„Mikill er máttur safna“

Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum 18. maí fjallar Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um söfn og safnastarf.
Hér má sjá kynningarmyndband Náttúruminjasafnsins sem gert var í tilefni af tilnefningu til evrópsku safnaverðlaunanna.  

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Í ár er safnadagurinn haldinn undir yfirskriftinni „Mikill er máttur safna“ (e. The Power of Museums).

Megintilgangur safnadagsins er að vekja athygli á menningar- og samfélagslegu mikilvægi safna og starfsemi þeirra. Máttur safna felst einkum í faglegri starfsemi þeirra á sviði gagnaöflunar, varðveislu, rannsóknum og opnu, lýðræðislegu aðgengi að menningar- og náttúruarfinum með miðlun á þekkingu á honum til samfélagsins. Viðfangsefni safna tekur til fortíðar, nútíðar og framtíðar og hlutverk safna felst þ.a.l. í að tengja og byggja brýr milli tímaskeiða, stuðla að samfellu, styrkja rætur og búa í haginn fyrir komandi tíma og kynslóðir – að treysta og efla grundvöllinn fyrir sjálfbært, farsælt og hamingjuríkt líf.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.
Náttúruvísindi og tækni – Hvert er erindi þeirra og áhrif í samfélaginu?
Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).
Um 300 gestir sátu ráðstefnuna, fylgdust með kynningu á starfsemi 60 tilnefndra safna. Hér má sjá fulltrúa Náttúruminjasafnsins í salnum.

Leiðarljós safnsins

Náttúruminjasafn Íslands hefur framangreind atriði að leiðarljósi í starfsemi sinni. Máttur safnsins, líkt og allra safna, byggir á starfsfólkinu, mannauðnum. Sýningahald, jafnt gerð þess, uppsetning og rekstur, er ein birtingarmynd af vinnu og afrakstri starfsfólksins. Vatnið í náttúru Íslands, sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er ljómandi gott dæmi um mátt safnsins. Þar hefur tekist afar vel til. Aðsókn hefur verið með miklum ágætum þrátt fyrir áhrif COVID-19, og verið á bilinu 50 þúsund til nær 200 þúsund á ári, með flesta gesti árið 2019, á fyrsta heila starfsárinu fyrir COVID-19. Langflestir gestir eru erlendir ferðamenn en sérlega ánægjulegt er að sjá hve vel fjölskyldur með ung börn sækja sýninguna, einkum á sérstaka viðburði um helgar sem tileinkaðir eru fjölskyldufólki og safnkennarar og sérfræðingar safnsins sjá um. Þá er afar gaman að segja frá því að grunnskólar nýta sér mjög vel þjónustu safnkennaranna enda er vel vandað til móttöku barnanna og boðið upp á fjölbreytta fræðslu og verkefni.

 

Horft í suður yfir Öskjuvatn.
Tilnefning Náttúruminjasafnsins til EMYA22 var staðfest með sérstöku heiðursskjali. Hér má sjá þau Álfheiði Ingadóttur og Hilmar J. Malmquist sem tóku við skjalinu.

Mikill heiður og viðurkenning

Sýningin Vatnið í Náttúru Íslands hefur hlotið verðlaun og tilnefningar fyrir jafnt einstök sýningaratriði sem sýninguna í heild, starfsemi safnsins og framtíðarsýn þess. Hér má nefna hin eftirsóttu, alþjóðlegu Best of the Best-Red Dot hönnunarverðlaun sem safnið hlaut árið 2019 ásamt margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar í sýningunni og árið 2020 þegar Vatnið í náttúru Íslands var tilnefnt til Íslensku safnaverðlauna.
Stærsta viðurkenningin verður þó að teljast tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022 (EMYA22). Tilnefningin byggði jafnt á sýningu safnsins í Perlunni, Vatnið í náttúru Íslands, á grunnstarfsemi safnsins á sviði rannsókna og miðlunar almennt og á framtíðarsýn og áformum um nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem væntanlega verða opnaðar eftir 2–3 ár. Það var mikill heiður og viðurkenning fyrir Náttúruminjasafnið að komast í úrslit og vera á meðal 60 annarra safna af margvíslegu tagi í þessari stærstu keppni meðal safna, en söfn af hvaðeina tagi munu vera hátt á fjórða tug þúsunda í Evrópu.

Tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna er sú fjórða meðal íslenskra safna. Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

 

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.
Þjóðminjasafn Eista í Tartu er byggt í framhaldi af flugbraut á herflugvelli sem Rússar reistu á sínum tíma. Til vinstri á myndinni má sjá leifar af gamla safninu sem var sprengt í loft upp í síðari heimsstyrjöldinni.

EMYA22

Verðlaunahátíð Evrópsku safnaverðlaunanna og ráðstefna fór fram í Þjóðminjasafni Eista í Tartu, Eistlandi, dagana 4.–7. maí s.l.  Um 300 ráðstefnugestir voru mætti til leiks, þar á meðal undirritaður og ritstjóri safnsins Álfheiður Ingadóttir fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands. Þéttskipuð dagskrá hófst kl. 9 hvern dag með erindum frummælenda, örerindum og pallborðsumræðum og lauk með verðlaunaafhendingu og kvöldverði. Náttúruminjasafninu var skipað ásamt fjórum öðrum söfnum í málstofu um náttúruvísindi og samfélagslegt hlutverk í staðbundu og hnattrænu samhengi. Til hliðsjónar voru lagðar fram spurningar um hvernig náttúrusöfn geta stuðlað að vernd náttúru og aukinni meðvitund um umhverfið og hins vegar hvaða leiðir söfn geta farið til að auka aðgengi og þátttöku mismunandi hópa og gesta í sýningum og starfsemi safna.

Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Forseti Eista, Alar Karis, sem er fyrrverandi þjóðminjavörður í Eistlandi, ávarpaði gesti við verðlaunaafhendinguna.
Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Museum of the Mind – hollenskt safn í Amsterdam og Harlem sem fjallar um geðheilsu manna hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar – Safn Evrópu 2022.

Þríþætt erindi Náttúruminjasafnsins

Í erindi mínu kynnti ég stuttlega gerð, eðli og inntak sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands og lagði áherslu einkum á þrennt. Í fyrsta lagi á margvísleg náttúrufræðileg sérkenni vatnsauðlindarinnar á Íslandi og vistfræðileg tengsl bæði á staðbundna og hnattræna vísu, sem og að vatnsauðlindin væri ekki eins og hver önnur verslunarvara eða gæði sem hægt væri að fara óvarlega með. Í annan stað lagði ég áherslu á mikilvægi safnkennara og sérfræðinga varðandi fræðslu og þjónustu við skólakerfið, auk þess að beita nýstárlegri margmiðlunartækni við miðlunina, sér í lagi gagnvart ungum gestum sem iðulega eru nýjungagjarnir og fúsir og fljótir að læra og beita nýjustu tækni. Í þriðja lagi lagði ég áherslu á mikilvægi vísindalegrar þekkingar og rannsókna sem grundvöll að vandaðri og áhugaverðri frásögn og miðlun. Hér tæpti ég á helstu rannsóknum Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila sem eru aðallega á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, fornlíffræði og náttúrusögu og náttúruspeki.

Líffræðileg fjölbreytni er lykilstef í starfsemi Náttúruminjasafnsins. Hilmar J. Malmquist kynnir safnið á ráðstefnu Evrópskra safna.

Varðandi líffræðilega fjölbreytni hvatti ég ráðstefnugesti sérstaklega til að huga vel að skilgreiningu hugtaksins, s.s. að tengja það ekki einvörðungu við fjölda tegunda heldur líta ekki síður til tengsla og víxlverkana milli lífvera, ólífrænna þátta og umhverfisins. Þá minnti ég á brýningu António Guterres aðalritara SÞ í skýrslunni „Semjum frið við náttúruna“ (e. „Making peace with nature“) sem kom út í febrúar 2021 þess efnis að mannkyn verði að taka líffræðilega fjölbreytni sömu tökum og koma málefninu á sama stall og gert hefur verið varðandi loftslagsmálin, ella blasi við hrun líf- og efnahagskerfa og fótunum verði kippt undan tilvist mannsins.

Máttur safna er sannarlega mikill svo framarlega sem þeim er búinn umgjörð til að starfa faglega og í þágu almennings og samfélagsins í heild. Þannig tryggjum við menningar- og náttúruarfinn og aðgengi að honum á besta hátt og þar með grundvöllinn að tilveru okkar og farsælli framtíð.

 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður