Skömmu fyrir síðastliðin jól var greint frá því í fjölmiðlum að stofnað hefði verið einkahlutafélag, Perluvinir ehf., í þeim tilgangi að setja upp náttúrusýningu í Perlunni. Þetta kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra Perluvina, Helgu Viðarsdóttur, í Fréttablaðinu miðvikudaginn 16. desember 2015. Í umfjöllun Fréttablaðsins sagði að viðræður milli Náttúruminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt sýningarhald í Perlunni hafi „siglt í strand“. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins brást við þessari fregn með grein í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Hilmar benti m.a. á að viðræður safnsins og borgarinnar hafi beinst að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og að þær hafi verið að frumkvæði safnsins. Einnig að ákvörðun um að hætta viðræðunum hafi verið tekin af hálfu Reykjavíkurborgar.
Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðum við ráðherra og ráðuneyti hefur nú verið formlega staðfest en fimmtudaginn 7. janúar 2016 birti Reykavíkurborg auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum um að sjá um rekstur og þjónustu á náttúrusýningu í Perlunni. Í kynningarefni auglýsingarinnar er ekki gert ráð fyrir neinni aðkomu Náttúruminjasafns Íslands.