Það er með sannri ánægju sem við segjum frá því að nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins sem hefur verið í bígerð um nokkurt skeið hefur nú litið dagsins ljós. Vefinn er að finna á slóðinni natturufraedingurinn.is og eru útgefendur þeir sömu og standa að útgáfu tímaritsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands.

Vefurinn mun þjóna því hlutverki að birta greinar sem birst hafa í Náttúrufræðingnum sem og annað efni sem tengist náttúrufræði almennt. Markmið og tilgangur vefsins er að vekja athygli á tímaritinu og breikka lesendahópinn með því að gera efnið aðgengilegra svo fleiri fái tækifæri til þess að lesa það. Með því vinnur Náttúrufræðingurinn að því að auka áhuga og þekkingu á náttúrufræðum, umhverfisvísindum og umhverfismálum og hafa þannig áhrif á viðhorf til náttúrunnar og verndunar hennar. Til að þjónusta lesendur framtíðarinnar er nauðsynlegt að þetta efni sé til á rafrænu formi sem stenst kröfur um notendavænleika og auðvelt er að nálgast.

Á vefnum er að finna síðustu þrjá árganga tímaritsins en unnið er að því að setja inn eldra efni. Einnig er hægt að skoða öll tölublöð tímaritsins frá 1. árgangi 1931, á timarit.is. Margrét Rósa Jochumsdóttir, sem tók við starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins fyrir ári síðan og er jafnframt vefstjóri vefsetursins, hannaði og setti upp vefinn. Ingi Kristján Sigurmarsson grafískur hönnuður, sem sér um útlit og umbrot Náttúrufræðingsins, sá um að samræma útlit vefsins og prentuðu útgáfu Náttúrufræðingsins. Við erum afskaplega ánægð með árangurinn og ritstjóri þiggur með þökkum allar ábendingar og hugmyndir að efni í tölvupósti á netfangið ritstjori@hin.is.