Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Þemað í ár er „Söfn og menningarlandslag“ („Museums and Cultural Landscapes“) og eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi utan þeirra.
Í tilefni dagsins stendur Íslandsdeild ICOM fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu. Formaður Íslandsdeildar ICOM, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir flytur ávarp, listgreinakennararinir Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir fjalla um fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir kynnir tilnefningar til Íslensku Safnaverðlaunanna 2016. Dagskrána má kynna sér hér.
Náttúruminjasafnið í Safnahúsi
Náttúruminjasafn Íslands fagnar alþjóðlega safnadeginum og vill rifja upp það sem hæst bar á vegum safnsins á liðnu ári. Þar ber fyrst að nefna þátttöku safnsins í sýningunni „Sjónarhorn“ í Safnahúsinu við Hverfisgötu, sem er fyrsta sýningin sem safnið tekur þátt í frá stofnun 2007. Sýningin á geirfuglinum sem fyrsta „kjörgrip“ sýningarinnar stóð í eitt ár og vakti mikla athygli. Í ljósi þess hefur nú verið ákveðið að Náttúruminjasafnið standi fyrir nýrri sérsýningu á geirfuglinum í Safnahúsinu. Þar verður hann settur á stall sem sá ómetanlegi gripur sem hann er, fjallað verður um fækkun tegunda af manna völdum og mun Ólöf Nordal myndlistarmaður vinna og sýna ný verk tengd útrýmingu geirfuglsins. Sýningin verður opnuð 16. júní n.k. á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Skrifstofur safnsins festar í sessi
Á árinu hefur aðstaða safnsins í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu, Brynjólfsgötu 5, verið fest í sessi. Þar eru skrifstofur safnsins og ritstjóri Náttúrufræðingsins auk ágætrar fundaraðstöðu. Í Loftskeytastöðinni starfa nú ýmsir sérfræðingar á eigin vegum og í samvinnu við Náttúrminjasafnið og má þar nefna Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund, Sigrúnu Helgadóttur, líffræðing og rithöfund, Skúla Skúlason, prófessor, Stefán Óla Steingrímsson líffræðing og starfsmenn Rorum ehf., Þorleif Eiríksson og Sigmund Einarsson.
Samvinna um væntanlegt sýningarhald í Perlunni
Loks er þess að geta að á árinu gerði Náttúruminjasafnið samning við Perluvini ehf. um samvinnu um væntanlegt sýningarhald Perlu norðursins í Perlunni. Reykjavíkurborg hefur samið við Perlu norðursins um uppsetningu náttúrusýningar þar og er frekari aðkoma og stuðningur Náttúruminjasafnsins við sýninguna í undirbúningi.
Sömu fjárveitingar og 2007
Þrátt fyrir allt sem að framan er talið verður að viðurkennast að staða höfuðsafnsins hefi ekki verið jafn bág í hartnær tíu ára sögu safnsins hvað varðar fjárheimildir og annan stuðning frá ríkisvaldinu. Árlegt rekstrarfé frá upphafi starfseminnar árið 2007 hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa vísitölur hækkað um 45–52%! Aukið rekstrarfé hefur ekki fengist.
Steypireyðurin
Takmarkaðar fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa m.a. í för með sér að safnið getur ekki sinnt lögboðnum og umsömdum verkefnum. Eitt skýrasta og alvarlegasta dæmið um þetta varðar steypireyðina sem rak á land við Ásbúðir á Skaga í ágúst 2010 og flutt var síðastliðið haust norður í Hvalasafnið á Húsavík en hefði átt að verða þungamiðja í fyrirhugaðri sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni í Öskjuhlíð.
Náttúruminjasafnið var sniðgengið þegar kom að uppsetningu beinagrindarinnar og umsjón með gerð varðveislusamnings um gripinn. Var það þvert á yfirlýsingar mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 3. nóvember 2014. Forstöðumaður Náttúruminjasafnsins hefur því séð sig knúinn til að drepa niður penna og fjalla sérstaklega um það mál, m.a. í ljósi umfjöllunar í ársriti Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2015 en Náttúruminjasafn Íslands hefur frá upphafi haft beina aðkomu að málefninu, jafnt faglega sem fjárhagslega.
Pistill forstöðumanns 18. maí 2016.