Safnanótt verður haldin föstudaginn 7. febrúar frá kl. 18 – 23 og er hluti af Vetrarhátíð. Náttúruminjasafnið tekur að sjálfsögðu þátt í viðburðinum og munu vísindamenn og safnkennarar taka á móti gestum á sýningu okkar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.  Sýningin fjallar um vatn í öllum sínum myndum, um fjölbreytileik vatnsauðlindarinnar, lífríkið sem í vatninu býr, vistþjónustu vatns og hlutverk þess við mótun lands og myndun. Miðlun efnis er sérstaklega sniðin að yngri kynslóðinni. Safnkennarar og vísindamenn taka á móti gestum og miðla fræðslu og spjalla um þessa dásamlegu auðlind. Hægt verður að sulla í vatnsborði, skoða vatnabjöllur, uppgötva hvernig vatnsþrýstingur virkar og margt fleira.