Grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi verður opnuð í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 18. apríl n.k. Að sýningunni standa sex helstu menningarstofnanir þjóðarinnar á viði safnastarfs; Þjóðminjasafn Íslands, sem er rekstraraðili hússins, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn- Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heiti sýningarinnar er Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.

Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningaarf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007 og því er um merk tímamót að ræða.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson. Nálgast má upplýsingar um sýninguna á Facebook-síðu hennar hér. Á opnunardegi sýningarinnar verður jafnframt opnuð heimasíða sýningarinnar.

Grunnsýningunni er ætlað að standa í fimm ár en auk þess verður boðið upp á tímabundnar sérsýningar. Annars vegar er um að ræða sérsýningu í einu herbergi Safnahússins til eins árs, þar sem ákveðnu viðfangsefni tiltekins aðstandenda sýningarinnar verður gerð ítarleg skil. Hins vegar er svokölluð kjörgripasýning, hugsuð til hálfs árs eða svo, sem verður staðsett í stigaherbergi á 2. hæð fyrir miðju húsinu. Þar munu aðstandendur sýningarinnar kynna gersemar sem þykja einstaklega sérstakar og eða fágætar.

Náttúruminjasafn Íslands ríður á vaðið með sýningu á kjörgrip og er það geirfuglinn sem þjóðin eignaðist á uppboði í London 1971 eftir almenna fjársöfnun hér heima. Íslenski geirfuglinn er mikið fágæti og dýrmætur gripur en geirfuglinum var útrýmt af Jörðu um miðja 19. öld. Talið er að síðustu tveir fuglarnir hafi verið drepnir í Eldey í fyrstu viku júni árið 1884. Aðeins eru til um 80 geirfuglar og 75 geirfuglsegg í söfnum erlendis og eru flestir munirnir frá Íslandi. Íslenski geirfuglinn og eitt geirfugslegg eru varðveitt á Náttúrufræðistofnun Íslands.