Alþjóðlegur dagur vatnsins er haldinn hátíðlegur 22. mars ár hvert. Í ár býður Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands fimmtudaginn 31. mars og hefst fundurinn kl. 08. Þemað að þessu sinni er vatn og vinna og hér er dagskrá morguverðarfundarins. Meira má lesa um vatnadag Sameinuðu þjóðanna á heimasíðu samtakanna.

Öskjuvatn í ágúst 2007. Ljósmynd: Kristján Jónasson.

Öskjuvatn í ágúst 2007. Ljósmynd: Kristján Jónasson.

Ísland er afar vatnsríkt land og þjóðin býr að einstaklega dýrmætri auðlind sem felst í hreinu og heilnæmu neysluvatni, jafnt heitu sem köldu, ótölulegu úrvali fallvatna og fossa og aragrúa stöðuvatna. Afrennsli af landi er með því mesta sem þekkist í Evrópu, um 55 l/s/ferkm, og óvíða á jörðinni er að finna jafn stór lindasvæði og á Íslandi. Um 20% afrennslisins er lindavatn, 60% eru dragár og 20% koma frá jöklum.

Á alþjóðavísu eru lindavötn á yngri móbergsmyndun Íslands mjög athyglisverð. Lindavötn á Íslandi og hraunumhverfi þeirra eiga vart sinn líka í Evrópu hvað varðar umfang og eðlis- og efnaeiginleika, sem grundvallast á berggerðinni, hinu unga, hripleka basalthrauni. Vatnafræðilegir eiginleikar lindavatna einkennast m.a. af hreinleika, steinefnaríku innihaldi og stöðugleika í hitastigi og rennsli.

Mývatn og Þingvallavatn eru bæði af gerð lindavatna og teljast til helstu náttúruperla landsins vegna vatnafræðilegra eiginleika og lífríkisins. Um bæði vötnin gilda sérlög sem ætlað er að vernda vistkerfin á heildstæðan hátt. Um Mývatn gilda lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og um Þingvallavatn lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Lögin til verndar Mývatni og Þingvallavatni ganga lengst sérlaga hér á landi til verndar einstökum vötnum og vatnasviðum. Það eru og brýnar ástæður fyrir þessu sem felast í margþættri náttúru vatnanna og fjölbreyttum verðmætum. Ekki veitir af öflugri verndarlöggjöf um þessar tvær náttúruperlur landsins því blikur eru á lofti um framtíð þeirra beggja. Að báðum virðist steðja ógn af mannavöldum í tengslum við ofauðgun næringarefna og hvað Þingvallavatn snertir einnig vegna hlýnunar loftslags.

Um ákomu efna má lesa í nýlegri skýrslu um Mývatn og skýrslu um Þingvallavatn sem unnar voru á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Í skýrslunni um Mývatn kemur m.a. fram að styrkur nítrats virðist hafa aukist töluvert í köldum lindum í Grjótavogi og Garðsvogi í Syðri-flóa á tímabilinu 1969–2012. Sama virðist eiga um styrk niturs í lind neðan Bjargs á Reykjahlíðarsvæðinu, sem hefur farið stöðugt vaxandi frá áttunda áratugi síðustu aldar og er þetta talið „… sýna glöggt að staðbundið getur losun skólps verið marktæk og mælanleg og áhrif greinanleg í næsta nágrenni við helstu ferðamannastaði við vatnið.“ Í skýrslunni um Þingvallavatn kemur m.a. fram að ákoma niturs í vatnið og afrennsli úr vatninu sé meira en áður var talið, sem er í samræmi við það sem gerst hefur víða í vötnum á norðurslóðum undanfarin 10–20 ár. Þá mældist styrkur nítrats í írennsli Þingvallavatns umtalsvert meiri á tímabilinu 2007–2014 en um miðjan áttunda áratug síðustu aldar, en nítrat er það form niturs sem frumframleiðendur nýta sér einna helst til vaxtar og viðgangs.

Um hlýnun Þingvallavatns sem og breytingar í efnaákomu má einnig lesa í hér í yfirlitsskýrslu sem tekin var saman á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs.

 

Lesefni um vatn, yfirlitsgreinar:

Aagot V. Óskarsdóttir (ritstjóri). 2011. Kafli 3.3 Vatnið, bls. 62–74 og kafli 18 Vatn, bls. 307–313. Í: Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga. Umhverfisráðauneytið, Reykjavík. 477 bls.

Freysteinn Sigurðsson. 2005. Vatn og vatnafar á Íslandi: Viðfangsefni vatnalaga. Í: Rannsóknir í félagsvísindum VI: Lagadeild (Róbert Spanó ritstj.). Reykjavík, bls. 175–205.

Hilmar J. Malmquist. 1998. Ár og vötn á Íslandi: Vistfræði og votlendistengsl. Í: Íslensk votlendi. Verndun og nýting (Jón S. Ólafsson ritstj.). Háskólaútgáfan, Reykjavík, bls. 37–55.