Kristín Gísladóttir forvörður lagfærir laxinn og undirbýr hann fyrir sýningu síðar í mánuðinum. Ljósm. ÁI.

Náttúruminjasafninu áskotnaðist á dögunum góður gripur þegar Fiskistofa afhenti safninu  Grímseyjarlaxinn margfræga til varðveislu og eignar. Grímseyjarlaxinn er stærsti lax sem veiðst hefur við Ísland – 132 cm á lengd, 72 cm að ummáli og 49 pund eða 24,5 kíló. Hann veiddist í þorskanet 400 m vestan við Grímsey í apríl 1957.

Við greiningu á hreistrinu kom í ljós að þetta var tíu vetra gömul hrygna sem gekk fyrst til sjávar eftir fjóra vetur í ferskvatni. Hún hafði hrygnt tvisvar, sjö vetra og níu vetra gömul.

Í grein sem Þór Guðjónsson þáv. veiðimálastjóri skrifaði í Veiðimanninn 1959 leiddi hann að því líkum að laxinn gæti hafa verið úr Laxá í Þingeyjarsýslu, en í þá á ganga óvenju margir stórlaxar. Þegar laxinn gekk í sjó að lokinni seinni hrygningu, líklega fyrri hluta árs 1956, var hann af svipaðri stærð og stærstu laxar sem veiðast í Laxá.

Grímseyjarlaxinn var fljótlega stoppaður upp og var lengi á Veiðimálastofnun en þrátt fyrir vandað verk og góða varðveislu var hann farinn að láta á sjá eftir 60 ár. Hér að neðan má sjá árangur viðgerðarinnar sem fólst í styrkingu málningarlaga, hreinsun, sjá t.d. augað hér að neðan, fyllingu í sprungur og loks ímálun.

Hér er búið að gera við stóru sprunguna á kjálkanum. Ljósm. ÁI.

Fiskurinn var orðinn mjög sprunginn og málning farin að flagna, einnig var hann nokkuð rykugur.  Ljósm. ÁI.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig Kristín Gísladóttir forvörður hefur gert við gripinn og komið honum í stöðugt og gott sýningarhæft ástand. Grímseyjarlaxinn verður væntanlega til sýnis síðar í mánuðinum á vegum Náttúruminjasafnsins.

Hann er glæsilegur, Grímseyjarlaxinn! Ljósm. ÁI.