Að vanda verður líf og fjör víða í Reykjavík á Menningarnótt næstkomandi laugardag. Náttúruminjasafnið tekur þátt í sérstakri dagskrá sem verður í boði í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þar stendur yfir grunnsýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem er samsýning sex safnastofnana landsins, þar á meðal Náttúruminjasafnsins.

Safnahúsið verður opið frá kl. 10 til 22 og er aðgangur ókeypis.

Dagskrá Safnahússins á Menningarnótt 20. ágúst 2016, sem Þjóðminjasafn Íslands heldur utan um, er eftirfarandi:

Kl. 11:  A Guided tour in English. Points of View – a journey through the visual world of Iceland.
Kl. 13: Dj Óli Dóri hitar upp fyrir gesti og gangandi.
Kl. 14: Ljúfir tónar. Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar spila fyrir gesti á útisvæði Kaffitárs.
Kl. 14: Leiðsögn á íslensku. Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.
Kl. 15 – 17: Geirfuglagrímur og fleira spennandi. Listasmiðja fyrir alla fjölskylduna, Ásdís Kalman leiðbeinir.
Kl. 17: Ólöf Nordal myndlistarmaður og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur spjalla um sýninguna Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin.

Krukka4_b

Augu síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 1844.                 Ljósmynd: Ólöf Nordal.

Vakin er sérstök athygli á síðustu tveimur dagskrárliðunum þar sem geirfuglinn kemur við sögu, en hann er í Safnahúsinu á vegum Náttúruminjasafnsins.

Ólöf Nordal myndlistarmaður og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur munu taka á móti gestum kl. 17 og spjalla um sýninguna Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem er sérsýning í Safnahúsinu og samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

 

Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið af fuglaveiðum í Vestmannaeyjum. Ólöf og Jóhann Óli leiða gesti um sýninguna og spjalla um ýmis málefni sem leita á hugann í tengslum við efnið.

Verið velkomin!