Áætlað er að um 500 manns hafi komið á sýninguna VATNIÐ í náttúru Íslands, sem opnuð var í Perlunni á laugardag, 1. desember s.l. Það var ekki klippt á borða heldur slepptu tvö skólabörn vatnadýrum í Vatnsborðið – stórt ker sem kemur til með að vera kennsluborð fyrir skólahópa eftir áramótin.
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bauð gesti velkomna en í þeirra hópi var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reed, Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningar málaráðherra sem fagnaði opnun sýningarinnar í ávarpi sínu. Söngsveitin Fílharmónía flutti tvö tónverk undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.
Tvö skólabörn úr Reykjavík, Úlfhildur Arnardóttir, 13 ára og Matthías Jón Magnússon 8 ára opnuðu sýninguna formlega með því að sleppa hornsílum og fleiri vatnadýrum í Vatnsborðið, og nutu við það aðstoðar forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.
Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lökke Rasmussen sýndi vatnadýrunum mikinn áhuga. Hér er hann með Katrínu Jakobsdóttur og Lilju D. Alfreðsdóttur.
Hvernig þróast bleikjan? Margmiðlunarleikur fyrir börn og fullorðna lýsir myndun fjögurra afbrigða bleikjunnar í Þingvallavatni.
Í kíkjum má sjá einstakar ljósmyndir sem Wim van Egmond tók af lífríki í Þingvallavatni.
Einkennisdýr sýningarinnar er vatnskötturinn, sem er lirfa fjallaklukku, stærstu vatnabjöllu landsins. Þetta er líkan af klukkunni sjálfri.
Á gluggum og á tönkum eru orðaflaumar – m.a. 120 orð um ský og sami fjöldi orða um vatnsveður, enn fleiri orð um votlendi og 773 fossheiti.