Kvenfuglsins enn leitað
Hamur karlfuglsins, annars tveggja síðustu geirfuglanna sem drepnir voru við Ísland 1844, er fundinn!
Með DNA-greiningu á innyflum fuglanna, sem varðveitt eru í Náttúrufræðisafni Danmerkur, og samanburði við erfðaefni úr uppstoppuðum eintökum á söfnum víða um heim fannst hamur karlfuglsins í náttúrufræðisafninu í Brussel. Hamur kvenfuglsins er hins vegar enn ófundinn, en vísbendingar eru um hvar hann er niður kominn.
Hamirnir sem hurfu
Þegar fuglarnir voru drepnir í byrjun júní 1844 í Eldey höfðu geirfuglshamir verið eftirsóttir meðal safnara um árabil. Fuglinn var ekki lengur veiddur til átu heldur til að stoppa upp en talið er að til séu í heiminum um 80 hamir og uppstoppaðir geirfuglar – þeirra á meðal sá sem keyptur var til Íslands 1971.
Vitað er að bæði innyflin og hamirnir komu á náttúrufræðisafnið í Kaupmannahöfn 1844 og þar hafa innyfli fuglanna síðan verið varðveitt. Hins vegar hurfu hamirnir, þeir voru á árinu 1845 skráðir í eigu þekkts safnara í Kaupmannahöfn en síðan ekki söguna meir og hafa sagnfræðingar og náttúruvísindamenn reynt að leysa gátuna um hvar þeir væru niður komnir.
Um síðustu aldamót hafði breska geirfuglasérfræðingnum Erroll Fuller tekist að þrengja hringinn og birti hann skrá yfir fimm eintök sem hann taldi að helst kæmu til greina og varðveitt eru í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Og þá kom til kasta nýrrar tækni erfðavísindanna.
Gátan leyst til hálfs
Fimmtán vísindamönnum frá Danmörku, Noregi, Bretlandi, Þýskalandi og Nýja Sjálandi hefur nú tekist að leysa gátuna til hálfs og birtu þeir niðurstöður sínar í sumar í GENES, vísindariti um erfðafræði. Þeir tóku erfðaefni hvatbera úr innyflum síðustu geirfuglanna í Kaupmannahöfn og báru saman við erfðaefni í fjórum uppsettum hömum á söfnum í Kiel og Oldenburg í Þýskalandi, Los Angeles í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu, en Fuller taldi þetta líklegustu eintökin.
Erfðaefni úr vélinda karlfuglsins í Kaupmannahöfn smellpassaði við haminn í Brussel en vonbrigðin urðu mikil þegar erfðaefni úr hjarta kvenfuglsins passaði ekki við neinn haminn. Við nánari athugun telja vísindamennirnir hins vegar líkur á að finna ham kvenfuglsins á safni í Cincinnati í Bandaríkjunum – og hafa reyndar fengið leyfi til að taka sýni úr honum til erfðagreiningar!
Það verður því væntanlega framhald á þessari 173ja ára sögu síðasta geirfuglaparsins sem drepið var við Ísland svo vitað sé.
Geirfugl Pinguinis impennis
Geirfugl var stór fugl af ætt svartfugla og var algengur við norðanvert Atlantshaf fyrr á öldum, þar á meðal við Ísland. Fuglinn var eftirsóttur til matar enda stórvaxinn og feitur. Um hann segir Þorvaldur Thoroddsen í Lýsingu Íslands sem út kom árið 1900:
„Geirfugl var algengur við Ísland fyr á öldum en er nú horfinn og að öllum líkindum útdauður; seinast var hann í Geirfuglaskerjum fyrir utan Reykjanes, en af því fuglinn var eigi fleygur og viðkoman lítilen mikið var drepið eyddist hann fljótt.“
Aldauði tegundar – sérsýning sem var
Náttúruminjasafn Íslands og Ólöf Nordal myndlistamaður efndu til sérsýningar um geirfuglinn í Safnahúsinu á síðasta ári.
Sýningunni var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, eiga í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.
Á sýningunni gaf að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýndi veiðar á fugli í Vestmannaeyjum. Sýningin var opnuð 16. júní 2016 og stóð í Safnahúsinu í eitt ár.