Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

„Fjárlagafrumvarpið veldur miklum vonbrigðum. Enn eitt árið, það níunda í röð frá því að safnið var stofnað, virðist ríkisvaldið ætla að bregðast skyldu sinni gagnvart Náttúruminjasafni Íslands. Það er þó ekki öll nótt úti enn, því umræður á Alþingi um fjárlögin eru eftir og ég vænti þess að þær breyti stöðunni.“  

 3% lækkun frá 2014

Þetta segir Hilmar J. Malmquist, forstöðurmaður Náttúruminjasafnsins en safnið fær slæma útreið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Höfuðsafni þjóðarinnar í náttúrufræðum eru ætlaðar 25,7 m.kr. til starfseminnar á næsta ári sem er um 3% lækkun miðað reikning ársins 2014 (26,4 m.kr.). Framlög til annarra safna sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka hins vegar á bilinu 9–18% miðað við ríkisreikning 2014. Þær hækkanir eru nær allar umfram launa- og verðlagshækkanir og taka flestar til þess að bæta við stöðugildum og styrkja rekstrarstöðu safnanna. Sem dæmi má taka að fjárveiting til Listasafns Íslands, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins, hækkar um 13% miðað við reikning ársins 2014 (206,1 m.kr.) og um 11% miðað við fjárlög 2015 (210.2 m.kr.). Framlag til þriðja höfuðsafnsins, Þjóðminjasafns Íslands sem heyrir undir forsætisráðuneytið, hækkar um 25% miðað við reikning ársins 2014 (533 m.kr.) og um 5% miðað við fjárlög 2015 (635,8 m.kr.).

Hilmar bendir á að skv. frumvarpinu sé beiðni um að styrkja starfsemi Náttúruminjasafnsins hafnað, en óskað var eftir fjölgun um eitt stöðugildi, starf sérfræðings sem m.a. ætlað að halda utan um rafræn gagnaskrármál, varðveislusamninga og útlán á safngripum. Auk forstöðumanns hefur til þessa ekki verið svigrúm nema fyrir einn starfsmann í 25% stafshlutfalli. Sá starfsmaður gegnir starfi ritstjóra tímaritsins Náttúrufræðingsins sem Náttúruminjasafnið gefur út í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélagi. Félagið greiðir helming launa ritstjórans til móts við Náttúruminjasafnið. 

Framlagið hefur rýrnað um nær helming á starfstíma safnsins

„Fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa frá stofnun safnsins árið 2007 verið í skötulíki og hamlað mjög allri starfsemi,“ segir Hilmar. „Árlegt rekstrarfé síðastliðin níu ár hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa launavísitala, neysluvísitala og byggingavísiala hækkað um 4552%.  Þetta jafngildir nær helmings raunlækkun á fjárveitingum! Öllum óskum um hækkun fjárheimilda í grunnrekstrarlíkani safnsins, hvort sem er vegna nýrra stöðugilda, tækjakaupa, hækkun á húsaleigu eða þátttöku í sýningum, hefur verið hafnað.“ 

Ríkisendurskoðun hefur í tvígang, fyrst árið 2012 og aftur í maí s.l., fjallað um málefni Náttúruminjasafnsins og bent Alþingi á að fjárheimildir til höfuðsafnsins séu óásættanlegar og hindri safnið í að uppfylla lögbundar skyldur sínar.

Skýrslur Ríkisendurskoðunar eru aðgengilegar hér:

Natturuminjasafn Íslands. Skýrsla til Alþingis. Ríkisendurskoðun. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands. Eftirfylgniskýrsla. Ríkisendurskoðun. 2015.