2008-07-26 18.03.43

Ljósm. Kristján Jónasson

Í dag var kynnt á Hótel Natura heildarúttekt Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001 – 2013. Ekki kemur á óvart að íslensk náttúra hefur gegnt lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna orkuauðlinda hennar sem og aðdráttarafls fyrir erlenda ferðamenn. Við sem gistum þetta land búum við einstaklega gjöfula, fagra og heilnæma náttúru, sem óvíða er að finna annars staðar. En það eru blikur á lofti. Varnaðarorð skýrlsuhöfunda eru þau m.a. að umgengni okkar við náttúruauðlindirnar sé að vissu leyti ábótavant og úrbóta þörf. Hér er vísað bæði til þess að þegar sjáist merki um álag á náttúruperlum vegna ágangs af völdum ferðamanna og að nýting enurnýjanlegra orkugjafa hefur för með sér rask og mengun sem ekki er í öllum tilvikum reiknað með eða gerðar ráðstafanir gegn.

Meginskilaboð skýrsluhöfunda til Íslendinga eru að þeir verða að mæta vexti í orku- og ferðageiranum með því að vernda náttúruna (e. „Iceland must balance growth in power and tourism industries with nature conservation, OECD says“). Sjálfbær nýting náttúrugæða landsins verður að byggjast á því að halda höfuðstólnum óskertum – ella rýrna auðlindirnar og lífskjör versna.

Náttúruminjasafn Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þessu samhengi sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Helstu hlutverk stofnunarinnar eru lögum samkvæmt að miðla fróðleik, upplýsingum og þekkingu um náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Þá segir í lögum um stofnunina að miðlunin skuli beinast til skóla, fjölmiðla og almennings, jafnt með sýningahaldi og kynningu af öðru tagi.

Nánar má lesa um kynninguna og skýrlsu OECD hér á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Skýrsla OECD í heild.

Útdráttur úr skýrlsu OECD.