Í Safnahúsinu við Hverfisgötu getur nú að líta frummynd Eggerts Péturssonar, listmálara, af FLÓRU ÍSLANDS, sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf fyrst út á veggspjaldi 1985. Veggspjaldið er nú komið út á ný, í fjórða sinn, enda fyrri útgáfur löngu uppseldar.
Myndina, sem sýnir 63 tegundir íslenskra blómplantna, málaði Eggert með vatnslitum (gvass) á árinu 1985 að beiðni stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags en hann hafði áður myndskreytt bókina Íslensk flóra með litmyndum eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing sem kom út árið 1983. 1989 sýndi Eggert í fyrsta sinn olíumálverk þar sem myndefnið var sótt í jurtaríkið. Hann er nú meðal dáðustu listamanna þjóðarinnar – ekki síst fyrir einstaka túlkun á hinu smáa og fíngerða í íslenskri náttúru.
Eggert var viðstaddur þegar endurútgáfu veggspjaldsins FLÓRU ÍSLANDS var fagnað á Degi íslenskrar náttúru 16. september s.l. í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
CRYMOGEA /FOLDA annaðist nýja prenthönnun verksins og sá um útgáfuna fyrir Náttúruminjasafnið og Hið íslenska náttúrufræðifélag.
Veggspjaldið er 70×50 sm á stærð. Það fæst í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr.
Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is