Vel er stutt við starfsemi Náttúruminjasafns Íslands í frumvarpi til fjárlaga árið 2018. Mestu munar um sérstaka fjárveitinugu að upphæð 290 m.kr. til að standa straum af kostnaði við uppsetningu sýningar á vegum Náttúruminjasafnsins í Perlunni. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun á almennum rekstrargrunni safnsins, sem hækkar um 70% milli ára, úr um 42 m.kr. árið 2017 í um 73 m.kr. á ári næstu þrjú árin.

„Þetta er mikið fagnarðarefni og feikilega góð tíðindi, ekki aðeins fyrir menntun og fræðslu í náttúrufræðum, heldur menningarstarfsemi almennt í landinu“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. „Nú loksins hillir undir að höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum komist almennilega á koppinn. Ef Alþingi samþykkir frumvarpið þýðir það að við getum einhent okkur í fullnaðarhönnun, framleiðslu og uppsetningu á sýningu safnsins í Perlunni. Og ef vel gengur getum við opnað sýningu þar 1. desember á næsta ári, á 100 ára fullveldisafmælinu.“

Vatn leikur lykilhlutverk við mótun landsins. Frá Eyjabökkum, Eyjabakkahraukar. Ljósmynd: Skarphéðinn G. Þórisson.

Hilmar segir að um síðustu mánaðamót hafi safnið kynnt ráðherra og ráðuneytinu tillögu og greinargerð um sýningu í Perlunni sem nefnist „Vatnið í náttúru Íslands“. Tillagan var unnin í samvinnu við fjölmarga sérfræðinga í náttúruvísindum, sýningarhönnun og safna- og kennslufræðum. Ætlunin er að setja sýninguna upp í nýju 350 fermetra rými á 2. hæð í Perlunni, en Perla norðursins ehf. sem leigir Perluna af Reykjavíkurborg, hefur boðið safninu afnot af þessu rými endurgjaldslaust.

Fergin (Equisetum fluviatile) eða tjarnelfting vex í votlendi víða um land. Ljósmynd: Sólrún Harðardóttir.

Eins og nafnið ber með sér verður vatn meginviðfangsefni sýningarinnar – vatn í víðum skilningi, undirstaða alls lífs. Ísland er óvenju vatnsríkt land og vatn telst til helstu einkenna í náttúru landsins. Hér er gnótt grunnvatns, heitt vatn og kalt, fjölbreytt votlendi og urmull áa, fossa og vatna. Eðlisþættir vatnsins, máttur þess og megin við mótun lands og myndun verður viðfangsefni sýningarinnar og lífríkinu í vatninu gerð ítarleg skil, sem og vatn í veðri og vindum, nýting vatnsauðlindarinnar, aðsteðjandi hættur og hvernig bregðast má við vandamálum. Þá verður rík áhersla lögð á lifandi og gagnvirka fræðslu og framsetningu efnis og sérstaklega hugað að yngri skólastigum landsins.

„Baráttan fyrir eigin sýningarrými hefur verið löng og ströng“, segir Hilmar, „og leiðin oft þyrnum stráð. En þetta er stór áfangi og spennandi tímar framundan hjá Náttúruminjasafni Íslands.“