Út er komin bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og samstarfsmann Náttúruminjasafnsins. Það er Lesstofan sem gefur bókina út í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Áhugamenn um íslenskan menningararf og náttúrusögu hafa ærið tilefni til að fagna þessu merka verki Viðars.

jl_kapa_oll

Kápa bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.

Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) var skáld, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, málari, tannsmiður og sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands, hið merka verk „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“. Jón lærði tók einnig saman náttúrulækningaritið „Um nokkrar grasanáttúrur.“

Bókin er mikil að vöxtum, 760 bls., ríkulega myndskreytt og afrakstur um sex ára rannsóknastarfs Viðars. Í bókinni birtist náttúruskyn 17. aldar í gegnum hugarheim Jóns lærða. Ævi Jóns myndar söguþráð bókarinnar en grunntónn verksins er samband Jóns og samtíðar við náttúruna í víðu hugmyndafræðilegu samhengi, m.a. í tengslum við samtímamenn í Evrópu á sviði náttúrufræða.

Viðar hefur unnið að verkinu um Jón lærða Guðmundsson frá árinu 2011, fyrst undir merkjum ReykjavíkurAkademíunnar, en síðar í samstarfi við Náttúruminjasafnið þar sem Viðar hefur haft vinnuaðstöðu sl. tvö ár. Mikill fengur er að þessu samstarfi fyrir Náttúruminjasafnið.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar standa Lesstofan og Náttúruminjasafnið að hófi föstudaginn 25. nóvember kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Höfundur les úr bókinni og tónlist innblásin af Jóni lærða og verkum hans verður frumflutt. Léttar veitingar verða á boðstólum og eru allir velkomnir.

Merkur fundur í Kaupmannahöfn

Verk Viðars um Jón lærða er ætlað fróðleiksfúsum lesendum og áhugafólki um menningar- og hugmyndasögu, náttúrusögu og náttúruvernd. Fræðilegt gildi þess felst í því að 17. öld hefur aldrei verið gerð skil með þessum hætti sem felur í sér menningarsögulegt endurmat, auk þess sem grafist er fyrir um rætur þeirrar náttúrudrottnunar nútímans sem stefnir jörðinni í alvarlega vistkreppu. Sambærilegt verk hefur ekki verið ritað hér á landi fyrr þar sem fléttað er með þessum hætti saman hugmyndasögu og ævisögu í því skyni að kanna náttúruskyn og heimsmynd fyrri tíma sem um leið sýnir rætur heimsmyndar nútímans.

Gildi bókarinnar felst ekki síður í nýjum uppgötvunum Viðars á teikningum og myndefni eftir Jón lærða. Viðar fann í handritasafni Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn tvö áður óþekkt og afar athyglisverð verk eftir Jón lærða, Annað er stór örk með teikningum af 19 nafngreindum hvalategundum (sjá meðfylgjandi mynd) sem öruggt er að eru eftir Jón lærða og sumar líklega hinar elstu sem til eru af viðkomandi tegundum. Hitt er landakort af Vestfjörðum dregið upp á skinn og bendir margt til að Jón lærði hafi teiknað það. Um er að ræða afar merka fundi sem gerð eru nokkur skil í bókinni en þarfnast frekari rannsókna við og eru þær í burðarliðnum með þátttöku Náttúruminjasafnsins, Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn, Háskóla Íslands o.fl.

Hvaler

Teikningar af 19 hvölum og rostungi. Verk sem eignað er Jóni lærða Guðmundssyni. Birt með leyfi Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn.

 

Í tengslum við kvikmyndina Baskavígin sem frumsýnd verður í Bíó Paradís í dag, má geta þess að Jón lærði tók upp málstað Baskanna og deildi hart á óvægnar aðfarir samlanda sinna gagnvart skipbrotsmönnunum. Jón færði í letur ádeilu sína á Baskavígin í verkinu Sönn frásaga af spanskra manna skiptbrotum og slagi. Í kjölfarið sætti Jón ofsóknum og um miðjan aldur var hann sakaður um galdur og dæmdur í útlegð. Vegna þeirra sakargifta hraktist hann ekki aðeins landshluta á milli, heldur lá leið hans út fyrir landsteina og til Kaupmannahafnar til að hnekkja útlegðardómnum. Í Kaupmannahöfn kynntist Jón lærði prófessor Ole Worm við Hafnarháskóla en margir telja Ole Worm frumkvöðul í Evrópu á sviði náttúrufræðisafna. Hér á landi kynntist Jón hollenska landkönnuðinum og kortagerðarmanninum Joris Carolus, eða „Mastur Juris Tréfótur” eins og Jón lærði kallaði hann, en fótinn missti Carolus í umssátrinu um Ostende. Íslandskort Carolusar sem kom fyrst út árið 1630 varð fyrirmynd flestra Íslandskorta í um 120 ár (sjá heimasíðu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns).