Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veitt Náttúruminjasafns Íslands 1,5 milljónir króna til að gefa út stórvirki Sigrúnar Helgadóttur rithöfundar um ævi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Sigrún hóf ritun ævisögunnar 2014 og hefur frá árinu 2015 notið stuðnings frá Náttúruminjasafninu og haft þar endurgjaldslausa aðstöðu. Þessi myndarlegi styrkur kemur til viðbótar við 4ra milljón króna styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti til Sigrúnar og tryggir að verkið mun koma út í tveimur bindum vorið 2021.

Hver var Sigurður Þórarinsson?

Í ævisögunni leitast Sigrún við að svara spurningunni um hver Sigurður Þórarinsson var. Sigurður sem var fæddur 1912 og lést 1983 var heimsfrægur vísindamaður og brautryðjandi á mörgum sviðum jarðfræði, jöklafræði og öskulagafræði. Hann var einnig flestum betur að sér í fornleifafræði og sögu landsins. Sigurður var þekktur sem ákaflega skemmtilegt vísnaskáld, hagyrðingur og sögumaður, góður ferðafélagi, frábær og hvetjandi kennari og alþýðufræðari en líka hlýr vinur og fjölskyldufaðir. Sigurður var einnig leiftrandi áhugamaður um ýmiss konar þjóðmál, glöggur samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Hann var góður ljósmyndari og hluti verksins, sem Oddur Sigurðsson jöklafræðingur kemur að, er einmitt flokkun og skráning myndasafns hans, en margar myndanna munu prýða ævisöguna.

Það fennir í sporin þótt djúp séu

Sigrún segir að þegar aldarafmælis Sigurðar Þórarinssonar var minnst í upphafi árs 2012 hafi komið í ljós að margt ungt fólk þekkti lítið sem ekkert til hans. Slíkt sé eðlilegt því að rúm 30 ár voru þá liðin frá andláti Sigurðar. „Það fennir í sporin þótt djúp séu“, segir Sigrún og bendir á að það væri menningarslys ef samantekt um líf Sigurðar væri ekki skrifuð á meðan enn lifir fólk sem man hann.

Sigrún Helgadóttir er þaulreyndur rithöfundur og kennari. Auk kennslubóka eru útgefnar bækur hennar þessar: Faldar og skart. Faldbúningurinn og aðrir íslenskir þjóðbúningar, 2013, 201 bls.; Þingvellir, þjóðgarður og heimsminjar, 2011, 320 bls.; Foldar skart í ull og fat. Jurtalitun. Með Þorgerði Hlöðversdóttur, 2010, 63 bls.; Jökulsárgljúfur. Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli., 2008, 224 bls. Þá hefur Sigrún skrifað vefsíður, bókarkafla, fjölrit og bæklinga auk fjölmargra greina í blöð og tímarit.

Náttúruminjasafnið gefur verkið út

Náttúruminjasafnið er útgefandi verksins en málefnið er safninu skylt á margan hátt. Nægir að nefna að Sigurður Þórarinsson var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og forstöðumaður land- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafns Íslands (nú Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands).

45 hlutu útgáfustyrk

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti að þessu sinni 28,3 milljónum króna í útgáfustyrki til 45 verkefna. Styrkirnir voru frá 1,5 milljónum til 200 þúsund króna, þeir hæstu til ritunar ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, sem fyrr segir, og til verksins Laugavegur, höfundar eru Guðni Valberg og Anna Dröfn Ágústsdóttir. Angústúra gefur út. Hér má sjá yfirlit yfir úthlutun sjóðsins og styrkþega 2020.

https://www.islit.is/frettir/fjolbreyttar-baekur-um-bokmenntir-natturu-byggingalist-sagnfraedi-tungumal-og-fleira-fa-utgafustyrk