Dagur íslenskrar náttúru er í dag, laugardaginn 16. september, sérstakur hátíðar- og heiðursdagur tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt. Daginn ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar sem í gegnum tíðina hefur verið óþreytandi við að kynna landsmönnum undur náttúrunnar og mikilvægi náttúruverndar.
Á þessum heiðursdegi, sem jafnframt er örlagaríkur dagur í stjórnmálum landsins ‒ þar sem forseti lýðveldisins hefur fallist á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, er fullt tilefni til að minna á stöðu Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum. Því skal haldið til haga að náttúra og stjórnmál eru nátengd og að farsælt og hamingjuríkt mannlíf er undir náttúrunni komið og krefst skynsamlegrar umgengni við hana.
![](https://nmsi.is/wp-content/uploads/2017/09/Low_pressure_system_over_Iceland.jpg)
Veður og veðrakerfi eru snar þáttur í náttúru Íslands. Hér má sjá einstaklega fallega loftmynd af lægð við landið þar sem skýin mynda nær fullkomið gullinsnið fyrir tilstilli svigkrafts jarðar, öðru nafni Corioliskraftur. Ljósmynd: Wikipedia.
Náttúruminjasafnið hefur eins og flestum er kunnugt um barist í bökkum lengst af síðan það var sett á laggirnar árið 2007. Safnið hefur glímt við afar naumar fjárheimildir og hvorki búið yfir eigin skrifstofu- né sýningaraðstöðu.
Vonir vöknuðu vissulega um betri tíð undir lok síðasta kjörtímabils 2016 þegar formenn allra sex flokka sem sæti áttu á 145. þingi fluttu tillögu að þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands á árinu 2018. Í ályktuninni stendur m.a.: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“ Tillagan var samþykkt samhljóða sem ályktun Alþingis nr. 70/145 með 56 atkvæðum. Sjö þingmenn voru fjarstaddir.
Í þingsályktuninni felast mikil tíðindi, ekki síst vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í sögu Náttúruminjasafnsins að fram kemur staðfestur, þverpólitískur vilji Alþingis til að byggja upp höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum.
Það olli því miklum vonbrigðum að Náttúruminjasafnsins skyldi hvergi vera getið í ríkisfjármálaáætlun fyrir 2018–2022. Ekki bætir heldur úr skák að í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er ekki að finna framlag sem ætlað er að standa undir uppbyggingu á fullbúinni og varanlegri aðstöðu fyrir Náttúruminjasafnið. Þó er í frumvarpinu gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til undirbúnings á sýningarstarfsemi safnsins næstu þrjú árin, og ber að þakka það framtak mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni.
Náttúruminasafn Íslands verður ekki byggt á einum degi fremur en Róm. En aðdragandinn er orðinn langur ‒ nær 130 ár eru frá stofnun forvera safnsins, Hins íslenska náttúrufræðifélags, árið 1889 og mikil vinna liggur að baki málefnum safnsins sem léttir verkið framundan.
Tvö atriði skipta mestu í bráð og lengd. Annars vegar að huga að uppbyggingu á fullbúinni og varanlegri aðstöðu fyrir safnið, þ.m.t. þeim möguleika að reisa hús á svokölluðum G-reit á háskólasvæðinu í samstarfi við m.a. Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Hins vegar að huga að úrbótum til skemmri tíma og auka við fjárheimildir safnsins strax á næsta ári, m.a. til að gera safninu kleift að taka tilboði Perlu norðursins ehf. um þátttöku í sýningarhaldi í Perlunni.
Á þjóðin ekki heimtingu á því að þeir sem fara með völdin tryggi að langþráð höfuðsafn landsmanna í náttúrufræðum rísi undir nafni, rétt eins og hin höfuðsöfnin tvö – Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands?
Aldrei hefur verið mikilvægara og hagfelldara en nú að koma fótunum undir Náttúruminjasafnið. Íslendingar eru meðal ríkustu þjóða jarðar, mikill uppgangur er í samfélaginu, óvenju fjölbreytt, gjöful og sérstæð náttúra landsins er viðkvæm og brýn þörf er á eflingu innviða í ferðaþjónustu og menntakerfinu m.t.t. fræðslu og upplýsingamiðlunar um náttúruna og skynsamlega umgengni við hana.
Hilmar J. Malmquis forstöðumaður.