Náttúruminjasafni Íslands var tilkynnt fyrirvaralaust með bréfi frá Þjóðminjasafni Íslands dags. 24. janúar s.l. að húsaleigusamningi við Náttúruminjasafnið í Loftskeytastöðinni væri sagt upp frá og með 1. febrúar 2015. Í uppsagnarbréfinu er jafnframt greint frá því að forsætisráðuneytið hafi samþykkt þann 13. janúar s.l. að færa yfirráð hússins og umsjón með því frá Þjóðminjasafninu til Háskóla Íslands.

Þessar ákvarðanir koma sér illa fyrir Náttúruminjasafnið og setja starfsemina og það uppbyggingarstarf sem átt hefur sér stað á undanförnu rúmu ári í uppnám. Í húfi er m.a. rannsóknasamstarf við háskólastofnanir. Ekkert samráð hefur verið haft við forstöðumann Náttúruminjasafnsins í þessu máli en málsaðilum kunnugt um brýna þörf Náttúruminjasafnsins á skrifstofuaðstöðunni í Loftskeytastöðinni og áhuga á áframhaldandi veru þar, a.m.k. á meðan stofnunin sinnir ekki sýningahaldi á eigin vegum sem hæfir höfuðsafni.

Í húsaleigusamningnum við Þjóðminjasafnið er ákvæði um 6 mánaða uppsagnarfyrirvara. Taki Háskólinn strax yfir allt húsið verður Náttúruminjasafnið að vera komið úr Loftskeytastöðinni með allt sitt hafurtask fyrir lok júlí n.k. Það er hins vegar óskandi að Náttúruminjasafnið fái áfram inni í Loftskeytastöðinni með skrifstofustarfsemi sína.