Hátíð hafsins verður haldin nú um helgina 1.-2. júní og fjölmagir áhugaverðir viðburðir í boði um allt land fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafnið tekur þátt í hátíðarhöldunum og býður upp á tvo viðburði. Á hafnardeginum, laugardaginn 1. júní kl. 13, flytur Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, sem hann kallar „Af íslandssléttbökum í Kaupmannahöfn: íslenskur náttúruarfur eða danskur menningararfur.“ Á sjómannadeginum sunnudaginn 2. júní, býður Náttúruminjasafnið krökkum og fjölskyldufólki í Perluna til að kynnast forvitnilegum sjávardýrum – lifandi steinbítum, brimbútum, kross- og sogfiskum, Safnkennarar verða til taks og fræða krakkana um dýrin milli kl. 13 og 16. Ókeypis aðgangur verður að þessu tilefni inn á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, á 2 hæð í Perlunnai milli kl. 13 og 16.

 

Nánar um íslandssléttbakaerindið

Hilmar mun segja frá verkefni sem Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðisafn Danmerkur (Statens Naturhistoriske Museum, Zoologisk Museum) vinna að og fjallar um rannsókn á beinagrindum tveggja sléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddust við Ísland 1891 og 1904 og eru varðveittar í Kaupmannahöfn. Sléttbakar, öðru nafni Íslandssléttbakar voru eitt sinn algengir í norðanverðu Atlantshafi en eru nú í mikilli útrýmingarhættu. Greint verður frá náttúrusögu tegundarinnar, heimildavinnu um hvalina tvo í Kaupmannahöfn, vikið að merku og nýuppgötvuðu framlagi Jóns lærða Guðmundssonar í tengslum við hvalina og sagt frá nýlokinni háskerpu þrívíddarskönnun á annarri beinagrindinni. Þá verður vikið að vinnu Náttúruminjasafnsins við að sannfæra Dani um að afhenda Íslendingum til langs tíma aðra beinagrindina, enda um náttúruarf að ræða sem tilheyrir Íslandi.

Íslandssléttbakur kominn á land á hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og annar sléttbakurinn sem er í Kaupmannahöfn var veiddur. Ljósmynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.