Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.
Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices.
Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.
Vissirðu að vatn getur líka flogið?
Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!
Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.
Skráning fer fram hér og stendur til og með 23. apríl.