Mjög merk tímamót urðu í gær í starfsemi Náttúruminjasafnsins þegar undirritað var samkomulag milli Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafnsins um þátttöku safnsins í sýningahaldi í Perlunni. Samkomulagið undirrituðu Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra, stjórn Perlu norðursins og fleiri góðum gestum.
Samkvæmt samkomulaginu fær Náttúruminjasafnið endurgjaldslaust til eigin umráða um 380 fermetra rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Perla norðursins mun jafnframt standa straum af öðrum rekstrarkostnaði vegna sýningar Náttúruminjasafnsins, þ.m.t. vegna hita og rafmagns og starfsmanna sem vinna við sýninguna. Náttúruminjasafnið mun aftur á móti greiða stofnkostnað við hönnun, framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar sem og árlegt viðhald hennar.
Þetta er í fyrsta skipti síðan Náttúruminjasafnið var sett á laggirnar árið 2007 að það stefnir í með raunhæfum hætti að safnið fái aðstöðu til eigin sýningahalds. Það eru mjög merk tímamót fyrir höfuðsafnið.
En björninn er ekki að fullu unninn. Fyrsti verkáfangi samkvæmt samkomulaginu felst í frumhönnunarvinnu á vegum Náttúruminjasafnsins þar sem efnistök og innihald sýningarinnar verða ákveðin og gerðar verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir um framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar. Þessum verkáfanga skal vera lokið um miðjan október n.k. Í kjölfarið kemur til kasta Alþingis sem þarf að samþykkja fjármögnun á stofnkostnaði sýningarinnar. Samþykki Alþingi verkefnið hefst annar áfangi sem felst í fínhönnun sýningarinnar, textagerð, framleiðslu og kaup á sýningamunum og tækjabúnaði og uppsetningu sýningarinnar. Gangi allt eftir er stefnt að opnun sýningarinnar 1. maí 2018 á sama tíma og Perla norðurins mun opna sýningaráfanga númer tvö á sínum vegum.
Verkefnisstjóri hönnunarvinnu Náttúruminjasafnsins í fyrsta áfanga er Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður. Þórunn er í verkefnisstjórn sýningarinnar og stýrir hönnunarteymi Náttúruminjasafnsins sem er skipað valinkunnum hönnuðum og fólki með reynslu á sviði náttúrusýninga. Auk Þórunnar eru í verkefnisstjórninni Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason prófessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og ritstjóri verkefnisins.
Nánar má lesa um undirritun samkomlagsins hér í fréttatilkynningu Perlu norðursins og Náttúruminjasafnsins.
Umfjöllun Morgunblaðsins um undiritun samkomulagsins.
Umfjöllun RÚV-sjónvarps um undirritun samkomulagsins.