– hugleiðing forstöðumanns á jólaföstu 2016
Þá hefur árið 2016 senn runnið sitt skeið á enda með kostum sínum og göllum, sigrum og ósigrum, gleði, harmi og hamingju – eins og gengur. Ekki verður annað sagt en að rofað hafi til í málefnum safnsins nú á allra síðustu vikum og að nokkuð bjart sé framundan, a.m.k. í ljósi hartnær 130 sögu safnsins og forvera þess.
Hér er annars vegar átt við þingsályktunina vegna 100 ára fullveldisafmælis íslenska ríkisins árið 2018, sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingkosningarnar í október, og hins vegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 sem lagt var fram í byrjun desember. Í báðum tilvikum felast býsna merk tíðindi fyrir Náttúruminjasafnið.
Í fyrra tilvikinu, þingsályktuninni sem samþykkt var í október, er að finna málsgrein um Náttúruminjasafnið þar sem segir að Alþingi skuli „fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“ Þetta er í fyrsta skipti síðan safnið var sett á laggirnar sem fyrir liggur staðfestur, þverpólitískur vilji Alþingis til að gera vel við höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum. Að ályktuninni stóðu forsvarsmenn allra fimm flokkanna sem sæti áttu á síðasta Alþingi og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust en sjö þingmenn voru fjarverandi. Afar ánægjuleg niðurstaða og þótt fyrr hefði verið! Gangi allt eðlilega eftir á Alþingi næsta vor verður Náttúruminjasafni Íslands loksins gert kleift að byggja starfsemi sína upp til frambúðar og rækja mikilvægt fræðslu- og menntunarhlutverk sitt með sóma og virðingu í samræmi við lög. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Hin ánægjulegu tíðindin eru að samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi hækkar fjárheimild safnsins árið 2017 um nær 50% miðað við fyrri ár, fer úr um 25 m.kr. á ári eins og verið hefur að jafnaði sl. tíu ár og verður tæpar 39 m.kr. Þetta er að vísu ekki há upphæð miðað við fjárveitingar til hinna höfuðsafnanna tveggja, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, sem fá á næsta ári 10-20 sinnum meira fé en Náttúruminjasafnið. En mjór er mikils vísir og með tilvísun í áðurnefnda þingsályktun er viðbúið að í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni fyrir árabilið 2018-2022 verði staða Náttúruminjasafnsins allt önnur.
Það er ekki einasta að bjart sé framundan hjá Náttúruminjasafninu heldur gekk starfsemi safnsins og samstarfsmanna þess á líðandi ári mjög vel. Margs er að minnast en hæst stendur útgáfan með Lesstofunni á stórvirki Viðars Hreinssonar um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar sem kom út í nóvember og tilnefnd hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Viðar gekk til liðs við Náttúruminjasafnið fyrir tæpum tveimur árum síðan og veitir safnið honum starfsaðstöðu og eilítinn fjárstuðning. Mikill fengur er af samstarfinu við Viðar og ljóst nú þegar að framhald verður á því. Það verkefni mun byggjast m.a. á afar áhugaverðum niðurstöðum í rannsókn Viðars á Jóni lærða og varða uppgötvun hans á áður óþekktum myndverkum hans.
Af öðrum merkisviðburðum í starfsemi safnsins árið 2016 skal getið samstarfsins við Ólöfu Nordal myndlistarkonu og sérsýningarinnar með henni, Geirfugl (Pinguinus impennis) – aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem opnuð var við hátíðlegt tækifæri 16. júní á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sérsýningin þykir einkar sterk og vönduð og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Sýningin stendur í ár og er hluti af grunnsýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem Náttúruminjasafnið stendur að ásamt Árnastofnun, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Listasafni Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjalasafninu. Sjónarhornssýningin var opnuð 18. apríl 2015 og stendur yfir í fimm ár.
Til merkisviðburða í starfsemi á árinu ber einnig að nefna útgáfu á fyrstu tveimur skýrslum í ritröð Náttúruminjasafnsins. Annars vegar er það skýrslan Samþætt mat á fjölbreytni náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 001, 20 bls.) og hins vegar Um áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 002, 42 bls.). Hér eru á ferð niðurstöður í verkefni samstarfsaðila Náttúruminjasafnsins, RORUM ehf., sem unnin voru fyrir faghóp 1 í þriðja áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Höfundar að skýrslunum eru Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorleifur Eiríksson líffræðingur. Náttúruminjasafnið veitir Rorum starfsaðstöðu í Loftskeytastöðinni gegn afnotum af niðurstöðum í sameiginlegum rannsóknum á sviði safn- og náttúrufræða.
Ýmislegt fleira mætti telja upp, jafnt orðna hluti sem fyrirheit, sem gefur tilefni til að fagna og líta framtíð Náttúruminjasafns Íslands björtum augum, en hér skal látið staðar numið.
Það er vonandi að þau teikn sem nú eru á lofti um bættan hag Náttúruminjasafnsins rætist hið fyrsta, þannig að safnið fái að upplýsa og fræða þjóðina og gesti landsins um undur og eðli náttúrunnar sem allt mannlíf er háð og ganga verður um af virðingu með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
Ég óska samstarfsfólki Náttúruminjasafns Íslands og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs. Með þökk fyrir árið sem er að líða.
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður