Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Safnaverðlaununum standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS).
Safnaverðlaunin í ár verða veitt í níunda sinn á íslenska safnadeginum 13. júlí. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna og 1.000.000 krónur að auki.
Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og verið til eftirbreytni. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum safna og koma því öll söfn á landinu til greina; minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn og önnur sérsöfn. Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og samtökum um söfn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja framúrskarandi og til eftirbreytni.
Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 20. maí 2014 og sendist til safnaverdlaun2014@icom.is eða Safnaverðlaun 2014, P.O.Box 1489, 121 Reykjavík. Nánar má lesa um verðlaunin hér.