bouchout_logo_cyan

Náttúruminjasafn Íslands undirritaði nýlega svokallaða Bouchoutyfirlýsingu sem lesa má um hér. Megintilgangur yfirlýsingarinnar er að stuðla að auknu aðgengi að stafrænum upplýsingum um líffræðilega fjölbreytni. Bouchoutyfirlýsingin fellur mjög vel að lögboðnu hlutverki Náttúruminjasafnsins um miðlun upplýsinga um náttúru Íslands og samræmist vel þeim siðareglum sem stofnunin starfar eftir í anda Alþjóðasafnaráðsins, bæði almennum siðareglum safna og siðareglum náttúrufræðisafna.

Bouchoutyfirlýsingin samræmist einnig vel þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki þingsályktunartillögu um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi sem lögð var fram á síðasta löggjafarþingi nr. 143, 2013‒2014 (Þingskjal 244 – 196. mál.).

Náttúruminjasafn Íslands skal lögum samkvæmt vinna að skráningu og varðveislu á náttúrufræðilegum gögnum á stafrænu sniði og miðla upplýsingum um náttúru landsins á veraldarvefnum. Um er að ræða gögn og upplýsingar sem taka m.a. til einstakra náttúrumuna, samfélög lífvera og vistkerfa, gagnasafna, ritaðra heimilda (bækur, tímarit, stakar vísindagreinar) og ljósmynda. Verið er að athuga fýsileika þess að skrá upplýsingar af þessu tagi í gagnagrunn Sarps, en til þessa hefur engin samræmd skráning farið fram í landinu á náttúrufræðilegum upplýsingum og gögnum sem hin ýmsu söfn og safnadeildir búa yfir.

Náttúruminjasafnið vinnur einnig að því að auka aðgengi að upplýsingum um náttúru Íslands með því að taka þátt í samstarfsverkefnum. Eitt slíkt verkefni er Nordic LifeWatch Consortium, sem Náttúruminjasafnið tekur þátt í ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands. Um er að ræða norrænt samstarf sem snýst um samræmingu á gerð og eðli rafrænna gagnagrunna á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.