Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hlýtur í ár hin eftirsóttu alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaun fyrir hönnun og framleiðslu á þremur gagnvirkum atriðum á sýningu Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

Verðlaunin heita  „Best of the best“ í flokknum „viðmótshönnun og notendaupplifun“ og eru veitt fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar sem Gagarín hannaði fyrir sýninguna.

Margmiðlunarstöðvarnar eru ólíkar og veita einstaka upplifun og sýn inn í þessa mikilvægu auðlind, vatnið, sem er undirstaða alls lífs á jörðinni.

Atriðin sem hlutu verðlaun eru:

  • Fossar – Myndrænn hljóðskúlptúr þar sem 773 fossanöfn á Íslandi steypast niður í háum fossi.
  • Rennslismælar – Gagnvirk stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 mismunandi ám á Íslandi sem Veðurstofa Íslands vaktar.
  • Vistrýnir – Gagnvirk stöð þar sem gestir geta kannað lífríki í níu ólíkum gerðum votlendis á Íslandi.

Yfirhönnuður sýningarinnar er Þórunn S. Þorgrímsdóttir og voru margmiðlunaratriðin unnin í samstarfi við hana og starfsfólk Náttúruminjasafnsins. Sýningin var opnuð í Perlunni 1. desember 2018.

Eins og nafnið ber með sér fjallar sýningin um gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu og fjölbreytileikann í vatnalífríkinu. Ein af forsendunum við gerð sýningarinnar var að beita nýjustu tækni í miðlun svo að gestir gætu á gagnvirkan og eftirminnilegan hátt fræðst og upplifað fjölbreytileika vatnsins. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Gagarín og Náttúruminjasafnið fái þessi  verðlaun sem eru ein þau virtustu á sviði hönnunar og nýsköpunar.

Verðlaunin verða afhent í Berlín 1. nóvember næstkomandi.