Hvannstóð á Reykjahlíðarheiði. Leirhnjúkur og Krafla í baksýn til vinstri. Svarta hraunið er frá Kröflueldum, gráa hraunið með mosa er frá Mývatnseldum.  Ljósm. Kristján Jónasson.

Hvannstóð á Reykjahlíðarheiði. Leirhnjúkur og Krafla í baksýn til vinstri. Svarta hraunið er frá Kröflueldum, gráa hraunið með mosa er frá Mývatnseldum.  Ljósm. Kristján Jónasson.

Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands efna í samvinnu við Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar til ráðstefnu í Hörpu 26.-27. febrúar næstkomandi. Efni ráðstefnunnar er miðhálendið og stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands. Þar munu innlendir og erlendir sérfræðingar, sem þekkja til náttúrufars og útivistar á hálendinu halda fyrirlestra, auk þess sem fjallað verður um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ráðstefnan hefst kl. 13:15 á föstudag og stendur til kl. 17:10 og á laugardag kl. 10:30-14:45. Frú Vigdís Finnbogadóttir setur ráðstefnuna. Ráðstefnustjóri er Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða.

Meðal fyrirlesara á laugardagsmorgni (kl. 10:35) er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og nefnist erindi hans Verndun náttúrugæða hálendisins: mikilvægi þekkingar og fræðslu.

Tveir erlendir fræðimenn flytja erindi: Dr. Christopher Hamilton er bandarískur eldfjallafræðingur og sérfróður um eldvirkni á reikistjörnum sólkerfisins. Margar hliðstæður eru á milli jarðfræði Íslands og Mars og hefur landið, og þá sérstaklega miðhálendið, verið vinsæll áfangastaður fyrir þá sem rannsaka rauðu reikistjörnuna. Dr. Hamilton mun segja ráðstefnugestum frá rannsóknum sínum.

Joel Erkkonen ráðgjafi hjá finnsku stofnuninni Parks & Wildlife Finland fjallar um efnahagslega og heilusfarslega ábata af þjóðgörðum í Finnlandi. Hann hefur rannsakað samfélagsleg og efnahagsleg áhrif þjóðgarða þar í landi. Þær rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að fyrir hverja evru sem lögð er í rekstur þjóðgarða skila 10 evrur sér tilbaka til samfélagsins.

Ókeypis er á ráðstefnuna og hún opin öllum. Skráning fer fram í gegnum steinar@natturuvernd.is  Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem nálgast má frekari upplýsingar um ráðstefnuna en dagskrána má nálgast hér