Náttúruminjasafn Íslands óskar samstarfsaðilum og velunnurum safnsins sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Það eru spennandi tímar framundan í starfseminni. Það hillir nú undir með raunverulegum hætti, að Náttúruminjasafn Íslands geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu um miðlun fróðleiks um náttúru Íslands á þann hátt sem sómir höfuðsafni. Hér er vísað bæði til stefnusáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2018.
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. að finna eftirfarandi setningu um málefni Náttúruminjasafnsins (bls. 13): „Á kjörtímabilinu verður sérstaklega hugað að því að styrkja starfsemi höfuðsafnanna þriggja. Þar á meðal verður Náttúruminjasafn Íslands styrkt til að opna eigin sýningu og gert ráð fyrir framtíðarhönnun fyrir nýtt safn í fjármálaáætlun til fimm ára.“. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 fær Náttúruminjasafnið hvorutveggja sérstaka fjárveitingu að upphæð 290 m.kr. til að standa straum af kostnaði við uppsetningu á sýningu í Perlunni (sjá frétt á heimasíðunni 14. desember s.l.) og hækkun á fjárheimild í almennan grunnrekstur sem nemur um 70%, úr um 42 m.kr. í ár í um 73 m.kr. á ári næstu þrjú árin.
Það er ekki seinna vænna að Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum, fái byr undir báða vængi, hljóti viðeigandi fjárstuðning og eignist viðunandi aðstöðu til fræðslu og kennslu. Baráttan fyrir málefninu teygir sig aftur í aldir – til árdaga Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem stofnað var 1889. Á verkefnaskrá félagsins er og hefur verið alla tíð að koma upp sem …„fullkomustu náttúrugripasafni á Íslandi…“..Þetta markmið er að miklu leyti í fullu gildi, hartnær 130 árum eftir stofnun félagsins. Búið er að koma á fót systurstofnuninni, Náttúrufræðistofnun Íslands, sem sinnir grunnrannsóknum á náttúru landsins, en eftir stendur að koma fótunum undir Náttúruminjasafn Íslands sem sinnir fyrst og fremst fræðslu og upplýsingamiðlun um náttúru Íslands með sýningahaldi, útgáfu, fræðastörfum og ýmsum öðrum hætti. Löng og merk forsaga safnsins hefur oft verið rædd og rakin af undirrituðum á vettvangi Náttúruminjasafnsins.
En nú er lag. Sem fyrr segir stefnir í fyrsta skipti síðan Náttúruminjasafnið var sett á laggirnar árið 2007 að safnið fái aðstöðu til eigin sýningarhalds. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Mikilvægi náttúrunnar fyrir farsælan framgang samfélaga kemur sífellt betur í ljós, sem og nauðsyn skynsamlegrar umgengni við náttúrugæðin með þarfir komandi kynslóða að leiðarljósi. Þá ríður á að fræða og upplýsa um undur og furður náttúrunnar, vekja áhuga á henni og auka skilning á gangverki hennar. Það er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands.
Til hamingju íslenska þjóð! Til hamingju allir gestir landsins!
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.