Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá fari þorsks við Íslandsstrendur og hvaða upplýsingar merkingar í hundrað ár hafa veitt um göngur, atferli og stofngerð íslenska þorsksins. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul fyrr og nú, sagt frá súlum sem leita á fornar varpslóðir á Hornströndum og lúsflugunni snípuluddu sem leggst á fiðurfé. Loks er fjallað um fuglakóleru sem drap æðarfugl í varpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019, um Gilsárskriðuna í Eyjafirði 2020 og grænþörunginn Ulothrix í ferskvatni á Íslandi.

Heftið er 92 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Heimakærir þorskar

Þorskur er mikilvægasta tegund botnfiska á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn 1954, tæp 550 þúsund tonn, en hefur verið um 260 þúsund tonn á síðustu árum. Þorskar eru merktir til að greina far, atferli og stofngerð en fyrsti þorskurinn var merktur hér við land 1904. Endurheimt merki sýna m.a. að eftir hrygningu við suðurströndina leitar þorskur aðallega á fæðusvæði norðvestur og austur af landinu og ennfremur að greina má þorskstofninn í tvær atferlisgerðir, grunnfarsþorska  sem halda sig á minna en 200 m dýpi allt árið, og djúpfarsþorska sem halda sig í hitskilum á fæðutíma. Þorskurinn sýnir tryggð við hrygningarsvæðin og þó egg og lirfur berist með straumum frá Íslandi til Grænlands leitar þorskurinn aftur til Íslands til að hrygna þegar kynþroska er náð. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, Jón Sólmundsson, Einar Hjörleifsson, Magnús Thorlacius og Hjalti Karlsson.

Súlur sækja á gömul mið

Súlur verpa nú á níu stöðum við Ísland, aðallega við sunnan- og vestanvert landið. Vitað er um fimm aðra staði þar sem súlur hafa orpið en þau vörp eru nú horfin. Talið er að súlur hafi ekki orpið á Hornströndum í tvær aldir en sumarið 2016 sást súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi. Fylgst hefur verið með tilraunum súlna til varps á þessum fornu varpstöðvum frá 2016 og á hverju ári hefur fundist stakur hreiðurhraukur á sama stað. Við athugun á eldri ljósmyndum kom í ljós að súlur höfðu byggt sér hreiður á Langakambi 2014. Því er ljóst að súlur hafa lengi verið að huga að mögulegu varpi á þessum slóðum. Höfundar eru Ævar Petersen, Christian Gallo og Yann Kolbeinsson.

Súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi 2016. Ljósm: Klaus Kiesewetter. 

Yfir þveran Vatnajökul

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar í Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul allt frá því land byggðist og fram undir okkar daga. Þriðja og síðasta greinin nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Endurvakin kynni en breytt erindi. Hér er fjallað um ástæður þess að ferðir yfir Vatnajökul lögðust af og að hálendið varð flestum lokuð bók í hátt í tvær aldir. Síðla á 18. öld beindust sjónir manna hins vegar á ný að hálendisleiðum, þar á meðal fram með Vatnajökli norðan- og austanverðum. Sérstaklega er fjallað um Grímsvötn fyrr og síðar, en þau eru að líkindum nafngjafi Vatnajökuls.

Kortið sýnir helstu ferðir útlendinga um og yfir Vatnajökul 1875–1956. Uppdráttur: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Fuglakólera í æðarvarpi

Fuglakólera leiddi til fjöldadauða í æðarvarpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019 og var það í fyrsta sinn sem veikin greindist hér á landi. Fuglakólera er bakteríusýking – alls óskyld þeirri sem veldur kóleru í mönnum ­– og er sjúkdómurinn einn af þeim skæðustu sem herjar á villta fugla. Oftast drepst allt að 30% fugla í varpi skyndilega án sýnilegra ytri einkenna og hefur pestin valdið dauðsföllum í æðarvörpum í N-Ameríku síðan um 1960 og í Evrópu síðan 1991. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum árum.Þekktar mótvægisaðgerðir eru fáar en brýnast er að hindra að sýktir fuglar beri sjúkdóminn víðar. Höfundur greinarinnar er Jón Einar Jónsson.

Dauðar æðarkollur í varpi á Hrauni á Skaga vorið 2018. Ljósm. Merete Rabelle.

Snípuludda og farþegar hennar

Fiðurmítlar og naglýs eru algeng sníkjudýr á fuglum. Lífsferill þeirra er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli fugla sömu tegundar, en lúsflugur geta líka komið við sögu sem smitferjur. Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen leituðu svara við því hvaða sníkjudýr nýta sér lúsflugur til dreifingar milli fugla á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ein lúsflugutegund, snípuludda, er landlæg hér og er lífsferli hennar lýst. Flugunni var safnað á 13 fuglategundum og á henni fundust þrjár tegundir fiðurmítla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu.

Lúsmýið snípuludda – kvenfluga með nær fullþroska lirfu innvortis. Ljósm. Svavar Ö. Guðmundsson. 

Auk framangreinds er í 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins sagt frá sífrera í Gilsárskriðunni sem féll í Eyjafirði 6. október 2020 – höfundur er Skafti Brynjólfsson; grænþörungnum ullþræði Ulothrix í ferskvatni á Íslandi – höfundur er Helgi Hallgrímsson; ennfremur leiðara sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor ritar um Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands, eftirmæli um Jakob Jakobsson, fiskifræðing sem lést í október 2020 og ritdóm um stórvirki Örnólfs Thorlacius, Dýraríkið, sem út kom að honum látnum á síðasta ári. Þá er í heftinu skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2020 og reikningar félagsins fyrir sama ár.

Skriðan féll úr um 850 m hæð niður í Gilsá í Eyjafirði um tveggja km leið. Hún var um 150–200 metrar þar sem hún var breiðust og stöðvaðist rétt ofan við bæjarhúsin á Gilsá. Ljósm. Skafti Brynjólfsson.