá A-Grænlandi. Æðarfugl verpur annars við strendur landanna umhverfis norðurheimskautið.

Dúntekja

Æðardúnninn er einstakt efni til einangrunar og er mikið notaður í sængur og föt. Æðurin tekur vernd og öllum aðgerðum mannsins til að hlú að henni afar vel, en hún var alfriðuð 1849. Þetta hafa íslenskir bændur hagnýtt sér og skapað friðlönd fyrir fuglinn og sinna þar um hann, þannig að einstakt er í heiminum þegar villt dýrategund á í hlut. Eini gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er, að sumir æðarbændur hafa horn í síðu arnarins og fleiri sjaldgæfra fugla, sem þeir líta á sem keppinauta. Þegar friður kemst á, verður æðarræktin dæmi um fullkomið samspil manns og náttúru, báðum til hagsbóta.

Æður 51

Rúmlega 400 jarðir á landinu eru með eitthvert æðarvarp og eru þær dreifðar um mestallt land, þó er engin varpjörð í Rangárvallasýslu og aðeins ein í Vestur – Skaftafellssýslu. Árleg dúntekja síðari ára er um 3000 kg af fullhreinsuðum æðardúni. Þótt æðardúnn hafi afar lengi verið verðmæt útflutningsvara, þá sveiflast verðlag á honum verulega, en þegar best lætur þá þarf ekki nema dún úr 5-6 hreiðrum til þess að gefa sama nettóarð til bóndans eins og ein vetrarfóðruð kind.

Þó svo að æðarbændum sé mjög í nöp við tófuna, á hún þó stóran þátt í því að æðarrækt er arðbær atvinnugrein. Tófan þéttir vörpin, heldur fuglinum í eyjum, hólmum og töngum, þar sem hún nær ekki til eða auðvelt er að vernda fuglinn fyrir henni. Það hefur verið sannreynt með tilraunum, að þar sem engar tófur eru, dreifist fuglinn um allar koppagrundir, svo mun erfiðara og tímafrekara er að nýta varpið. Tófan er því einn af bestu vinum æðarbænda, þó svo að þeir muni seint viðurkenna það.

Æður 48

Þjóðtrú

Íslensk þjóðtrú virðist ekki geyma margt um æðina, fremur en aðrar andategundir, þrátt fyrir það hversu verðmæt hún er. En þeim mun meira hefur verið ort.

Skrautlegur ættingi

Æðarkóngur (Somateria spectabilis) er skrautlegur ættingi æðarinnar og kemur hingað frá Grænlandi og Svalbarða. Fullorðinn bliki, kóngurinn, er með skrautlegan rauðgulan hnúð framaná gráu höfðinu og með svart bak, kollan, drottningin, er svipuð æðarkollu, en þekkist best frá henni á höfuðlagi og ryðbrúnni lit og hreisturmynstruðum síðum og bringu. Æðarkóngur sést hér allt árið, en er algengastur seinni hluta vetrar. Blikar paraðir íslenskum æðarkollum eru árvissir í vörpum og kynblendingar, blikar, sjást flest ár. „Æðardrottningar“ eru sjaldséðar á sumrin, en stöku sinnum hafa sést pör á vorin.

Aedarkongur17v

Æðarkóngur.

 

Vorvísa 1854

Vorið er komið og grundirnar gróa,
gilin og lækirnir fossa af brún.
Syngur í runni og senn kemur lóa,
svanur á tjarnir og þröstur í tún.
Nú tekur að hýrna um hólma og sker,
hreiðra sig blikinn og æðurin fer.
Hæðirnar brosa og hlíðarnar dala,
hóar þar smali og rekur á ból.
Lömbin sér una um blómgaða bala,
börnin sér leika að skeljum á hól.

Jón Thoroddsen.

Hér snýr skáldið kynhlutverkunum við, væntanlega af bragfræðilegum ástæðum.

 

Vor í varplandi

Manstu vor í varplandi

Græn strá gægðust úr sinu
Leysingavatn fyllti lautir

Síðan komu sóleyjar og hrafnaklukkur
körfur hvannanna sendu frá sér angan

Víðirinn stóðst vorhretin
vatnið gat orðið að spegli

Þetta vor kom æðarkóngurinn í varpið

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri.

 

Stoltur bliki

Mörgum kær er minning sú;
mönnum léttir sporin,
þegar hreykið ómar ú – ú
æðarfugls á vorin.       

Ungar í hreiðri

Meðan kroppinn vantar væng
og vit í ríkum mæli,
er gott að eiga gráa sæng
og góðan dún í bæli.      
Einmana æður

Hausta tekur, magnast mein,
myrkur, sorg og nauðir.
Hnípin sit ég eftir ein
– ungarnir mínir dauðir.

Eysteinn G. Gíslason í Skáleyjum.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Missir Náttúruminjasafnið af Perlunni?

Skömmu fyrir síðastliðin jól var greint frá því í fjölmiðlum að stofnað hefði verið einkahlutafélag, Perluvinir ehf., í þeim tilgangi að setja upp náttúrusýningu í Perlunni. Þetta kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra Perluvina, Helgu Viðarsdóttur, í Fréttablaðinu miðvikudaginn 16. desember 2015. Í umfjöllun Fréttablaðsins sagði að viðræður milli Náttúruminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt sýningarhald í Perlunni hafi „siglt í strand“. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins brást við þessari fregn með grein í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Hilmar benti m.a. á að viðræður safnsins og borgarinnar hafi beinst að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og að þær hafi verið að frumkvæði safnsins. Einnig að ákvörðun um að hætta viðræðunum hafi verið tekin af hálfu Reykjavíkurborgar.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðum við ráðherra og ráðuneyti hefur nú verið formlega staðfest en fimmtudaginn 7. janúar 2016 birti Reykavíkurborg auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum um að sjá um rekstur og þjónustu á náttúrusýningu í Perlunni. Í kynningarefni auglýsingarinnar er ekki gert ráð fyrir neinni aðkomu Náttúruminjasafns Íslands.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðunum er hörmuð en óskandi að ráðherra og ráðuneytið gaumgæfi vel alla möguleika sem enn eru fyrir hendi á aðkomu Náttúruminjasafnsins að þessu brýna verkefni.
Haftyrðill

Haftyrðill

Haftyrðill (Alle alle)

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðill í vetrarbúningi.

Útlit og atferli

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Haftyrdill10

Haftyrðlar á varpstöðvum á Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Á varpstöðvunum fljúga fuglarnir um í hópum og kalla mikið. Utan varptíma er hann þögull.

Haftyrdill13a

Haftyrðlar á varpstöðvum við Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Haftyrðill kafar eftir æti eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan eru svifdýr og smákrabbadýr: ljósáta, marflær og þanglýs.

Hann verpur í urðum og skriðum undir klettum og sjávarbjörgum eða í klettasprungum og rifum. Dvelur á veturna aðallega við hafísröndina og leitar lítið að landi nema á varptíma.

Haftyrdill14a

Haftyrðlar á flugi að sumri til. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heimkynni og útbreiðsla

Haftyrðill er heimskautafugl sem varp áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Um aldamótin 1900 urpu nokkur hundruð pör í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey, honum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Hann er því fyrsti fuglinn sem við missum af völdum gróðurhúsaáhrifa, en væntanlega ekki sá síðasti.

Til skamms tíma urpu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan. Haftyrðill er mjög algengur í löndum norðan við okkur, t.d. á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða, austur til Franz-Jósefslands. Árlega sést talsvert af honum hér á veturna, sérstaklega eftir norðanáttir og hann fylgir oft hafís. Þá getur haftyrðla hrakið langt inn á land í stórviðrum.

Haftyrðill 06

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Hann átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó:

Einn fugl, sem heitir halkíon

Einn fugl, sem heitir halkíon
á hafinu blá,
búinn af Drottni
bústað á.

Um hávetur sér hreiður
úti á hafinu býr,
þá drjúg er nótt
en dagur rýr.

Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon. Litlar sagnir eru af nýtingu haftyrðils hér á landi, aftur á móti kæsa grænlendingar fuglinn og þykir herramannsmatur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

 

Hátíðakveðja

Náttúruminjasafn Íslands óskar samstarfsaðilum, velunnurum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir samskiptin á árinu 2015.

Jólakveðja 2015

Hrafn

Hrafn

Krumminn á skjánum,
kallar hann inn.Hrafn59
Gef mér bita af borði þínu,
bóndi minn!
Bóndi svarar býsna reiður,
burtu farðu, krummi leiður.
Líst mér að þér lítill heiður,
ljótur ertu á tánum,
krumminn á skjánum.

Þjóðvísa.

Útlit og atferli

Hrafninn (Corvus corax) er eini innlendi fulltrúi hröfnungaættarinnar á Íslandi. Hvert mannsbarn þekkir krumma, sem er bæði elskaður og hataður af þjóðinni. Hann er stærstur allra spörfugla, sterklega byggður, með fremur langa og breiða fingraða vængi og fleyglaga stél. Hann er alsvartur, fullorðinn hrafn er með græna eða fjólubláa gljáandi slikju á höfði og að ofan, úfnar fjaðrir á hálsi og fiðraðar skálmar. Ungfugl er móskulegur og án gljáa. Goggurinn er svartur, sver og sterklegur, efri skoltur fiðraður við rót. Fætur og augu eru svört.

Hrafn06at

Flug hrafnsins er þróttmikið, vængjatökin djúp og hann flýgur beint og oft hátt og lætur sig svífa á þöndum vængjum. Lætur sig oft falla með aðfellda vængi og leikur alls kyns fluglistir. Hoppar gjarnan jafnfætis. Hrafnar eru félagslyndir og halda sig í hópum eða pörum. Krunkið er dimmt og rámt, einnig heyrast gómskellur og fleiri hljóð.

Lífshættir

Hrafninn er alæta, etur hræ, úrgang, egg og unga, skordýr og ber, og fangar jafnvel fullorðna fugla. Auðvelt er að hæna hrafna að með matgjöfum og eru þeir sólgnir í flest allt sem fyrir þá er borið, þó helst fitu. Það þarf að gefa þeim á opnum svæðum, þeim er í nöp við gróskumikla húsagarða. „Guð launar fyrir hrafninn“.

Hrafn60a

Lögmál náttúrunnar er að eta eða vera etinn. Hrafninn tekur vissulega egg úr hreiðrum annarra fugla. Hann tímasetur varptíma sinn þannig – í apríl eða níu nóttum fyrir sumarmál samkvæmt þjóðtrúnni – að ungar hans klekjast um það leyti sem flestir fuglar eru á eggjum, þannig að þeir hafi nóg að bíta og brenna meðan þeir eru að vaxa úr grasi. En náttúran hefur gert ráð fyrir afráni sem þessu og það hefur afar sjaldan áhrif á stofnstærð eða afkomu bráðarinnar, þó vissulega sé óskemmtilegt að horfa uppá hrafna ræna eggjum frá öðrum fuglum.

Hrafninn verpur í klettum, giljum og hraunum á láglendi, en er sjaldgæfur ofan 400 m hæðarlínu. Á Suðurlandsundirlendi og víðar, þar sem skortur er á frambærilegum klettum, verpa hrafnar á alls konar mannvirkjum: súrheysturnum, rafmagnsmöstrum, auðum útihúsum o.fl., þeir hafa einnig orpið í trjám víða um land. Hreiðrið er mikill laupur úr alls kyns drasli, gripabeinum, sprekum og gaddavír, fóðrað með ull og fjöðrum. Varpfuglar dvelja nærri óðali sínu allt árið, en geldfuglar flakka um og dvelja í og við þéttbýli og nátta sig í hópum í klettum.

Hrafn49at

Hrafn_hreidur_c

Heimkynni

Hrafninn er staðfugl og einn fárra fugla sem finnast á hálendinu yfir háveturinn.
Varpheimkynni hans eru um mikinn hluta norðurhvels jarðar, en hann er þó orðinn fáséður víða þar sem þéttbýlast er.

Þjóðtrú og sagnir

Hrafninn er einn mesti þjóðsagna- og þjóðtrúarfugl Íslendinga. Hann er og þekktur spádóms- og gáfufugl. Huginn og Muninn voru spádómsfuglar Óðins og Hrafna-Flóki treysti á hrafna til að finna Ísland. Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir. Það eru hópar geldfugla eða hrafnar á leið á náttstað, sem er kveikjan að sögninni um hrafnaþingin.

Hrafn38a

Um fáa fugla hefur jafnmikið verið ort og krumma. Hrafninn er með alskemmtilegustu og gáfuðustu fuglum, hann er auðtaminn og getur lært orð og setningar, sé rækt lögð við kennsluna. Það er þó ekki mælt með því að fólk taki sér hrafn sem gæludýr, þá er í meira ráðist heldur en flesta óar fyrir, auk þess sem slíkt er ólöglegt.

Hrafn65v

Seint flýgur krummi á kvöldin …

Krummi svaf í kletta gjá, –
kaldri vetrar nóttu á,
verður margt að meini;
verður margt að meini;
fyrr en dagur fagur rann
freðið nefið dregur hann
undan stórum steini.
undan stórum steini.

Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor,
svengd er metti mína;
svengd er metti mína;
ef að húsum heim ég fer,
heimafrakkur bannar mér
seppi´ úr sorpi´ að tína.
seppi´ úr sorpi´ að tína.

Öll er þakin ísi jörð,
ekki séð á holta börð
fleygir fuglar geta;
fleygir fuglar geta;
en þó leiti út um mó,
auða hvergi lítur tó;
hvað á hrafn að éta?
hvað á hrafn að éta?

Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá,
fyrrum frár á velli.
fyrrum frár á velli.
‘Krúnk, krúnk! nafnar, komið hér!
krúnk, krúnk! því oss búin er
krás á köldu svelli.
krás á köldu svelli.

Jón Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.