Að undanförnu hafa iðnaðarmenn unnið að viðgerðum á gluggabúnaði í kjallara Loftskeytastöðvarinnar. Gluggabúnaður á 1. hæð hússins verður einnig tekinn fyrir og eru verklok áætluð um næstu áramót. Verkið er á könnu Þjóðminjasafns Íslands sem leigir Náttúruminjasafninu Loftskeytastöðina.

2014-12-03 15.03.35

Smiðirnir Björn Þór Baldursson og Guðlaugur Jón Gunnarsson sinna viðhaldi á gluggabúnaði Loftskeytastöðvarinnar. Desember 2014.

Viðhald á Loftskeytastöðinni hefur ekki verið sem skyldi og stefndi í óefni vegna leka og rakavandamála. Tréverk í mörgum gluggum hefur fúnað og morknað og steypuskemmdir eru hér og þar. Framtak Þjóðminjasafnsins er því fagnaðarefni.

Bágt ástand sæmir ekki jafn gömlu og virðulegu húsi sem Loftskeytastöðin er. Húsið er hartnær 100 ára, var vígt 17. júní 1918, og teiknað af Einari Erlendssyni trésmiði, byggingarfræðingi, byggingafulltrúa Reykjavíkur og aðstoðarmanni húsameistara ríkisins þeirra Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Sjálfur gegndi Einar starfi húsameistara ríkisins á árunum 1950-54.

Byggingarlag og útlit Loftskeytastöðvarinnar er kennt við reykvíska steinsteypuklassík eins og fræðast má um í Morgunblaðsgrein frá 17. júlí 2006 um Einar og hans verk.