Þann 8. október 2018 var Erlendur Bogason kafari að mynda lífríki Þingvallavatns fyrir sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni, þegar hann kom auga á leifar báts á um 4 m dýpi á botninum í Vatnsviki, í norðaustanverðum þjóðgarðinum. Aðstæður voru góðar og tók Erlendur nokkrar ljósmyndir af flakinu.
Við nánari skoðun vaknaði grunur um að bátsflakið kynni að vera mjög gamalt, jafnvel að um væri að ræða kuml frá landnámstíð. Það sem studdi hið síðastnefnda var einkum að við bátsleifarnar og næst þeim virtist vera lag af mó, en dýpið sem báturinn liggur á stemmir við landsigið sem ætlað er að hafi orðið á Þingvöllum frá því land var numið, þ.e. um 4 m. Auk þess voru bein sem virtust af hrossi, á dreif á botninum 30–40 m frá bátsflakinu.
Minjastofnun tilkynnt um fundinn
Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur frá Fornleifafræðistofunni var kallaður til og mat hann bátsfundinn svo að kanna skyldi vettvang betur og ná í sýni til C-14 aldursgreiningar og frekari skoðunar. Var fundurinn tilkynntur Minjastofnun Íslands 18. október og þjóðgarðsverði á Þingvöllum gert viðvart og efnt til formlegs samstarfs milli Náttúruminjasafnsins og Fornleifafræðistofunnar um frekari rannsóknir á fundinum.
Rannsókn á viði og beinum
Þann 26. október s.l. fóru tveir starfsmenn safnsins, þeir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður og líffræðingur og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, ásamt Erlendi kafara og Bjarna fornleifafræðingi á vettvang og rannsökuðu flakið og fundarstað nánar. Var bátsflakið og nærumhverfi ljósmyndað og kvikmyndað, fundarstaður hnitsettur, dýpi og annað mælt og tekin nokkur sýni úr bátnum og mójarðvegi. Þá voru hirt ein 15 stórgripabein af botninum nærri bátsleifunum. Við rannsóknirnar var leitað til Albínu Huldu Pálsdóttur, sérfræðings á sviði dýrabeina við Landbúnaðarháskóla Íslands og Ólafs Eggertssonar sérfræðings í greiningu viðartegunda hjá Skógrækt ríkisins. Skýrsla með niðurstöðum forkönnunarinnar var gefin út í desember 2018.
Niðurstöður aldursgreiningar samkvæmt geislakolsmælingu á viðarsýni úr bátnum sýna að hann er 400–500 ára, líklegast frá 16. öld, eða frá tímabilinu 1482–1646 (95,4% öryggi). Báturinn í Þingvallavatni er samkvæmt þessu elsti bátur sem þekktur er á landinu. Elsta fleyið fram að fundinum í Þingvallavatni var hollenska kaupskipið Melckmeyt (ísl. Mjaltastúlkan), sem fórst við Flatey árið 1659. Flakið fannst árið 1992 og á Sjóminjasafninu í Reykjavík gefur að líta sýningu um kaupskipið og rannsóknir á flakinu.
Súðbyrðingur
Báturinn í Þingvallavatni er 4–5 m á lengd, allt að 2 m á breidd, súðbyrtur, hnoðaður með járnsaum með hringlaga skinnum og byggður úr skógarfuru (Pinus silvestris), sem var algengasti innflutti viðurinn fyrr á öldum. Eiginaldur viðarsýnisins var 15 ár. Innbyrðis var báturinn tjargaður, en ekki var hægt að sjá hvort hann hafi einnig verið tjargaður að utanverðu þó það sé líklegt. Á tveimur stöðum fundust járnbönd eða borðar, við síðuna og undir bátnum og rétt hjá. Að öðru leiti varð gripa ekki vart í eða næst bátnum.
Óvenjulegt beinasafn
Beinasafnið úr Vatnsviki er óvenjulegt bæði vegna fundarstaðarins og þess að aðeins finnast bein úr stórgripum. Ólíklegt er að um sé að ræða hefðbundinn ruslahaug. Þó að bæði bátur og jaxl séu frá 16. öld þýðir það ekki að einhver tengsl hafi verið þar á milli, um það munu seint fást svör, nema að nánari rannsókn á staðnum varpi ljósi á það. Þó má ímynda sér nokkrar ástæður fyrir tilvist beinanna. Nefna má þann möguleika að beinin séu úr sjálfdauða skepnum sem kastað var í vatnið alveg óháð bátnum. Önnur ástæða getur verið að skepnur hafi verið fluttar á bátnum yfir vatnið, en bátnum hlekkst á og sokkið og eða þau hafnað útbyrðis. Þetta er þó ósennilegt þar sem báturinn er of lítill til að bera svo stór dýr. Þriðji möguleikinn er að um matvælaflutninga hafi verið að ræða, flutning á stórum kjötstykkjum, e.t.v. í tengslum við þinghald.
- Um 30-40 m frá bátsflakinu var dreif af stórgripabeinum. Beinasafnið var í heild frekar illa varðveitt, beinin hol að innan og yfirborð þeirra máð. Ljósm. Erlendur Bogason.
- Beinin sem fundust á botninum reyndust öll vera úr stórgripum, tveimur eða þremur fullorðnum hrossum (11 bein) og tveimur fullþroska nautgripum (tvö bein). Öll beinin, utan tvö, voru óunnin. Niðurstöður aldursgreiningar á jaxli úr einu hrossinu voru á sömu lund og sýnið úr bátnum, eða frá tímabilinu 1458–1635 (95,4% öryggi), sem nær útilokar að báturinn kunni að vera frá yngri tíð og smíðaður úr gömlum efnivið. Ljósm. Hilmar J. Malmquist.
Að öðru leyti lítur út fyrir að báturinn hafi verið notaður til veiða á vatninu. Í því sambandi má nefna að báturinn virðist býsna flatbotna og eru bæði byrðingur bátsins þunnur og böndin fínleg, sem bendir til þess að hann hafi verið smíðaður gagngert til notkunar á vatninu. Þá má nefna að annað beinanna tveggja sem voru unnin var sagað og líklega um netakubb að ræða, en gripnum svipar mjög til netakubba sem fundust í tóft við Snjóöldufjallgarð, sem notaðir voru við silungsveiðar í Veiðivötnum og eru aldursgreindir til 16. aldar.
Merkur fundur sem þarf að verja og varðveita
Sem fyrr segir er báturinn í Þingvallavatni elsti bátur sem þekktur er á landinu og trúlega íslensk smíð. Þekking á vatnabátum og smíði þeirra er fremur af skornum skammti frá því tímabili sem hér um ræðir, um og upp úr miðöldum og reyndar fyrir þann tíma einnig. Fundur bátsins og rannsóknir á honum er því mikilvægur hlekkur í smíða- og menningarsögu Íslands og í víðara samhengi.
Í vísindalegu tilliti og með vernd menninga- og náttúruminja þjóðarinnar að leiðarljósi er nauðsynlegt talið að bjarga þessum merku fornleifum með því taka bátinn upp, forverja hann og varðveita. Ella verður hann náttúruöflunum að bráð og hætt við raski og skemmdum af mannavöldum.